Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Gríðarlegu vatnsmagni er dælt upp úr grunnvatnslindum við ræktun á refasmára í Kaliforníu og Arizona.
Gríðarlegu vatnsmagni er dælt upp úr grunnvatnslindum við ræktun á refasmára í Kaliforníu og Arizona.
Fréttaskýring 11. maí 2016

Nýta þverrandi vatnslindir Bandaríkjamanna til að spara eigið neysluvatn

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Samkvæmt tölum Statista (The Statistics Portal) frá því í janúar um landhremmingar (Land Grabbing), hafa bandarískir fjárfestar verið atkvæðamiklir við kaup á ræktarlandi á liðnum árum. Nemur það rúmum 13,7 milljónum hektara í 29 löndum. Nú kunna landhremmingar Bandaríkjamanna í öðrum löndum að vera að hitta þá sjálfa fyrir varðandi uppkaup útlendinga á landi í Bandaríkjunum. 
 
Bandarískir fjárfestar hafa samkvæmt tölum Statista keypt mest af ræktarlandi í Kongó eða ríflega 2,2 milljónir hektara. Þá koma landakaup í Papúa Nýju-Gíneu sem nema rétt rúmum 2 milljónum hektara, Suður- Súdan sem nema 1,4 milljónum hektara, í Mósambík eru það 659 þúsund hektarar, í Úkraínu um 462 þúsund hektarar og í Argentínu tæplega 365 þúsund hektarar, en minna í öðrum ríkjum. Í þessu ljósi er athyglisvert að landhremmingarnar eru nú líka að hitta Bandaríkjamenn fyrir með uppkaupum útlendinga á ræktarlandi innan þeirra eigin landamæra. Leiðir það óneitanlega hugann að þeirri afburðastöðu sem Íslendingar hafa í alþjóðasamhengi hvað varðar aðgengi að vatni og ræktarlandi.
 
Sádi-Arabar sagðir skófla til sín ræktarlandi í Bandaríkjunum
 
Samkvæmt frétt CNBC-sjónvarps­stöðvarinnar í janúar á þessu ári hafa fjárfestar frá Sádí-Arabíu og fleiri ríkjum við Persaflóa verið  að „skófla til sín“ ræktarlandi í suðvesturhluta Bandaríkjanna, einkum í Kaliforníu og  Arizona. Eru íbúar sagðir vera farnir að þrútna af bræði út í þessa erlendu fjárfesta. Það er á þeim svæðum sem hafa orðið fyrir hvað mestum áhrifum af langvarandi þurrkum. Þar hefur einnig verið gengið mjög á grunnvatnsbirgðir, m.a. vegna mikillar ávaxtaræktunar. 
 
Rækta refasmára í Bandaríkjunum til að fóðra kýr við Persaflóa
 
Á vegum arabísku fjárfestanna er nú ræktaður alfalfa (refasmári) í stórum stíl á bandarísku landi og með grunnvatni sem hratt gengur á. Refasmárinn er einstaklega orkuríkur sem fóður fyrir húsdýr og er plantan oft kölluð drottning fóðurjurtanna. Er uppskeran svo flutt þurrkuð sem hey með skipum í stórum stíl til Sádi-Arabíu. Þar er það nýtt til að fóðra mjólkurkýr sem aldar eru þar á gróðursnauðu landi sem býður ekki upp á möguleika til ræktunar á refasmára, né öðru nauðsynlegu fóðri. Ræktun á refasmára tekur til sín hlutfallslega mesta vatnsnotkun í Kaliforníu samkvæmt tölum California Department og Water Resource. Nam vatnsnotkun vegna ræktunar á refasmára í ríkinu á árinu 2013 um 6,2 milljörðum tonna af vatni. Meðaltal þriggja ára vatnsnotkunar vegna refasmáraræktunar var um 6,8 milljarðar tonna. Um 95% af þessu vatni gufar svo upp við þurrkun á refasmáranum til útflutnings. 
 
