Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Sauðfjárveikivarnarhólf. Bergsstaðir og Syðri-Urriðaá eru í Miðjarðarhólfi sem merkt er númer sjö á kortinu, en ekki hafði áður greinst riða í því. Nú eru alls átta hólf skilgreind sem sýkt; Landnámshólf, Vatnsneshólf, Húna- og Skagahólf, Tröllaskagahólf, Suðurfjarðarhólf, Hreppa-, Skeiða- og Flóahólf, Biskupstungnahólf og Miðfjarðarhólf. Upphaflega var fyrirkomulaginu komið á til að útrýma öðrum sauðfjársjúkdómum en riðu, sem borist höfðu til Íslands með innfluttu fé.
Sauðfjárveikivarnarhólf. Bergsstaðir og Syðri-Urriðaá eru í Miðjarðarhólfi sem merkt er númer sjö á kortinu, en ekki hafði áður greinst riða í því. Nú eru alls átta hólf skilgreind sem sýkt; Landnámshólf, Vatnsneshólf, Húna- og Skagahólf, Tröllaskagahólf, Suðurfjarðarhólf, Hreppa-, Skeiða- og Flóahólf, Biskupstungnahólf og Miðfjarðarhólf. Upphaflega var fyrirkomulaginu komið á til að útrýma öðrum sauðfjársjúkdómum en riðu, sem borist höfðu til Íslands með innfluttu fé.
Mynd / Matvælastofnun
Fréttaskýring 28. apríl 2023

Ákall er um breytingar á riðuvörnum

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Riðuveiki í sauðfé hefur í fyrsta sinn greinst í Miðfjarðarhólfi, sauðfjárveikivarnarhólfs í Vestur-Húnavatnssýslu. Um 1.400 fjár hefur verið skorið niður á tveimur bæjum. Ákall er í búgreininni meðal bænda og sauðfjárræktarráðunauta um breytt fyrirkomulag á riðuveikivörnum. Þá hefur yfirdýralæknir lagt ákveðnar breytingar til á fyrirkomulagi varnarhólfa og á riðureglugerð þess efnis að verndandi arfgerðir gegn riðusmitum verði hlíft við niðurskurði þegar tilfelli koma upp í hjörðum.

Sigurborg Daðadóttir yfirdýralæknir.

Tillögur yfirdýralæknis um breytingar á reglugerð um riðu og endurskoðun varnarhólfa hafa legið í ráðuneytinu frá því í desember árið 2021. Samkvæmt upplýsingum sem fengust úr ráðuneytinu í október fólu breytingatillögur yfirdýralæknis í sér umtalsverðar breytingar á regluverkinu. Ákvörðun hafi verið tekin um að fara í heildarendurskoðun á lagabálkunum sem snúa að dýraheilbrigði. Vinnan sé umfangsmikil og ekki ljóst hvenær henni lýkur.

Að sögn Sigurborgar Daða­dóttur yfirdýralæknis þarf lagabreytingar til endurskipulags sauðfjárveikivarnarhólfa – og aðkomu Alþingis. Hins vegar sé hægt að afleggja varnarlínur og breyta reglugerð sem gerir ráð fyrir algjörum niðurskurði, án lagabreytinga.

Tilfellum fækkað en hjörðum einnig

Á liðlega 40 árum hafa rúmlega 850 hjarðir verið skornar niður á Íslandi, með meira en 200 þúsund fjár. Deildar meiningar eru um árangurinn af þessum aðgerðum, en ljóst er að tjónið er mikið – bæði fjárhagslegt og tilfinningalegt fyrir bændur sem hafa ræktað upp sínar hjarðir. Á þessum tíma hafa ríflega 620 bæir gengið í gegnum þær hörmungar.

Óumdeilt er að riðutilfellum hefur fækkað umtalsvert, en að sama skapi einnig fjöldi hjarða í landinu. Þegar niðurskurðaraðgerðir hófust voru 25 varnarhólf af 38 sýkt. Í dag eru átta af 25 hólfum sýkt. Riða hefur komið aftur í nýjan fjárstofn á um 12 prósent bæjanna og á suma oftar en einu sinni. Áætlað er að aflétting riðuhafta verði í Landnámshólfi 31. desember á þessu ári.

