Fiskur með frostlög í blóðinu
Ískóð er merkilegur fiskur. Þetta er hánorræn þorskfiskategund sem hefur aðlagast sjávarkulda og er með frostvörn í blóðinu. Stöku fiskar slæðast til Íslands, að öllum líkindum frá Austur-Grænlandi, en mjög hefur dregið úr því hin seinni ár.
Ískóð, öðru nafni pólþorskur, er smávaxin þorskfiskategund sem útbreidd er umhverfis Norðurheimskautið. Það er jafnframt sú fisktegund sem hefur veiðst hvað nyrst í Norður-Íshafinu og sennilega algengasta fisktegundin þar. Ískóð er ein af örfáum hánorrænum (e. high arctic) fisktegundum sem finnast við Ísland. Hánorrænar tegundir halda sig aðallega á nyrstu svæðum jarðar, t.d. í Íshafinu og þar rétt fyrir sunnan.
Meginútbreiðslusvæði ískóðs. Skýringmynd sem birt var í Fiskifréttum þegar fjallað var um rannsóknir á ískóði við Ísland á sínum tíma.
Lengi vel var þekking á líffræði og útbreiðslu ískóðs við Ísland mjög takmörkuð. Ólafur S. Ástþórsson, fiskifræðingur og fyrrum aðstoðarforstjóri Haf- rannsóknastofnunar, hefur rannsakað ískóð við Ísland og ritað um það meðal annars ítarlega grein í Náttúrufræðinginn. Byggði hann rannsóknir sínar á gögnum um ískóð sem fengust annars vegar í stofnmælingum botnfiska í árlegu vorralli Hafrannsóknastofnunar á árunum 1985 til 2013 og hins vegar í seiðaleiðöngrum sem farnir voru á árunum 1974 til 2003.
Hér verður byggt á grein Ólafs í Náttúrufræðingnum svo og umfjöllun um málið í Fiskifréttum þegar Ólafur kynnti niðurstöður sínar.
Hrygnir um hávetur
Ískóð er talsvert útbreitt á norðurhveli jarðar. Sunnan Ís- hafsins Atlantshafsmegin nær meginútbreiðslusvæði ískóðs suður til Noregs, inn í Hvítahaf og í Barentshaf, umhverfis Svalbarða, að norðurströnd Íslands og fyrir suðurodda Grænlands.
Lífshættir eru best rannsakaðir í Barentshafi. Ískóð verður að hámarki um 45 sentímetrar á lengd. Það lifir innan um ís og ískrapa. Hámarksaldur er 6 til 7 ár. Ískóðið lifir á svifi og er talið afar mikilvæg fæða fyrir spendýr og sjófugla í vistkerfi norðurslóða. Ískóð hrygnir við ísröndina um hávetur, í nóvember til mars. Tvö meginhrygningarsvæði eru þekkt þar norður frá, þ.e. við Svalbarða og suður af Novaja Zemlya í rússnesku lögsögunni.
Með frostvörn í blóðinu
Ískóðið hefur magnaða eiginleika til að lifa af við erfið skilyrði. Það er með frostvarnarprótín (AFP) í blóðinu. Þetta prótín er ríkt í blóði ýmissa fiska sem lifa í Norður- og Suður-Íshafi. Prótínið binst við ískristalla sem kunna að myndast í blóði og kemur í veg fyrir að þeir vaxi enn frekar. Ískóð er harðgert og getur þolað sjávarkulda allt niður að frostmarki sjávar (–1,8°C). Þetta fyrirbæri var uppgötvað árið 1960 og hafa frostvarnarprótín verið nýtt í læknavísindum til að varðveita líffæri undir frostmarki.
Samfara virkni frostvarnarprótínsins fara í gang ýmsir ferlar innan fruma ískóðsins til þess að tryggja vökvajafnvægi sem hjálpar því til að lifa af.