Nýta þverrandi grunnvatn í Kaliforníu til að spara vatn heima fyrir
 
Samkvæmt frétt CNBC horfa Sádi-Arabar í auknum mæli til þess að kaupa ræktarland erlendis til að framleiða fóður og matvæli til þeirra eigin þarfa. Þannig hyggjast þeir spara sínar eigin neysluvatnslindir sem fara mjög þverrandi í eyðimörkinni. Um leið finnst þeim ekkert að því að ganga á vatnsbirgðir annarra ríkja, enda allt gert með löglegum hætti.  
 
Erlendir fjárfestar sprengja upp jarðaverð í Bandaríkjunum
 
Einkafyrirtækið Fondomonte California, sem er í eigu fjárfesta frá Sádi-Arabíu, tilkynnti um miðjan  janúar að það hafi keypt 716 hektara ræktarland í Blythe í Kaliforníu fyrir 32 milljónir dollara. Það land liggur meðfram Colorado River. Verðið nemur nærri 44.700 dollurum á hektara, eða um 5,5 milljónum íslenskra króna. 
 
Fyrir tveim árum keypti móðurfélagið Almari, sem er matvælarisi í Sádi-Arabíu, um 4.000 hektara ræktarland í um 80 kílómetra fjarlægð frá Vicksburg í Arizona. Kaupverðið var 48 milljónir dollara. 
 
Vaxandi reiði út í erlendu fjárfestana
 
Ekki eru allir hrifnir af landhremmingum Sádi-Araba í Bandaríkjunum. Keith Murfield, forstjóri mjólkurvörufyrirtækisins United Dairymen of Arizona, segir að þetta muni halda áfram nema regluverkinu verði breytt. Fyrirtæki hans á nú í harðri samkeppni við erlendu fjárfestana um nýtingu refasmára fyrir mjólkurkýr. Hann segir að Sádi-Arabía hafi ákveðið að framleiða sitt fóður í öðrum löndum eins og í Bandaríkjunum og flytja það síðan heim til að spara dýrmætar eigin neysluvatnsbirgðir.  
 
Nýta vatn annarra til að spara vatnsauðlindir í Sádi-Arabíu
 
Í yfirlýsingu frá hinni arabísku fyrirtækjakeðju Almari segir beinlínis að samkomulag hafi verið gert um að framleiða hágæða refasmára utan konungsríkisins Sádi-Arabíu til að styðja við mjólkuriðnaðinn þar í landi. Kaup á landbúnaðarjörðum séu til að að tryggja þeim nægt framboð af refasmára. „Það er einnig í samræmi við stefnu yfirvalda í Sádi-Arabíu um að vernda eigin auðlindir.“
 
Eiga þeir að fá vatnið ókeypis?
 
Holly Irwin, stjórnarformaður ráðgjafarnefndar La Paz-sýslu, sem hefur með að gera dreifbýlissvæðin í vesturhluta Arizona þar sem Sádi-Arabarnir hafa komið sér fyrir, sagði í samtali við CNBC:
„Við erum ekki að fá olíuna ókeypis frá Sádi-Arabíu, af hverju eigum við þá að láta þá hafa vatnið okkar ókeypis?
Við leyfum þeim að koma hingað yfir til okkar til að klára okkar náttúruauðlindir. Það er mjög ergilegt fyrir mig, ekki síst þegar íbúar í nágrenni þessara aðila segja mér að grunnvatnslindirnar séu að tæmast. Þeir verði stöðugt að bora dýpra í leit að neysluvatni sem sé mjög kostnaðarsamt.“
 
Arabísku fjárfestarnir fara að settum reglum
 
Bandaríkjamenn geta svo sem ekki mikið sagt í ljósi hegðunar þeirra sjálfra í öðrum löndum. Þá er bent á að Sádi-Arabar hafi farið eftir öllum settum reglum við landakaupin. Þá eru jarðirnar í og við Ariozona-eyðimörkina,  sem þeir hafi verið að kaupa, ekki háðar neinum reglum um hversu miklu vatni megi dæla upp úr grunnvatnslindum. Það er þvert á það sem þekkist í flestum öðrum ríkjum Bandaríkjanna sem í 85% tilvika eru með mjög strangar reglur um þessi mál.
 
