Enn bjargar Kaupfélag Skagfirðinga jólunum
Kaupfélag Skagfirðinga (KS) hefur nú, annað árið í röð, rétt fram hjálparhönd til þeirra þúsunda sem lifa við skort á Íslandi með framlögum til Fjölskylduhjálpar Íslands.
Barnafjölskyldum, öryrkjum, atvinnulausum og eldri borgurum eru skammtaðar upphæðir sem festa þessa hópa í fátæktargildru, sem leiðir af sér varanlegan skaða á bæði andlegri og líkamlegri heilsu þessa hóps. „Við munum með stuðningi Kaupfélagsins ná að aðstoða þúsundir í nóvember og desember. Samstarfið hófst 1. nóvember og mun standa fram að áramótum. Við verðum með tvær úthlutanir í hverri viku fram að jólum og mun stuðningur KS gera gæfumuninn fyrir þær þúsundir, sem annars gætu ekki haldið jólin eins og hefð er fyrir hér á landi,“ segir Ásgerður Jóna Flosadóttir, stofnandi og formaður Fjölskylduhjálpar Íslands.