Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Jón Loftsson fyrrverandi skógræktarstjóri í 40 ára  lerkiskógi.
Jón Loftsson fyrrverandi skógræktarstjóri í 40 ára lerkiskógi.
Fréttir 25. janúar 2016

Framtíð skógræktar á Íslandi er björt

Höfundur: Vilmundur Hansen

Jón Loftsson lét af störfum um síðustu áramót eftir 25 ára farsælt starf sem skógræktarstjóri. Alls hefur Jón starfað hjá Skógrækt ríkisins í rúm 40 ár.

„Ég hóf störf hjá Skógræktinni sem aðstoðarskógarvörður hjá Sigurði Blöndal í Hallormstaðaskógi árið 1974 og tók við af honum sem skógarvörður 1978 þegar hann var skipaður skógræktarstjóri. Ég var skógarvörður til 1990 en það ár var ég skipaður skógræktarstjóri og starfaði sem slíkur þar til um síðustu áramót þegar ég lét af störfum fyrir aldurssakir.“

Lærði í Noregi

Jón er stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík og fór síðan til Danmerkur í eitt ár í for- eða starfsnám í skógrækt. Þaðan fór hann í landbúnaðarskólann á Ási í Noregi og lærði skógrækt. Því námi lauk Jón 1973 og kom heim árið eftir og flutti austur á Fljótsdalshérað og hefur búið þar síðan.

Það er ekki tilviljun að hugur Jóns hneigðist til skógræktar. Einar Sæmundsen móðurafi hans, fór til Danmerkur árið 1905, ásamt þremur öðrum, að læra skógfræði. Skógrækt ríkisins var stofnuð 1908 og Einar var einn af fyrstu skógarvörðunum hjá stofnuninni og allt fram undir seinni heimsstyrjöldina. Hann byrjaði sem skógarvörður á Vöglum í Fnjóskadal en síðar á Suðurlandi og varði mestum sumartíma sínum í að leiðbeina bændum um skógrækt. Á veturna starfaði Einar sem þingritari.

Fór ungur að vinna við ræktun

„Móðurbróðir minn, Einar Sæmundsen yngri, lærði líka skógfræði í Danmörku og Noregi og starfaði lengst af sem framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur og byggði upp gróðrarstöðina í Fossvogi og var jafnframt skógarvörður Skógræktar ríkisins á Suðvesturlandi. Til fimm ára aldurs bjó fjölskyldan í Reykjavík hjá afa og ömmu á Grettisgötunni. Árið 1950 fluttum við í Fossvogsdalinn í Kópavogi í hús sem pabbi, Loftur Einarsson húsasmíðameistari, byggði við Nýbýlaveg í Kópavogi við hliðina á stórbýlinu Lundi. Auk foreldra minna og systkina bjó Einar yngri og fjölskylda þar.

Seinna var byggt sams konar hús við hliðina á okkar. Pabbi féll frá þegar ég var sjö ára en þá flutti móðuramma mín til okkar og hélt heimili með móður minni, Guðrúnu Einarsdóttur Sæmundsen. Þarna var stórfjölskyldan saman, mamma, amma, Einar frændi og hans kona, við þrír bræður og fjögur systkinabörn. Þarna var mikil samheldni.

Gróðrarstöð Skógræktarfélags Reykjavíkur var örstutt frá heimili okkar og ég var mjög ungur þegar ég byrjaði að vinna þar. Ég hef því verið viðloðandi skógrækt frá 1955, eða í 60 ár.“

Jón segir að um tíma hafi hann hugsað sér að verða dýralæknir enda mikill áhugi á hestum í fjölskyldu hans. „En skógurinn var yfirsterkari og ég sé ekki eftir því.“

Um 50 starfsmenn

Árið 1990 breytti Alþingi lögum um skógrækt og aðalstöðvar Skógræktar ríkisins voru fluttar á Fljótsdalshérað í framhaldi af því. Fyrsta verk Jóns sem skógræktarstjóra var að flytja stofnunina þangað.
„Það voru ekki allir starfsmenn skrifstofunnar tilbúnir til að fylgja með en flutningurinn tókst með ágætum þrátt fyrir það enda komið að kynslóðaskiptum. Margir fengu að ljúka starfsferli sínum í Reykjavík og nýtt fólk var ráðið inn fyrir austan.

