Fjárveiting ársins til snjómoksturs að klárast í Dalvíkurbyggð
Snjómokstur á yfirstandandi vetri var til umræðu á fundi Byggðaráðs Dalvíkurbyggðar í liðinni viku en veturinn hefur verið mjög snjóþungur, miklir umhleypingar sem oft og tíðum kalla á daglegan snjómokstur bæði í þéttbýli og dreifbýli.
Fyrir lá samantekt á kostnaði við snjómokstur í Dalvíkurbyggð fyrir árin 2015 til 2020 þar sem fram kemur að í desember 2019 og janúar og febrúar 2020 er varið meiri fjármunum til snjómoksturs en í nokkrum öðrum mánuðum á þessu 5 ára tímabili.
Fjárveiting fyrir árið að klárast
Þannig er meðaltal kostnaðar vegna snjómoksturs árin 2015–2018 um 25 milljónir króna á ári. Árið 2019 varði Dalvíkurbyggð tæpum 40 milljónum króna í snjómokstur í heild, stærsti einstaki mánuðurinn var desember með 15 milljónir króna. Janúar 2020 kostaði 11,5 milljónir króna og áætlað er að febrúar hafi kostað um 14 milljónir króna í snjómokstri.
Í fjárhagsáætlun 2020 var gert ráð fyrir 25,8 milljónum í snjómokstur og er það fjármagn að klárast um þessar mundir.
Fram kom á fundinum að einungis væri um það að ræða að draga mjög verulega úr þjónustu eða samþykkja viðauka. Með fundarboði fylgdi beiðni um viðauka upp á 20 milljónir króna í aukinn snjómokstur og að honum verði mætt með lækkun á handbæru fé. Byggðaráð samþykkti viðaukann með tveimur atkvæðum. Og var málinu vísað til afgreiðslu í sveitarstjórn.
Fjármagn dugir ekki til snjómoksturs í erfiðu árferði
Þá lýsti byggðaráð yfir áhyggjum sínum af því að það fjármagn sem er úthlutað til Vegagerðarinnar til snjómoksturs dugar engan veginn til í árferði eins og verið hefur í vetur. Því er nauðsynlegt að til komi aukafjárveitingar til Vegagerðarinnar til snjómoksturs í Eyjafirði á móti þeim aukafjárveitingum sem sveitarfélögin eru að leggja til. Sveitarstjóra er falið að senda slíka beiðni til samgöngu- og sveitarstjórnaráðuneytis. Þá var sveitarstjóra falið að sækja um viðbótarframlög úr Jöfnunarsjóði vegna snjómoksturs veturinn 2019–2020.