Riða í Miðfjarðarhólfi

Í lok mars tilkynntu bændurnir á Bergsstöðum um einkenni í tveimur kindum sínum sem gætu bent til riðuveiki. Starfsfólk Matvælastofnunar tók sýni og síðan var grunurinn staðfestur á Tilraunastöð Háskóla Íslands að Keldum. Samkvæmt reglugerð um útrýmingu á riðuveiki leggur yfirdýralæknir til við landbúnaðarráðherra að ef riðuveiki er staðfest í hjörð verði öllum kindunum lógað hið fyrsta. Á Bergsstöðum voru 690 kindur og var þeim öllum fljótlega fargað, auk annarra tuttugu sem fluttar voru þaðan á níu bæi innan hólfsins. Niðurstöður sýnatöku úr þessum tuttugu kindum sýndu að ein kind var riðusmituð – og hana var hægt að rekja á bæinn Syðri­Urriðaá, þar sem skera þurfti niður um 720 kindur í kjölfarið.

Báðar hjarðirnar voru skornar niður á útisvæði sláturhússins á Hvammstanga; Bergsstaðaféð var flutt í fimm gámum til förgunar í Kölku, sorpeyðingarstöðvar á Suðurnesjum – en vegna bilunar sem kom síðan upp í stöðinni þurfti að urða hræin frá Syðri­Urriðaá, sem er neyðarúrræði. Umhverfisstofnun hefur umsjón með slíkri förgun. Í leiðbeiningum hennar, um urðun og frágang vegna riðusmitaðs úrgangs, kemur fram að áður en val á endanlegum urðunarstað fari fram sé svæðið yfirfarið með tilliti til umhverfisaðstæðna sem þar er að finna, til dæmis gerð jarðvegs, grunnvatnsstöðu, rennslishátta og hæð í landi.

Tæplega 100 kindur seldar á tíu árum

Miðfjarðarhólf er nú skilgreint sem sýkt svæði næstu tuttugu árin hið minnsta, ef ekkert smit kemur upp á þeim tíma. Með þeirri skilgreiningu felst sú breyting að óheimilt er að flytja sauðfé til lífs á milli hjarða innan hólfsins, auk annars sem geti borið smitefni eins og til dæmis hey, heyköggla, hálm, húsdýraáburð, túnþökur og gróðurmold. Þær tuttugu kindur sem var lógað frá öðrum bæjum voru þær sem eftir lifðu af þeim tæplega 40 kindum sem fluttar hafa verið frá Bergsstöðum á bæi innan hólfsins á síðustu fimm árum. Talið er að frá því að kind smitast og þar til hún sýnir sjúkdómseinkenni geti liðið eitt til tvö ár að meðaltali – eða jafnvel allt að fimm ár.

Á síðasta áratug hafa tæplega 100 kindur verið seldar frá Bergsstöðum og leggur Sigurborg áherslu á að eðli sjúkdómsins sé með þeim hætti að alls ekki sé hægt að útiloka að smitefni hafi borist á einhverja fleiri bæi þótt þar sé ekki staðfest riðusmit.

Unnið er að rannsóknum á sýnum frá Bergsstöðum og síðan verður farið í að greina sýni frá Syðri­Urriðaá. Þaðan hafa farið kindur á um 25 bæi á síðustu tíu árum. Fjöldinn er hins vegar enn ekki ljós þar sem kaupendur hafa ekki allir verið með skýrsluhald í Fjárvís. Verið er að afla þessara upplýsinga.

„Já, þannig er staðan. Bæirnir verða undir aukinni vöktun rétt eins og allt hólfið komandi misseri og ár,“ segir Sigurborg.

