Fisksnakk á erlenda markaði
Nýstárlegt fisksnakk, þurrkaðar fiskflögur undir nafninu Krispa, urðu til þegar íslensk tónlistarkona í London fann hvergi harðfisk til sölu og var ekki til í kartöfluflögur í staðinn.
Á jólamarkaðsrölti nýverið mátti sjá til sölu harla óvenjulegan harðfisk: hertan þorsk með svörtum ólífum og hvítlauk. Þótti það nýstárlegt og því gripin askja og harðfisksnakkið smakkað. Söluaðilinn, Alda Björk Ólafsdóttir, upplýsti að samsetningin væri komin úr svonefndu Miðjarðarhafsfæði.
Alda var spurð um tilurð framleiðslunnar og rekur hana til búsetu sinnar í Bretlandi, þar sem hún bjó í rúmlega þrjá áratugi. Þar hafi engan harðfisk verið að fá.
„Árið 1989 flutti ég til London vegna þess að ég er söngkona og lagahöfundur og vildi „meika“ það og það gekk mjög vel,“ segir hún og heldur áfram: En sem Íslendingur, og alin upp á vissum tíma, þá var ég ekki alin upp við að borða kartöfluflögur og annað „rusl“ og í Bretlandi var ekki seldur harðfiskur.“
Hreinn og ómengaður fiskur
„Ég byrjaði því að hugsa; ég hlýt að geta búið til minn eigin harðfisk heima. Svo ég byrjaði að þróa þessa hugmynd og þannig varð Krispa til. Þunnar flögur, svipaðar og kartöfluflögur, en eru bara hreinn, ómengaður fiskur með náttúrulegum kryddum eins og jalapeño, ostrusósu og svörtum ólífum,“ segir hún.
Alda framleiðir fisksnakkið úr verðlitlu hráefni sem nýtist illa í aðra framleiðslu, til dæmis afskurði og roð sem ella færi í dýrafóður. Í vörulínunni má m.a. finna þorsk, þurrkaðan villtan lax, landeldislax, bleikju og bleikjuroð. Framleiðslan er seinleg og mikil handavinna og því hefur verið unnið að því að fá betri tæki og fleiri hendur í verkefnið.
Hún selur afurðir sínar undir merkinu Krispa Fish Snack í Hagkaup á höfuðborgarsvæðinu, í Fiskási fiskbúð á Hellu og í nýrri verslun sinni, Made in Ísland, á Selfossi. Um það hvort hún sé að þróa fleiri vörur segir hún að í tilraunaeldhúsi sínu séu nú þróaðar nýjar tegundir sem fara munu í sölu á næstu misserum.
Markaðssetning í Bretlandi og Bandaríkjunum
Framleiðslan fer fram á Hellu á Rangárvöllum í fiskverkuninni Fiskási. Hráefnið kemur frá fiskverkunum í Þorlákshöfn og frá Fiskási fiskverkun.
„Ég hef ásamt eiginmanni mínum, Atla Lilliendahl, unnið við framleiðsluna ásamt tímalaunuðu starfsfólki frá Hellu og Hvolsvelli. Ég reikna með að allt að fjögur heilsársstörf muni skapast þegar framleiðslan er komin í fullan gang,“ segir Alda.
„Ég kalla þessar afurðir fisksnakk þar sem þetta er ekki framleitt eins og hefðbundinn harðfiskur. Varan hefur fengið frábærar viðtökur og vakið óskipta athygli bæði hérlendis og erlendis. Og þess má geta að unnið er hörðum höndum við að koma framleiðslunni í verslanir í Bretlandi og Bandaríkjunum í samstarfi við Matvælastofnun,“ segir hún að endingu.
Viking Kitchen, fyrirtæki Öldu og Atla, fékk í fyrra tæplega 8 milljóna króna styrk úr Fjársjóði Matvælasjóðs til að undirbúa markaðssókn erlendis fyrir fisksnakkið.