Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Fréttir 6. desember 2018
Elísabet Gunnarsdóttir og Panda frá Daðastöðum sigruðu í A-flokki
Höfundur: AJH
Deildarmót Austurlandsdeildar SFÍ var haldið að Ytra-Lóni á Langanesi sunnudaginn 4. nóvember 2018. Brautin á Ytra-Lóni liggur niðri við sjó sem gerir mótsvæðið svolítið sérstakt og feikna fallegt.
Sjávarlyktin fyllir vitin og öldurnar syngja og dansa í fjörunni. Svolítil snjódula lá yfir svæðinu en ekkert sem þátttakendur létu stoppa sig þó hún hafi mögulega tafið aðeins fyrir kindunum á köflum.
Alls tóku ellefu hundar þátt og Gunnar Einarsson frá Daðastöðum sá um dómgæslu. Á Ytra-Lóni var boðið upp á dýrindis veitingar. Súpa fyrir keppni og hlaðborð með alls kyns gómsætu kaffibrauði eftir mót.
Eins og alltaf þá verða svona mót ekki til af sjálfu sér. Það þarf undirbúning, aðstöðu og kindur, aðstoðarfólk til að sjá um sleppingar, dómara og svo auðvitað keppendur. Svona mót eru kærkominn vettvangur fyrir okkur sem höfum áhuga á að áfram séu góðir smalahundar ræktaðir á Íslandi til að koma saman. Bæði til að sjá hvaða hundar eru til á landinu og hvernig þeir vinna, en ekki síður til að sjá hvert annað. Við sem vorum þarna komin saman ræddum um að gaman væri að reyna að hittast aftur í vetur við eitthvert annað tilefni.
Austurlandsdeildin þakkar öllum sem að mótinu komu kærlega fyrir sitt framlag. Þess má geta að þetta er fyrsta mótið í „mótaröð“ Austurlandsdeildarinnar, en annað mót er fyrirhugað á Eyrarlandi helgina 10.–11. nóvember.
Úrslit í unghundaflokki
(100 stiga keppni)
-
Sverrir Möller og Kári frá Auðólfsstöðum - 74 stig (M: Týra frá Hafnarfirði - F: Grímur frá Daðastöðum)
-
Sverrir Möller og Garri frá Auðólfsstöðum - 64 stig (M: Týra frá Hafnarfirði - F: Grímur frá Daðastöðum)
-
Einar Atli Helgason og Kría frá Snartarstöðum - 34 stig/Hætti keppni (M: Skoppa frá Sauðanesi - F: Strumpur frá Snartarstöðum)
A-FLOKKUR (110 stiga keppni)
-
Elísabet Gunnarsdóttir og Panda frá Daðastöðum - 86 stig (M: Skotta frá Daðastöðum - F: Dan frá Skotlandi)
-
Elísabet Gunnarsdóttir og Kolur frá Húsatóftum - 84 stig (M: Kría frá Daðastöðum - F: Brúsi frá Brautartungu)
-
Maríus Snær Halldórsson og Elsa frá Hallgilsstöðum - 81 stig (M: Sara frá Sigtúnum - F: Snati frá Móskógum)