Bændamarkaður á Grund á Jökuldal
Í sumar hefur bændamarkaður verið rekinn á Grund á Jökuldal við Stuðlagil, fjölsótta ferðamannastaðinn.
Á markaðnum eru vörur úr sveitinni boðnar til sölu sem konur á Jökuldal og brottfluttar, aðallega eldri konur, hafa búið til. Megnið af þeim eru ullarvörur, en einnig handunnir skartgripir og ýmiss konar annað handverk. Verður markaðurinn opinn fram yfir miðjan ágúst.
Tenging við sveitina
Rekstraraðili er fjölskyldan á Grund á Jökuldal og er Kolbrún Sigurðardóttir 77 ára verslunarstjóri markaðarins. Dóttir hennar, Stefanía Katrín Karlsdóttir, segir ferðamenn afar ánægða með þetta því þeir vilja kaupa af heimamönnum, handgert og tengja sig við þá.
„Undirbúningsvinna fyrir opnun markaðarins stóð yfir í vetur. Til dæmis var lagt mikið í hönnun og voru fengnir hönnuðir til að hanna útlit, vörumerki, umbúðir, merkimiða og fleira. Byggt var á hugmyndafræðinni um að endurnýta, tengja við sveitina, náttúrulegt og liti svæðisins og sögu þess. Þess vegna erum við með upplýsingar um konurnar úr sveitinni sem sitja og prjóna eða föndra yfir veturinn – og við seljum fyrir þær,“ segir Stefanía.
Að hennar sögn styrkti uppbyggingarsjóður Austurlands hluta hönnunarkostnaðar. „Það var gífurlega mikilvægt því undirbúningur og hönnun er oft vanmetinn kostnaður en niðurstaðan og útkoman verður miklu betri. Nú erum við með konsept sem byggir á markaði og skemmtilegu umhverfi hans. Við erum með á þessum sama stað auk markaðar, veitingavagn, salerni, tjaldsvæði og bílastæði fyrir Stuðlagil.“
Skógrækt og ferðaþjónusta
Á Grund var stundaður sauðfjárbúskapur fram á tíunda áratuginn. „Þá var skorið niður og við snérum okkur að skógrækt og núna ferðaþjónustu. Mamma mín er með fast heimili hér ásamt því að vera með heimili á Egilsstöðum,“ segir Stefanía.
Spurð um fjölda ferðamanna við Stuðlagil þetta sumarið, segir segir hún hann vera svipaðan og í fyrra. Þó sé eitthvað færra af rútum með hópa.