Búnaðarþing samþykkti einróma innleiðingu á nýju félagskerfi Bændasamtaka Íslands
Á Búnaðarþingi 2021 var einróma samþykkt að breyta félagskerfi landbúnaðarins með þeim hætti að Bændasamtök Íslands (BÍ) og búgreinafélögin sameinast undir merkjum BÍ í deildaskiptu félagi. Málið var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.
Verði þessi niðurstaða samþykkt úti í félögunum munu búnaðarsamböndin verða aðildarfélög BÍ með skilgreind hlutverk og BÍ byggð upp af deildum búgreina. Þrjú aðildarfélög; VOR, Beint frá býli og Samtök ungra bænda, munu starfa þvert á búgreinar.
Markmiðið með breytingunum er að ná aukinni skilvirkni í félagskerfinu og eflingu hagsmunagæslu í landbúnaði.
Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, segir að breytingarnar og væntanleg sameining geri Bændasamtökunum kleift að ná fram breytingum á starfseminni og hagræðingu sem geri samtökin sterkari og um leið öflugri hagsmunasamtök.
„Ég tel fulla ástæðu til að óska bændum til hamingju með samþykktina og ég er samfærður um að breytingin eigi eftir að vera allri bændastéttinni til hagsbóta. Það var gerður góður rómur að tillögunni og hún var samþykkt til afgreiðslu til búgreinafélaganna einróma. Nú fer tillagan áfram til samþykktar hjá félögunum og í framhaldi af því verður haldið aukabúnaðarþing 10. júní þar sem nýjar samþykktir verða samþykktar á grundvelli staðfestingar allra búgreinafélaganna á breytingunum.“ Gunnar segir að sú samþykkt sé í raun formsatriði.
Breytingarnar taka gildi 1. júlí
„Tillagan sem afgreidd var á Búnaðarþingi fer í framhaldinu til afgreiðslu búgreinafélaganna óbreytt og það er ekki hægt að breyta henni í meðförum þeirra. Félögin verða því að breyta sínum lögum í samræmi við tillöguna og samþykkja hana á aukabúnaðarþingi. Breytingarnar taka svo gildi 1. júlí næstkomandi.“
Nýtt skipurit BÍ
Að sögn Gunnars er búið að leggja mikla vinnu í tillöguna og búið að halda marga fundi til að koma henni saman til samþykktar.
„Á sama tíma er það búið að vera skemmtilegt starf, þrátt fyrir að það hefði verið enn skemmtilegra að gera það maður á mann í stað þess að hitta fólk á skjánum þótt það hafi tekist vel. Ég tel einnig að það hafi tekist vel með streymið af þinginu til bænda úti um allt land og áhorfið var mikið. Næsta skref okkar á skrifstofu Bændasamtakanna er að teikna upp skipurit samtakanna eins og það kemur til með að líta út eftir að breytingarnar taka gildi. Þar á ég við starfsmannahald og hver kemur til með að gera hvað og hvert sé ábyrgðarsvið hvers og eins,“ segir Gunnar Þorgeirsson.