Í hluta La Paz-sýslu í um 130 mílur vestur af borginni Phoenix hefur grunnvatnsstaðan lækkað frá 2010 um meira en 50 fet. Skýrslur ríkisins sýna að í það minnsta 23 vatnslindir á svæðinu eru nú komnar í eigu Fondemonte sem er í eigu Almari. Úr hverri borholu hafa þeir möguleika á að dæla upp um 100.000 gallonum af vatni á dag eða sem svarar 379 tonnum.
 
Mega dæla upp eins miklu vatni og þeim sýnist
 
Michelle Moreno, talsmaður vatnslindaráðuneytis Arizona, boðaði fund með íbúum 30. janúar síðastliðinn til að ræða áhyggjur þeirra. Hann lét þó hafa eftir sér:
„Þú mátt dæla upp eins miklu vatni og þér sýnist, svo framarlega að þú getir sýnt fram á að vatnið sé notað í hagrænum tilgangi. Þá ert þú ekki krafinn um að gefa neinar upplýsingar um vatnsnotkun þína.“   
Heimamönnum gert að spara vatn en útlendingum ekki
 
Uppkaup útlendinga á landbúnaðarlandi á dreifbýlissvæðum Kaliforníu líta ekki sérlega vel út fyrir  heimamenn í borginni Blythe. Þar verða íbúar að sæta kröfu yfirvalda um að draga úr vatnsnotkun eftir fjögurra ára samfellt þurrkatímabil. Borgarstjórinn, Joseph DeConinck, segir að á milli 10–15% af heyi sem ræktað er á þessu svæði fari til útflutnings. Hann gagnrýnir að sú starfsemi taki ekkert tillit til aðgerða yfirvalda vegna þurrkanna. Borgarstjórinn, sem sjálfur ræktar refasmára, segist samt ekki hafa áhyggjur af uppkaupum Sádi-Araba á þessu svæði. Skýrði hann þá afstöðu með því að borgin ætti forgang að vatni úr Colarado-ánni. 
 
Miklir peningahagsmunir
 
Annað mál gæti skýrt afstöðu borgarstjórans sem landeiganda. Það er sú staðreynd að aukin ásælni útlendinga í ræktarland á þessu svæði leiðir til ört hækkandi jarðaverðs. Þar er hagnaðarvon landeigenda sannarlega mikil og greinilega standast menn slíkt ekki.   
 
Kínverjar umsvifamiklir kaupendur á heyi
 
Fyrir utan fjárfesta frá Sádi-Arabíu og öðrum löndum við Persaflóa, þá eru Kínverjar, Suður-Kóreumenn og Japanir orðnir umsvifamiklir í kaupum á heyi frá Bandaríkjunum. Á undanförnum árum hafa Kínverjar keypt um 20% af öllum heyútflutningi Bandaríkjamanna. Hátt gengi á dollar sló þó aðeins á kaup útlendinga á heyi. Þá fóru erlendir kaupendur líka að reyna að leita annað eftir heykaupum vegna verkalýðsdeilna á vesturströnd Bandaríkjanna 2014. 
 
Iðnveldið að breytast í hráefnissöluríki
 
Svo virðist sem Bandaríkin séu í auknum mæli að verða hráefnis­útflytjandi á fóðri fyrir matvælaframleiðslu í öðrum löndum. Flytji svo í staðinn inn hátæknivörur og bíla bandarískra fyrirtækja sem framleiddir eru m.a. í Asíu. Mesti virðisaukinn verður því til utan Bandaríkjanna og skilar sér ekki lengur inn í bandarískan efnahag. Hafa margir bandarískir hagspekingar og stjórnmálamenn verið að benda á þetta á síðustu misserum. Hefur enginn verið duglegri í þeim efnum en hinn umdeildi forsetaframbjóðandi Donald Trump. 

5 myndir:

Jarðvegsauðlind Íslands
Fréttaskýring 11. desember 2024

Jarðvegsauðlind Íslands

Jarðvegur er ein mikilvægasta náttúruauðlind jarðar sem trauðla er hægt að endur...

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...