Starfsmenn Skógræktar ríkisins eru um 50 í dag en starfsmenn aðalskrifstofunnar ekki nema átta. Skógræktin er líklega sú ríkisstofnun sem er með einna bestu dreifingu starfsmanna um landið.
Jafnframt því sem stofnunin var flutt austur urðu þær breytingar að Skógrækt ríkisins, sem fram til þess hafði séð um að rækta skóg fyrir Ísland og Íslendinga, fór hún að vera meira ráðgefandi og bændur tóku meira við ræktuninni sjálfri. Þetta var á þeim tíma sem svokölluð landshlutaverkefni í skógrækt voru sett á laggirnar. Fyrst Héraðsskógar og í framhaldinu, Suður-, Norður- og Vesturlandsskógar og Skjólskógar á Vestfjörðum, verkefni sem dekka allt landið í dag.

Aðaltegundir í skógrækt á Íslandi eru í dag sitkagreni, stafafura, lerki alaskaösp og að sjálfsögðu íslenskt birki. Á Austurlandi er mest ræktað af lerki en í Borgarfirði, Hauka- og Þjórsárdal er aðallega ræktað greni,“ segir Jón.

Landshlutaáætlanirnar mikil framför

Jón segir að í dag séu bændur stærstu aðilarnir í nýskógrækt í landinu. „Ég kom mikið að því að setja landshlutaverkefnin af stað og ráðgjöf þeim tengdum. Breytingarnar frá því að ég hóf störf hjá Skógræktinni eru því gríðarlegar.

Ef ég hugsa til baka til 1974,  þegar ég kom fyrst á Fljótsdalshérað og keyrði frá Egilsstöðum, sá ég engan skóg fyrr en ég kom að Hallormsstað. Í dag er samfelldur skógur alla leiðina og ég átti ekki von á því á sínum tíma að ég mundi lifa það á minni starfsævi að grisjun, skógarhögg og viðarvinnsla yrðu stór hluti að verkefnum stofnunarinnar. Þannig er það í dag og ég fékk að lokum tækifæri til að nýta það sem ég lærði í háskólanum á Ási á sínum tíma. Það er ekki nóg að planta skógi því það þarf líka að sinna þeim með grisjun og úrvinnslu afurða þegar sá tími er kominn.

Í dag eru það ekki lengur ríkis­­starfsmenn sem sinna þeim verkum heldur verktakar með skógarhöggsvélar og stóra flutningabíla.“

Höggva 5 til 6 þúsund rúmmetra á ári

„Fyrir tíu árum seldi Skógræktin nokkur hundruð rúmmetra af timbri á ári og mest sem arinvið. Kaupendur voru fáir og áhugi fyrir íslenskum við lítill. Svo kom blessað hrunið, eins og við köllum það, og erfitt var að fá gjaldeyri. Í framhaldinu uppgötvuðu menn að það var orðin til skógarauðlind í landinu sem hægt var að nýta til margs konar framleiðslu, spæni sem undirburð fyrir búfé, viðarkurl sem kolefnisgjafa við kísilmálmvinnslu, spírur í fiskhjalla og sífellt meira efni og eftir því sem trén stækkuðu var sagað í planka og borð og nýtt til dæmis sem klæðningar á hús.

Í dag erum við að grisja og höggva fimm til sex þúsund rúmmetra á ári. Af því er um 10% sem er hægt að saga í planka og borð en stærstur hlutinn er grisjunarviður sem er seldur til Járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga.“

Jón segir að forstöðumenn Járnblendiverksmiðjunnar hafi óskað eftir því við Skógrækt  ríkisins að gera tilraun með íslenskt timbur til brennslu í ofnum verksmiðjunnar og keyptu  þúsund tonn af kurluðu timbri í fyrsta áfanga.

