Móhumlan í vanda stödd
Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir
Móhumla (Bombus jonellus) er eina tegund býflugna sem talin er hafa verið hér á landi frá landnámi. Hún finnst víða um Evrópu og N-Asíu og N-Ameríku og þjónar þar sem mikilvægur frjóberi fyrir blómstrandi plöntur. Tölur um stofnstærð móhumlu á Íslandi eru ekki fyrir hendi en að sögn doktorsnemans Jonathan Willow hörfar hún hratt. Hann hefur kannað lífskeið og fæðuöflun móhumlunnar hérlendis á undanförnum árum. Niðurstöður rannsókna hans benda til að fæðuforði móhumlunnar verði undir í útbreiðslu alaskalúpínu (Lupinus nootkatensis).
Fram yfir miðja 20. öldina var móhumla eina býflugan á Íslandi eða þar til garðhumla (Bombus hortorum) barst til landsins og náði fótfestu á 6. áratugnum. Síðan hafa fleiri tegundir býflugna borist hingað frá Evrópu og fest sig í sessi s.s. húshumla (Bombus lucorum) og rauðhumla (Bombus hypnorum) sem fara oft fyrr á stjá en móhumlan. Á þessum tíma árs má því sjá býflugur af ýmsum stærðum og gerðum á kreiki.
Almennt fara drottningar móhumlunnar á stjá að afloknum vetrardvala í byrjun maímánaðar þar sem þær sækja á snemmblómgandi tegundir og þá sér í lagi víðitegundir. Síðan leitar drottning sér að holu sem hentar til að stofna til bús og um mánuði eftir að hún hefur fundið stað fyrir bú fara fyrstu þernur á flakk að sinna búrekstri. Þær afla forða fram að síðsumri þegar búskap lýkur.
Jonathan segir að þrátt fyrir að fleiri býflugnategundir hafi numið hér land sé móhumlan sérstæð tegund fyrir Ísland, hún hafi ekki aðeins vistfræðilegt gildi, heldur einnig menningarlegt vægi því hún sé okkar landnámsfluga. „Aðrar býtegundir á Íslandi virðast vera kærkomnar viðbætur við vistkerfi Íslands, þótt ákveðnar vísbendingar séu um samkeppni milli móhumlu og húshumlu. En móhumlan er eins íslensk og nokkur býfluga getur orðið.“
Móhumlan velur íslenskt
Jonathan rannsakaði skordýr í votlendi og víðerni í New York-ríki árið 2012. Hann hugði á frekara nám í skordýrafræðum utan heimalandsins, Bandaríkjunum. „Ég skráði mig í umhverfis- og auðlindafræði hjá Háskóla Íslands og, frekar en að halda mig við rannsóknir á vatnaskordýrum, þá vöktu áhuga minn skordýr sem sækja á blómstrandi plöntur í ljósi þeirra vandamála sem útbreiðsla alaskalúpínunnar skapar fyrir vistkerfi Íslands.“
Hann hannaði því rannsókn í samstarfi við leiðbeinendur sína, þau Mariana Tamayo og Magnús H. Jóhannsson, þar sem hann kannaði hvort íslensk skordýr nýttu sér lúpínu sem fæðu. „Við komumst að því að fjöldi mikilvægra frjóbera, m.a. nokkrar ættir flugna, völdu augljóslega innlendar blómstrandi plöntur frekar en lúpínuna. Það átti einkum við um móhumluna, þar sem hún fannst í innlendum plöntum í 97% tilvika.“ Í ljósi þessa segist Jonathan í framhaldi hafa ákveðið að rannsaka lífshætti móhumlunnar enn frekar.
„Alaskalúpínan umbreytir fjölbreyttu móvistkerfi í einhæft lúpínuvistkerfi. Lúpínutegundir framleiða ekki blómsafa sem nýst geta flugunni. Þær plöntur sem hún sækir í alla jafna er hins vegar að verða undir í útbreiðslu lúpínunnar. Þar að auki hefur verið sýnt fram á að efnið lúpanín, sem getur safnast saman í frjókornum lúpínu, getur skaðað býflugur. Þetta efni getur haft neikvæð áhrif á æxlunarframvindu, þ.e.a.s. leitt til færri afkvæma og minni karlflugna sem veikja tegundina,“ segir hann og bendir á mikilvægi þess að rannsaka frekar eituráhrif efnanna á býfluguna.
