Matvælaöryggi veltur á heilsu manna, dýra og uppskeru
Á tímum aukinnar alþjóðavæðingar hefur umræða um heilnæmi matvöru aukist til muna. Æ oftar heyrast fréttir af ofnotkun sýklalyfja og eiturefna í landbúnaði. Þótt nútíma matvælaframleiðsla hafi þróast hratt og bændur tæknivæðst er ekki allt sem sýnist. Víða um heim er pottur brotinn þar sem ekki er farið eftir settum reglum, t.d. um notkun varnarefna og ekki borin virðing fyrir umhverfinu. Matvælasýkingar vegna rangra framleiðsluaðferða, langra flutninga og rangrar meðhöndlunar eru því miður daglegt brauð og vaxandi vandamál um allan heim. Á hverjum degi eru flutt til Íslands fleiri tonn af matvælum. Þau koma úr öllum heimshornum og hafa ferðast langar vegalengdir með ýmsum farartækjum. Ávextir og grænmeti eru í eðli sínu viðkvæmar vörur en þær hafa sumar hverjar verið fluttar þúsundir kílómetra áður en þær koma á diskinn þinn. Þegar gengið er um grænmetisdeildir stórmarkaða má til dæmis líta salat frá Suður-Evrópu, banana frá Suður-Ameríku og appelsínur frá Ísrael. Á síðustu árum hefur framboð af innlendu grænmeti aukist hratt og úrvalið er meira en áður hér á landi. Enn er þó langt í land að Íslendingar framleiði meirihlutann af því grænmeti sem neytt er hérlendis. En hvaðan kemur maturinn sem við borðum dags daglega og hvaða neikvæðu áhrif hafa flutningar á mat á jörðina? Geta neytendur treyst því að matvælin sem enda á matarborðinu séu framleidd við bestu skilyrði, án eiturefna og að þau séu laus við ýmsa óværu eða sjúkdóma?
Við erum það sem við borðum
Ræktun og framleiðsla matvæla, framreiðsla og neysla tengir heilsufar okkar við ástand jarðar með bæði beinum og óbeinum hætti. Aðferðir við framleiðslu matvæla hafa þróast hratt og leiðin á milli bænda og neytenda er í mörgum tilvikum löng. Hráefni í eina máltíð getur átt uppruna sinn á fjölmörgum stöðum, bæði heima í héraði og úti í heimi. Framleiðsla og dreifing á matvælum í þróuðum ríkjum fer fram í gegnum risavaxin og flókin samstarfsnet og tekur sífellt styttri tíma. Það sem mörg okkar sem neytendur vita ekki er að matarforði okkar, staðbundinn sem og innlendur, er hluti af hnattrænu matvælaframleiðslukerfi sem tengist sífellt meira innbyrðis.
Hráefni í einni salatskál koma frá tugum landa
Matarforði Bandaríkjanna samanstendur af þúsundum gerða af mat og tengdum afurðum – sem að miklu leyti eru ræktaðar og unnar utan Bandaríkjanna – eins og sést á myndinni af salatskálinni hér að ofan. Hráefnin tíu, sem öll fást í íslenskum stórmörkuðum, í umræddu salati geta komið frá fleiri en 38 löndum. Þetta hnattræna eðli innlendra og staðbundinna matarbirgða undirstrikar þörfina á heilnæmri nálgun við matvælaöryggi, þar sem jafnvel algeng og „holl“ hráefni fara heimshluta á milli áður en þau eru lögð á borðið. Til að tryggja matvælaöryggi í heiminum þarf að hlúa vel að heilsu manna, dýra og uppskeru.
Sýklar í mat valda 48 milljón veikindatilfellum á ári í Bandaríkjunum
Hnattvæðing matarforðans hefur auðveldað matvælasýkingum að koma upp á yfirborðið, snúa aftur og breiðast út, og hefur þetta gert enn erfiðara en ella að sjá fyrir, greina og bregðast rétt við slíkri heilsuvá. Í Bandaríkjunum einum valda sýklar úr mat um það bil 48 milljónum veikindatilfellum, 128 þúsund sjúkrahúsinnlögnum og þrjú þúsund dauðsföllum á ári (Scallan, 2011). Þessi tala er líklega aðeins toppurinn á ísjakanum vegna þess að hún tekur ekki með í reikninginn fjölbreyttar matvælasýkingar sem ná yfir breitt svið, allt frá einkennaleysi yfir í alvarlega sjúkdóma með afleiðingum á borð við nýrnabilun og dauða, og ekki er heldur reiknað með öllum þeim víðtæku afleiðingum sem sýkingar geta haft fyrir neytendur, yfirvöld og matvælaiðnaðinn, bæði innanlands og um allan heim.
Forvarnir eru sterkt vopn til að berjast gegn matvælasýkingum
Heilsufar einstaklinga og lýðheilsa innanlands og á alþjóðavettvangi tengist ástandi umhverfisins og heilsufari milljarða húsdýra og villtra dýra. Vísindamenn hafa því sagt að þörf sé á nýju viðmiði – viðmiði sem felst í forvörnum og viðbragðsáætlun til að tryggja mataröryggi í stað þess að bregðast við eftir á. Gott dæmi um slíkt er „One Health“ – sem hefur verið skilgreint sem „þverfaglegt samstarfsátak þar sem unnið er heima í héraði, á landsvísu og á heimsvísu að því markmiði að tryggja bestu mögulegu heilsu fyrir fólk, dýr og umhverfið“ (AVMA, 2008). Verði slíkri aðferð beitt við að tryggja matvælaöryggi gæti það gefið fyrirheit um að hægt verði að beisla og samtengja sérfræðiþekkingu og úrræði fjölbreyttra heilbrigðissviða, þ.á m. samfélags lækna, dýralækna og plöntumeinafræðinga ásamt sérfræðingum á sviði villtrar náttúru, sjávardýra og vistfræði.
* Myndin af salatskálinni á uppruna sinn í átakinu „One Health“ sem hefur meðal annars það markmið að bæta matvælaöryggi og lýðheilsu, leiða saman vísindamenn úr öllum heimshornum og fyrirbyggja matvælasýkingar. Birt með góðfúslegu leyfi National Academy of Sciences og National Academic Press í Washington. Athugið: Löndin eru talin upp í stafrófsröð en endurspegla ekki magnið sem framleitt er eða útflutt frá hverju landi.
Heimildir: Improving Food Safety Through a One Health Approach, Workshop Summary, Institute of Medicine (US). Washington (DC): National Academies Press (US); 2012.
Grafísk hönnun: Gunnar Steinþórsson
Nánar er fjallað um víðföla salatið og matvælaöryggi á bls. 18-19 í 13. tbl. Bændablaðsins sem kom út 7. júlí 2016 - sjá: http://www.bbl.is/files/pdf/bbl-13.-tbl.-2016-web.pdf