„Kurlinu er blandað saman við kísilinn áður en hann er brenndur. Afurðin sem kom út úr tilrauninni og unnin var með íslensku timbri er að þeirra sögn bæði betri og verðmætari en fæst með brennslu á kolum eða koxi. Í framhaldi af því vildi járnblendið fá 30 þúsund tonn á ári af kurli og borga nokkuð gott verð fyrir það. Slíkt magn er langt umfram það sem við ráðum yfir og ég sagði þeim að tala við okkur eftir 30 til 40 ár. Það sem vantar upp á flytja þeir inn að mestu frá Kanada.

Járnblendið vill sem sagt kaupa allan þann við sem við getum lagt til og það er mikil breyting frá því sem áður var. Okkar útreikningar sýna reyndar að markaðurinn fyrir íslenskan við sé nánast óendanlegur og hægt að tala um hann í hundruðum þúsunda rúmmetra þegar fram líða stundir.“

Skógar verðmæt auðlind

Jón segir að þrátt fyrir að framlög til skógræktar hafi dregist saman um nánast helming við hrunið og enn sé talsvert í að framlögin verði þau sömu og áður hafi margir áttað sig á gildi skógræktar sem auðlindar eftir hrun.

„Vegna aukinnar sölu skógarafurða í kjölfar hrunsins tókst Skógræktinni að mestu leyti að halda dampi og vera að hluta til sjálfbær og með grænar tölur í bókhaldinu. Starfsemi stofnunarinnar dróst því lítið saman.“

Bændur stærstir í nýskógrækt

„Í nánustu framtíð verða það bændur sem verða stærstu skógareigendur landsins en ekki Skógræktin. Skógarnir sem efnt var til um 1990 verða fljótlega komnir í grisjunarstærð og þá geta eigendur þeirra farið að hafa af þeim tekjur.“

Jón segir að til þessa hafi skógrækt á landinu verið öflugust á Fljótsdalshéraði en að Suður- og Norðurland fylgi þar fast á eftir.

„Skógar landsins hafa verið teknir út í verkefni sem kallast Íslensk skógarúttekt og er unnið af sérfræðingum á rannsóknastöð Skógræktar ríkisins á Mógilsá. Þetta skógarbókhald er að hluta til unnið vegna skuldbindinga Íslands varðandi Kyoto-samninginn og við þurfum að hafa það alveg á hreinu hversu mikið af nýjum skógum er að verða til og hversu mikið þeir vaxa til að tíunda kolefnisbindingu landsins.
Það ánægjulega gerðist í fyrsta skiptið í fyrra að þróunin snerist við og meira varð til af skógi en eyddist. Útbreiðsla skóga á landinu var komin niður í um það bil 1,3% af heildaflatarmáli landsins og mest birkiskógur en í dag þekur skógur náttúrulegur og ræktaður um 1,8%. Ísland er þrátt fyrir allt stórt land þannig að skógar eru farnir að þekja talsvert marga hektara.“

Bjart framundan

„Helstu verkefnin framundan að mínu mati eru að brýna fjárveitingavaldið til að auka framlög til skógræktar í að minnsta kosti það sem þau voru fyrir hrun þannig að hægt verði að stækka skógarauðlindina enn frekar. Við þurfum einnig að byggja upp einhvers konar innra kerfi í landinu hvað varðar skógrækt og skógarnytjar. Kerfið er til í sauðfjárbúskap og mjólkurframleiðslu en ekki þegar kemur að skógrækt. Hér vantar alla innviði sem viðkoma markaðsmálum skógarafurða og þá verðum við að fara að byggja upp.

Skógræktin hefur að mestu séð um þessi mál en nú þegar bændur fara sjálfir að selja skógarafurðir sínar vantar utanumhald og í ansi mörg horn að líta.

Timbur er sú afurð í heiminum sem sveiflast hvað minnst í verði og heldur vel verðgildi sínu og þannig hefur það verið lengi. Verð á timbri er einnig hátt og óþarfi að flytja það inn ef við getum framleitt það sjálfir á sjálfbæran hátt og sem alvöru atvinnugrein.

Verkefnin framundan eru næg og framtíð skógræktar á Íslandi björt,“ segir Jón Loftsson, fráfarandi skógræktarstjóri að lokum. 

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...