Sýni úr mænukylfunni til greiningar

Þegar skorið er úr um hvort kind er riðuveik, þarf að lóga henni og taka sýni til greiningar úr mænukylfunni. „Það er hægt að finna riðusmitefni í tilteknum eitlum úr lifandi fé, en það er ekki viðurkennd greiningaraðferð,“ segir Sigurborg.

Hún segir að talsverð óvissa fylgi þessum smitsjúkdómi og því þurfi að gæta ýtrustu varkárni við sóttvarnir. „Við erum í raun bara á fyrstu stigum smitrakningar. Við vitum í raun heldur ekki neitt fyrir víst um smitleiðina inn í hólfið,“ bætir hún við.

Helstu smitleiðir þekktar

Sigurborg segir afar mikilvægt að leggja áherslu á það við bændur að huga að helstu smitleiðum í sínum smitvörnum. „Þær eru þekktar og eru einkum í kringum sauðburð; til að mynda í fæðingavökvanum og í hildunum. Yngra fé er smitnæmara en það eldra. Smitvarnir á sauðburði eru rosalega mikilvægar, að fólk sé ekki að fara á milli bæja til að hjálpa til við sauðburð. Huga þarf að hreinlæti eins og mögulegt er – og nota klór við sótthreinsun.

Síðan er þetta beina smit frá dýri til dýrs, sem þýðir að það á ekki að vera að flytja kindur á milli bæja eða taka aðkomufé inn í fjárhús til sín – sem mér finnst alveg skelfilegt. Þótt það sé ekki bannað þá er það bara of mikil áhætta því riðan smitast gjarnan einmitt í gegnum drykkjaráhöld eða við fóðurgrindur.

Aðrar beinar og óbeinar smitleiðir

Þetta séu aðalsmitleiðirnar, en aðrir möguleikar um beinar smitleiðir séu til staðar. Til dæmis þegar verið sé að rýja og kamburinn kemst í snertingu við blóð – og svo er farið á næsta bæ þar sem kamburinn kemst líka í snertingu við blóð. Sigurborg segir þetta vera dæmi um aðrar smitleiðir sem vissulega séu fleiri.

„Svo getur riða borist með heyi, tækjum og tólum, sem eru dæmi um óbeinar smitleiðir. Það eru minni líkur á slíkum smitum og enn minni til dæmis í hagagöngu,“ segir Sigurborg.

Hún leggur áherslu á að tilgátur um smit úr jarðvegi séu óraunhæfar, enda hafi rannsóknir sýnt fram á að litlar líkur séu á að fé smitist á beit.

Skilvirkari leiðir í baráttunni gegn riðu

Á undanförnum misserum hafa vonir vaknað um að hægt verði að beita skilvirkari aðferðum í baráttunni gegn riðu en varnarhólfum og niðurskurði. Ráðist hefur verið í nokkuð umfangsmiklar arfgerðarannsóknir í íslensku sauðfé til að finna gripi með verndandi arfgerðir gegn riðusmiti, sem hægt verði að nota til kynbóta – og þar með að lokum að rækta upp riðuþolinn íslenskan sauðfjárstofn.

Í kjölfar ótíðinda af riðutilfellum og niðurskurði á Bergsstöðum og Syðri-Urriðaá hefur verið kallað eftir heildarendurskoðun og -viðhaldi á sauðfjárveikvarnarlínum til að styrkja sóttvarnir varnarhólfanna. Sigurborg hefur unnið með ráðuneytum landbúnaðarmála á undanförnum árum að tillögum til endurskipulagningar lagaumgjörðar um riðuvarnir. Þar hefur hún meðal annars lagt til að farið verði að fordæmi flestra annarra Evrópuþjóða; að gripir með verndandi arfgerðir verði ekki skornir niður í hjörðum þar sem riða kemur upp. Aukinheldur hefur Sigurborg lagt til að varnarhólfafyrirkomulagi smitvarna verði breytt. „Núverandi fyrirkomulag var sett upp á sínum tíma til að hefta útbreiðslu á mæðivisnuveirunni – sem er allt annað fyrirbæri en riðusjúkdómur.