Endurheimt blómstrandi flóru
Jonathan segir mikilvægt að standa vörð um íslensku móhumluna, ásamt öðrum skordýrum sem sækja á innlendar blómstrandi plöntur, enda séu þau grundvöllur fyrir fjölgun innlendra plantna.
„Mikilvægt er að gæta að snemmblómgandi plöntutegundum til jafns við þær sem blómgast seint, þar sem það stuðlar að framboði af næringu fyrir móhumluna á öllu lífskeiði hennar,“ segir Jonathan og bendir á að til að vernda móhumluna þurfi að varðveita og endurheimta fjölbreytta innlenda blómstrandi flóru í íslenskri náttúru.
Hann nefnir í því tilliti þær tegundir sem hann rannsakaði; blóðberg (Thymus praecox), fjalldalafífil (Geum rivale), engjarós (Comarum palustre), umfeðming (Vicia cracca), beitilyng (Calluna vulgaris), blágresi (Geranium sylvaticum), skarifífil (Scorzoneroides autumnalis) og gullkoll (Anthyllis vulneraria). Þar að auki hafa aðrar rannsóknir á íslensku móhumlunni á Íslandi litið til mikilvægis bláberjalyngs (Vaccinium uliginosum), sortulyngs (Arctostaphylos uva-ursi) og ýmissa tegunda af víði (Salix spp.).
„Í nýjustu rannsókninni bendi ég ekki aðeins á mikilvægi tiltekinna tegunda heldur einnig að val á plöntum er einstaklingsbundið. Þannig virðast einstaklingar sérhæfa sig í einni tegund plantna. Þetta kann að vera til að koma í veg fyrir samkeppni. En einnig gæti það bent til ákveðinnar kænsku meðal býflugnanna til þess að fylgjast með framboði næringar í mismunandi plöntutegundum,“ segir Jonathan.
Uppræting lúpínu möguleg
Umræður um aðgerðir til að hamla útbreiðslu alaskalúpínunnar eru æði misjafnar en Jonathan segir beinlínis rangt að ekki sé hægt að útrýma henni algerlega hér á landi.
„Ísland er eyja, sem er sú tegund landmassa þar sem uppræting tegunda eru líklegastar til að ná árangri. Frá efnahagslegu sjónarhóli er fýsilegra að leggja í mikla vinnu núna og útrýma lúpínunni úr eyjunni í stað þess að standa í stríði við að hamla henni út í hið óendanlega. Því miður hefur plantan byggt upp óhemju stóran fræbanka undir jarðvegsyfirborðinu, en með fullnægjandi störfum og reglulegu eftirliti á útbreiðslusvæðum væri hægt að uppræta lúpínuna og endurreisa innfædd plöntusamfélög,“ segir Jonathan og bendir á að það sama gildi reyndar um upprætingu skógarkerfils (Anthriscus sylvestris).
Landsátak til varnar móhumlunni
Jonathan vonast til þess að frekari rannsóknir á móhumlunni séu fyrirhugaðar og stuðlað verði að vernd hennar. Það sé um auðugan garð að gresja þegar kemur að rannsóknarefni og hann nefnir t.d. áhrif gróðursamfélaga á lífsferil móhumlunnar, hugsanleg eituráhrif frá frjókornum alaskalúpínunnar og áhrif endurheimtar vistkerfis á stofnstærð flugunnar.
Þá leggur hann til að landsátaki verði hleypt af stokkunum til varnar móhumlunni. „Þjóðarátak í söfnun staðbundinna upplýsinga gætu veitt vísindamönnum afar mikilvægar upplýsingar fyrir áframhaldandi rannsóknir. Það myndi enn fremur stuðla að meiri þekkingu almennings á þessu margslungna viðfangsefni. Móhumlan, ásamt öðrum mikilvægum frjóberum, myndu njóta góðs af framlagi almennings til vísinda og verndunar.“ Jonathan nefnir vel heppnaðar landshlutaáætlanir í heimalandinu til fyrirmyndar, Bumble Bee Watch og Great Sunflower Project.