Bróðurpartur af kornuppskeru sumarsins er ónýtur
Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
Bróðurpartur af allri kornuppskeru í Eyjafirði og Suður-Þingeyjarsýslu fór forgörðum á einni frostnótt í lok ágúst. Um er að ræða gríðarlegt tjón fyrir bændur og hleypur það á tugum milljóna króna.
Guðmundur H. Gunnarsson.
Guðmundur H. Gunnarsson, starfsmaður Búnaðarsambands Eyjafjarðar og ráðgjafi í jarðrækt hjá RML, segir að aðfaranótt 30. ágúst síðastliðinn hafi svellköld frostnótt lagt stóran hluta af korni á ökrum bæði í Eyjafirði og S-Þingeyjarsýslu að velli. Frost mældist þessa nótt -3,9 gráður á Möðruvöllum í Hörgárdal og á annarri veðurathugunarstöð í Eyjafirði, Torfum í Eyjafjarðarsveit, mældist það -4,5 gráður. Frost var í allmarga klukkutíma, frá því fyrir miðnætti og allt fram til morguns.
Seinna sáð en í meðalári
Guðmundur segir að vorið hafi verið bændum erfitt, kalt var í veðri og snjókoma í lok apríl bleytti akra sem þá voru að verða tilbúnir til jarðvinnslu. Það varð til þess að sáning fór víðast hvar ekki fram fyrr en um eða upp úr miðjum maí, en á síðustu árum hefur oft verið hægt að byrja að sá korni hér norðan heiða seinni partinn í apríl.
„Þetta var um hálfum mánuði og allt upp í þremur vikum seinna en vant er. Við tók svo óvenju kalt sumar, júní og júlí voru sérlega kaldir og seinkaði það verulega skriði kornsins þótt akrarnir litu að öðru leyti vel út þrátt fyrir kalt vor og sumar, því víðast hvar var vandað til verka en margir kornbændur á svæðinu sóttu námskeið í kornrækt síðastliðinn vetur,“ segir Guðmundur.
Meðalhiti í Eyjafirði var töluvert undir meðallagi þessa sumarmánuði, í júní og júlí. Sem dæmi má nefna að meðalhiti var 8,4 gráður á Möðruvöllum í Hörgárdal í júlí og 8,7 gráður á Torfum í Eyjafjarðarsveit.
„Það er nálægt því að vera um 2–3 gráðum undir meðaltali síðustu ára og hafði vissulega áhrif á þroska kornsins, sem varð hægari fyrir vikið,“ segir hann. Kornið var því víða skammt á veg komið í þroska þegar frostnóttin umrædda helltist yfir í lok ágúst.
Gremjulegt því útlit var fyrir þokkalega uppskeru
„Upp úr miðjum ágúst fór veðrið að skána verulega norðan heiða og útlitið var alls ekki slæmt. Margir akranna voru fallegir þrátt fyrir kalt sumar og uppskera hefði orðið þokkaleg því haustið hefur verið ágætt, fínasta veður í september. Vöxturinn hefði því tekið vel við sér og uppskera held ég að hefði síst orðið mikið minni nú í ár en var í fyrra,“ segir Guðmundur.
Hann telur að þar sem seint var sáð og kalt var fyrri hluta sumars hafi kornið ekki staðið af sér áfallið í kjölfar frostnæturinnar. Korn þoli að jafnaði eina og eina frostnótt, en þá þurfi vöxtur að vera lengra kominn en raunin var.
„Kornið þolir ekki frostið þegar það er þetta skammt á veg komið í þroska. Það fór því sem fór og er verulega gremjulegt. Eftir sitja bændur með sárt ennið og gríðarlegt tjón,“ segir Guðmundur.
Meðaluppskera í fyrra um 4–5 tonn á ha
Í fyrrasumar var korn ræktað á um 460 ha lands í Eyjafirði og S-Þingeyjarsýslu en Guðmundur telur að heldur minna land hafi verið nýtt undir kornrækt nú á liðnu sumri vegna þess hve seint voraði. Uppskera í fyrra var að meðaltali um 4–5 tonn á ha. Um 40 krónur fengust fyrir kílóið í fyrrahaust.
„Jarðabótaúttekt fer fram þessa dagana, því verki er ekki lokið, en það er alveg ljóst að um heilmikið tjón er að ræða, það nemur einhverjum tugum milljóna,“ segir Guðmundur.
Einnig má geta þess að nokkrir akrar á svæðinu skemmdust af völdum sveppasmits sem upp kom á ökrunum. Slíkt smit nær meiri útbreiðslu á köldu og blautu sumri.