Mest veitt um 350 þúsund tonn
Veiðar á ískóði í Barentshafi voru töluverðar um og eftir 1970. Veiðarnar fóru hæst í 350 þúsund tonn á ári en duttu síðan snögglega niður um miðjan áttunda áratuginn. Eftir það hafa veiðarnar verið um 20 til 30 þúsund tonn á ári. Norðmenn veiddu ískóðið þegar aflinn var sem mestur en Rússar eru núna eina þjóðin sem stundar þessar veiðar.
Stofn ískóðs í Barentshafi náði hámarki fyrir 15 til 20 árum og fór mest í tæplega 2,5 milljónir tonna. Stofninn hefur verið í lægð síðustu ár og útbreiðslan hliðrast til austurs og norðurs. Vísindamenn velta því fyrir sér hvort það tengist ekki veðurfarsbreytingum, þ.e. hlýnun sjávar og minni hafís í Barentshafi.
Aðallega norðvestur af Íslandi
Suðurmörk fyrir útbreiðslu ískóðs eru norður af Íslandi. Útbreiðslan er aðallega á landgrunninu norðvestur af landinu. Í vorrallinu veiðast ískóð á togstöðvum frá svæðinu norður af Vestfjörðum, norður fyrir landið og þegar mikið fæst af því teygir það sig suður að miðjum Austfjörðum. Mjög er misjafnt eftir árum hvað fæst af ískóði. Sum ár slæðist það í veiðarfærin í rallinu á mörgum togstöðvum á öllu útbreiðslusvæðinu en í rýrum árum veiðist það aðeins á örfáum stöðvum.
Þegar best lætur hafa fengist 250 stykki af ískóði í vorralli en fjöldinn fer niður í 10 stykki í rýrum árum. Á síðustu árum hefur dregið mjög úr því að ískóð finnist hér.
Samtals fengust 2.376 ískóð í stofnmælingarleiðöngrum í 823 (5%) af þeim 16.339 togum sem tekin voru með botnvörpu á 29 ára rannsóknartímabili.
Mest í köldum sjó
Veiðistaðir ískóðs við Ísland voru kannaðir með hliðsjón af hitastigi sjávar og dýpi. Eins og við er að búast veiðist það í mjög köldum sjó og mest í kringum 200 til 350
metra dýpi.
Fleiri þættir en hiti og dýpi geta ráðið því hversu mikið af ískóði berst hingað. Hugsanlega skiptir sjógerð máli sem og fleiri eiginleikar í umhverfinu, svo sem fæða og afrán, sem gætu átt þátt í því að þjappa fiskinum saman eða hafa áhrif á hann. Ískóð í rallinu eru um 15 sentímetrar að meðallengd og aldursbilið 2 til 6 ár. Flestir fiskanna eru þó á aldrinum 3 til 4 ára. Lengsta ískóðið sem veiðst hefur á Íslandmiðum sem vitað er um var 33 sentímetrar og fékkst vestan Kolbeinseyjar í mars 1995, samkvæmt bókinni Íslenskir fiskar.
Flest seiði við Austur-Grænland
Í seiðaleiðöngrum á sínum tíma var bæði farið um íslensku lögsöguna og inn á landgrunnið við Austur-Grænland. Ískóð fékkst í þessum leiðöngrum í takmörkuðum mæli og sum árin fengust engin ískóð. Mestur fjöldinn var við Austur-Grænland en þá fengust 55 ískóð í holi. Í aðeins örfá skipti fengust ískóðaseiði á landgrunninu norður af Íslandi.
Hugsanlega að hverfa úr fánunni
Helstu niðurstöður í rannsóknum Ólafs eru þær að ískóð á Íslandsmiðum er aðallega bundið við norðvesturhluta landgrunnsins. Ungviði ískóðs finnast nær eingöngu á austurgrænlenska landgrunninu. Auk tiltækra upplýsinga frá nálægum hafsvæðum bendir útbreiðslan til þess að ískóð við Ísland sé upprunnið í hrygningarstöðvum við Austur-Grænland.Útbreiðsla og fjöldi ískóða við Ísland hefur minnkað samfara hlýnun sjávar og haldi þessi þróun áfram og hafísinn hopi muni ískóðið hugsanlega hverfa úr fánunni við Ísland.