Önnur lönd nota ekki svona varnarhólf til að sporna við útbreiðslu á riðu. Við áttum þetta kerfi bara til og auðvitað notuðum við það með nokkuð góðum árangri frá 1986 þegar formlega var farið að berjast gegn henni með þessum hætti. En þar sem við höfum þetta kerfi þá þarf auðvitað að halda því við og það kostar heilmikla fjármuni. Það hafa hins vegar ekki verið til þeir peningar hjá Matvælastofnun sem þarf til að gera allar þessar varnarlínur fjárheldar.

Núna þegar búið er að finna þessa verndandi arfgerð [ARR] sem áður var talið að ekki væri til á Íslandi – og aðra sem talin er mögulega verndandi – þá opnast möguleikar á því að beita öðrum aðferðum en bara að hólfa landið niður. Það er líka til dæmis alveg hægt að hefta flutning gripa á milli bæja án þess að hafa varnargirðingu,“ segir Sigurborg.

Fjármunum betur varið í annað en viðhald á varnarlínum

Spurð um hvort skynsamlegt væri að fara í heildarendurskoðun og -viðhald á núverandi varnarlínum fyrir allt landið segir Sigurborg að hún telji að peningunum yrði betur varið með öðrum hætti. „Það er ekkert óeðlilegt að skipta landinu niður í einhver hólf og reyna að notast sem mest við náttúrulegar hindranir til þess eða varnir – en ekki að verið sé að eyða miklum peningum í girðingar til smitvarna í úthögum þar sem litlar líkur eru í raun á smitum.

Önnur lönd sem berjast gegn riðu með ræktun á gripum sem eru með verndandi arfgerðir, skipta sínum löndum ekki í svona hólf eins og við erum með. Viðkomandi bær fer bara í einangrun í sjö ár og gripir sem ekki eru með verndandi arfgerð skornir niður. Ég hef lagt til að það verði þá tekin upp eins konar riðuhólf, þar sem væru í gildi mjög strangar smitvarnir og slíkt hólf gæti verið mjög breytilegt að stærð; frá því til dæmis að vera heill hreppur eða jafnvel bara bæjartorfa. En ákvörðun um breytingu á okkar fyrirkomulag kallar á lagabreytingar og aðkomu Alþingis, en hins vegar er hægt að leggja niður varnarlínur án slíkra lagabreytinga,“ segir Sigurborg.

Ráðuneyti landbúnaðar hafa frá desember 2021 haft tillögur Sigurborgar til umfjöllunar, en þær höfðu áður farið í lokað umsagnarferli.

Arfgerðagreiningar á kindunum á bæjunum tveimur verða gerðar. Matvælastofnun greinir smituðu gripina en svo munu aðrir aðilar, sem starfa í verkefni um ræktun sauðfjár með verndandi arfgerðum, láta greina alla gripina sem skornir voru niður á dögunum. Karólína Elísabetardóttir, bóndi í Hvammshlíð, tekur þátt í verkefninu sem er samstarfsverkefni íslenskra og erlendra vísindamanna, RML og fleiri aðila, með aðkomu íslenskra sauðfjárbænda.

Hún telur að það taki nokkrar vikur að fá úr því skorið hvaða arfgerðir voru í gripum hjarðanna, en gert er ráð fyrir að þær upplýsingar geti orðið mikilvægt innlegg inn í ræktunarstarfið fram undan.

Eyþór Einarsson, ráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, segir lykilatriði að yfirdýralækni verði veittar auknar heimildir.
Mynd / RML

Framvindan í ræktun á verndandi arfgerðum

Mikið ræktunarstarf er þegar hafið sem felur í sér útbreiðslu á arfgerðunum tveimur sem taldar eru verndandi gegn riðu. Hrútar með slíkar arfgerðir voru fengnir á sæðingastöðvar fyrir síðustu fengitíð og voru í hópi þeirra vinsælustu.

Má búast við að þúsundir lamba muni bera arfgerðirnar eftir sauðburð nú í vor.

