Beint frá býli boðar fögnuð
Félagasamtökin Beint frá býli (BFB) standa fyrir fögnuði þann 20. ágúst næstkomandi í tilefni 15 ára afmælis félagsins.
Afmælishátíð verður haldin á sex stöðum á landinu með ólíku sniði eftir aðstæðum. Verkefnisstjóri þeirra er Oddný Anna Björnsdóttir framkvæmdastjóri. „Tilgangur afmælishátíðanna er að vekja athygli á hugmyndafræði beint frá býli og þeim heimavinnsluaðilum sem eru í slíkri starfsemi hér á landi og eru í félaginu.“ Gestgjafarnir eru Jóhanna Bergmann Þorvaldsdóttir á Háafelli í Hvítársíðu fyrir Vesturland, Halldóra Ragnarsdóttir og Jóhann Pétur Ágústsson á Brjánslæk á Barðaströnd fyrir Vestfirði, Sigrún Helga Indriðadóttir á Stórhóli í Skagafirði á Norðurlandi vestra, Arna Mjöll Guðmundsdóttir og Fjóla Kim Björnsdóttir í Holtaseli í Eyjafjarðarsveit fyrir Norðurland eystra, Þorbjörg Ásbjörnsdóttir á Lynghóli í Skriðdal fyrir Austurland og Sölvi Arnarsson og Ísak Eyfjörð í Efstadal II í Bláskógabyggð fyrir Suðurland.
Gestir kynnast lögbýli þar sem starfsemi beint frá býli fer fram og geta notið þess sem þar er boðið upp á, ásamt ýmsu fleiru í tilefni dagsins. Félagsmenn landshlutans munu mæta til að kynna og selja sínar vörur. Viðburðurinn fer fram milli kl. 13–17 og er haldinn í samstarfi við landshlutasamtök hvers landshluta og markaðsstofu Vestfjarða. Nánari upplýsingar má nálgast á vef Beint frá býli og á samfélagsmiðlum