Í Miðfjarðarhólfi eru nokkur af bestu ræktunarbúum í íslenskri sauðfjárrækt. Eyþór Einarsson, sauðfjárræktarráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML), hefur stýrt átaksverkefni í arfgerðagreiningum og er í teymi sem leiðir það verkefni að rækta upp riðuþolinn sauðfjárstofn á Íslandi. „Það breytir talsvert stöðunni hjá okkur að vera komin með riðusmit inn í þetta hólf, ef við horfum á stöðuna almennt út frá ræktunarstarfinu. Úr þessu hólfi höfum við sótt mjög dýrmætan efnivið og hefðum örugglega horft til þess að nota hrúta þaðan með verndandi arfgerðir í uppbyggingarstarfinu,“ segir Eyþór.

„Nokkur sauðfjárbúin í Miðfjarðarhólfi hafa raðast efst á listana hjá okkur hvað varðar afurðir og bestu gerð, eins og til dæmis Bergsstaðir, Urriðaá, Efri-Fitjar, Mýrar og svo er Þóroddsstaðir eitt lykilbú þaðan sem við höfum tekið marga sæðingahrúta,“ segir Eyþór, en Þóroddsstaðir hlutu nafnbótina ræktunarbú ársins 2021 í vali ráðunauta RML.

Eftirspurnin eftir erfðaefninu mun aukast

„Svo breytir þessi nýja staða okkar plönum, sem við höfum unnið eftir, um hraðann á innleiðingu á erfðaefninu og þörfina fyrir sæðingastöðvahrúta með þessar verndandi arfgerðir. Það má gera ráð fyrir að eftirspurn eftir slíkum hrútum muni margfaldast og það þarf að keyra þessar arfgerðir kannski hraðar inn en við höfðum gert ráð fyrir. Þessi riðutilfelli hreyfa við öllum,“ segir Eyþór um þessa breyttu stöðu.

Hann segir það í sjálfu sér ekkert óvænt að ekki hafi verið búið að arfgerðagreina á þessum bæjum allar kindur. Staðan sé sú í dag, að venjulega sé hlutfallið á bilinu frá þremur og upp í tuttugu prósent gripa í varnarhólfum sem hafa verið arfgerðagreindir. Auk þess hafi bændur í svona hólfum lifað í öðrum raunveruleika en í hólfum þar sem riða hefur komið upp. „Við hins vegar gerðum ráð fyrir að á bæjum í hólfinu myndu nú í vor fæðast nokkur lömb með ARR-arfgerðina úr sæðingum og átti ég von á að gætu komið rúmlega 20 ARR-hrútar til nytja í haust sem hefði verið spennandi að skoða fyrir sæðingastöðvarnar.“

Hópmynd af gripunum með ARR-arfgerð á Þernunesi í Reyðarfirði, en þar fundust einu gripirnir úr arfgerðagreiningunum með þessa formlegu verndandi arfgerð. Hrútarnir Gimsteinn 21-899 og Gullmoli 22-902 voru í hópi þeirra tíu vinsælustu á sæðingastöð í síðustu vertíð. Mynd / Þernunes

Um tíu prósent af íslenska stofninum verið arfgerðagreindur

Eyþór telur að samanlagt sé búið að arfgerðagreina nálægt tíu prósent af íslenska sauðfjárstofninum. „Að stórum hluta hefur þetta verið gert í gegnum átaksverkefni með stuðningsgreiðslum. Þessum greiningum þarf að fylgja eftir með arfgerðagreiningum á afkvæmum líka og það er talsvert utanumhald sem því fylgir og kostnaður. Í því sambandi má nefna að nú í vor gætu mögulega fæðst um fjögur þúsund lömb með ARR – líkindalega séð – en raunhæft er að búast við að um helmingur þess fjölda beri arfgerðina. Eins varðandi hina arfgerðina T137, sem talin er verndandi, að þar gætu mögulega bæst við eitt til tvö þúsund lömb nú í vor. Við lögðum sérstaka áherslu á að bændur myndu láta gera þessar greiningar hjá sér á lömbum sem væru mögulega með þessar arfgerðir – fylgdu þessu eftir. Þróunarsjóður sauðfjárræktarinnar greiðir þessar sýnatöku sérstaklega niður.

Ef við gefum okkur svo að það verði hægt að nota alla ARR-hrúta sem koma til nytja út úr þessum sæðingum og notkun söluhrúta frá Þernunesi, þá verða lömbin orðin um 30 þúsund á næsta ári sem þarf að halda utan um. Til viðbótar er svo æskilegt að fjölga einnig öðrum arfgerðum sem eru lítið næmar og vonandi einhverjar mögulega verndandi líkt og T137. Þessu þarf að fylgja eftir með greiningum. Frumskilyrði hjá öllum er að vita hvaða arfgerð hrútarnir þeirra bera, sama hvar þeir búa á landinu.“

Íþyngjandi kostnaður bænda

Eyþór segir að það verði mjög snúið miðað við núverandi forsendur að fá bændur til að fylgja þessu eftir af samviskusemi.

Til dæmis vegna kostnaðar við greiningarnar. „Á meðan við verðum núna fyrstu árin að mestu með arfblendna gripi þá er algjört lykilatriði að þessu sé fylgt vel eftir. Það er augljóst að það þarf að koma miklu meiri peningur inn í þetta – heildarkostnaðurinn við þetta getur numið yfir 100 milljónum á ári,“ segir hann og leggur áherslu á að það sé ekki gott að ætla sér að rækta upp riðuþolinn stofn á Íslandi með of miklum hraða sem kæmi þá mjög niður á ræktunarstarfinu.“

Fyrir ræktunarstarfið fram undan væri best ef aðkoma stjórnvalda fælist í beinum stuðningi við þau verkefni sem eru þegar í gangi, en vissulega yrði þátttöku Íslenskrar erfðagreiningar í arfgerðagreiningum tekið fagnandi – en hugmyndir hafa verið uppi um slíka aðkomu. Stjórnvöld geti flýtt verulega fyrir þróuninni að því að gera allan íslenska stofninn riðuþolinn, en núverandi áætlanir ganga út frá því að á næstu tíu árum verði verndandi arfgerðir orðnar verulegar útbreiddar í landinu.

Lykilatriði að yfirdýralækni verði veittar heimildir

Eyþór tekur vel í hugmyndir yfirdýralæknis um breytt fyrirkomulag í riðuvörnum. „Jú, það er lykilatriði að yfirdýralækni séu veittar heimildir til að ákveða eitthvað annað en heildarniðurskurð og að hægt sé að taka tillit til verndandi arfgerða.

Samkvæmt Evrópureglugerðinni, sem mér skilst að tillögurnar taki mið af, þá hafa yfirvöld tækifæri til að velja mismunandi leiðir þegar upp koma riðutilfelli; í fyrsta lagi að skera allt niður eins og hér er gert, skera allt niður nema verndandi arfgerðir eða bara jafnvel að skera sýkta gripi þó það séu ekki mikið af verndandi arfgerðum í hjörðinni. Þá eru bændur bara skikkaðir til að innleiða verndandi arfgerðir mjög hratt.

Ég tel að það væri æskilegt að yfirdýralæknir hafi slík verkfæri til að geta beitt eftir því sem við á. Í öllu falli þarf að klára breytingar á núgildandi reglugerðum þannig aðþærtakimiðafþvíaðhérer gjörbreytt staða. Ég held að allir séu sammála um það að lykillinn að sigrinum felst í markvissum kynbótum fyrir þolnum arfgerðum.“

Skylt efni: Riðuveiki | riða | riðuvarnir

Jarðvegsauðlind Íslands
Fréttaskýring 11. desember 2024

Jarðvegsauðlind Íslands

Jarðvegur er ein mikilvægasta náttúruauðlind jarðar sem trauðla er hægt að endur...

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...