Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Ullarolía, eða „lanolin“, þykir sérlega góð til að ryðverja undirvagna á bílum á vistvænan hátt.
Ullarolía, eða „lanolin“, þykir sérlega góð til að ryðverja undirvagna á bílum á vistvænan hátt.
Fréttaskýring 2. nóvember 2016

Undraefni úr ullarfitu

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Sauðfé er til margra hluta nytsöm dýr sem hafa m.a. fætt og klætt Íslendinga allt frá landnámi. Það er þó fleira en kjöt og ull í prjónles sem kindurnar gefa af sér því ullarolía er ekki síður merkileg afurð. 
Fyrirtækið Lanotec Australia er mikils metið og framleiðir margvísleg verðmæt vistvæn varnar- og smurefni úr ullarfitu eða ullarolíu (lanolin). Í dag eru mörg fleiri þekkt nöfn í þessum geira eins og ástralska fyrirtækið Candan Industries Pty Ltd. Það framleiðir m.a. Inox, sem notað hefur verið til að vernda gamlar sögufrægar flugvélar Queensland Air Museum í Caloundra fyrir tæringu. Fjölmörg önnur lanolinefni eru til, til að verja tæki og búnað fyrir tæringu. 
 
Ástralir eru vel þekktir fyrir sína sauðfjárrækt og bændur þar í landi hafa þótt snillingar í að rýja fé og hafa íslenskir bændur m.a. sótt þangað þekkingu í þeim fræðum. Ullin er þeim eiginleikum gædd að í henni er fita sem hrindir burt vatni og gerir ullina þannig hæfari til að halda réttum hita á kindunum þótt úti sé annaðhvort steikjandi hiti, rigningarslagviðri eða frost og snjókoma. 
 
Þegar ullin er hreinsuð og unnin í ullarverksmiðju er ullarfitan m.a. hreinsuð úr ásamt öðrum óhreinindum. Þessi fita er síðan hreinsuð frekar í skilvindum og úr verður hrein „lanolin“-olía. Verulegt magn af lanolin-olíu fellur þannig til við ullarvinnsluna í Ástralíu og hefur hún verið sett á tunnur og mest seld sem iðnaðarhráefni til útlanda. Þar er lanolin notað í margvíslegar iðnaðarvörur eins og varalit og ýmsar aðrar húðsnyrtivörur til að gæða þær meiri viðloðun. Þá er lanolin líka notað í smurefni fyrir vélar og samkvæmt heimildum Bændablaðsins mun Icelandair m.a. flytja inn slík efni til að sinna viðhaldi á sínum þotum. Lanolin er reyndar þekkt efni til að koma í veg fyrir tæringu í viðhaldi flugvéla um allan heim. Þannig kemur sauðfé víða við sögu og á óbeinan en mikilvægan þátt í flutningi flugfarþega til og frá landinu. 
 
Undraefni unnið úr ull af sauðfé
 
Ullarolía eða lanolin dregur nafn sitt af latnesku orðunum „lana“, sem merkir ull, og „oleum“, sem merkir olía. Þetta efni gengur einnig undir heitinu ullarvax eða ullarfeiti. Þessi feiti er mynduð í kirtlum dýra sem hafa loðfeld eða ull. Stærsti hluti lanolin-olíunnar verður til við vinnslu á ull af kindum sem sérstaklega eru ræktaðar til ullarframleiðslu. Ætla mætti að ull af íslensku sauðfé sé sérstaklega rík af lanolin vegna þeirra erfiðu veðurfarsskilyrða sem kindurnar þurfa að kljást við, en sú mun ekki vera raunin. 
 
Ull af merino-fé sögð einstaklega olíurík
 
Ullin af merino-sauðfé í Ástralíu er sögð innihalda mjög mikla lanolin olíu sem er vatnshrindandi og eykur einangrunarhæfni í misjafnri veðráttu. Þar getur hitastig sveiflast frá +40 gráðum á sumrin og niður í -22 gráður á vetrum. Nýrúin ull getur innihaldið frá 5% til 25% hlutfall af lanolin þegar best lætur. Á Zakopane-sléttunum er ullin af merino-fénu sögð innihalda á bilinu 15%–20% lanolin-fitu eða -olíu. Þá hefur olían einnig þann eiginleika að verja féð fyrir skordýrum. 
 
Úr ull af einni merino-kind fæst um 250 til 300 millilítrar af ullarfitu eða lanolin. 
 
Féll í skuggann af tískuefnum úr olíuiðnaðinum
 
Ullarfita hefur verið þekkt frá ómunatíð og framleiðsla á lanolin-olíu hefur verið stunduð lengi. Ástralir eru síður en svo einráðir um að framleiða þá olíu. Á síðari árum hafa m.a. Kínverjar orðið nokkuð stórtækir á því sviði. Notkun á lanolin minkaði mikið upp úr 1940 þegar önnur efni, sem yfirleitt voru unnin úr jarðolíu, fóru að ryðja sér til rúms. Það er ekki fyrr en á síðari árum að fólk hefur farið að meta gæði ullarolíunnar að verðleikum á ný og þá ekki síst vegna þess hversu umhverfisvæn hún er.  
 
Lanolin ekki unnin úr  íslensku ullinni
 
Guðjón Kristinsson, framkvæmdastjóri hjá íslenska ullar­vinnslu­fyrirtækinu Ístex í Mosfellsbæ, segir ekki raunhæft að framleiða lanolin úr ull af íslensku fé. 
 
„Ullarmagnið er allt of lítið til að það borgi sig að vinna lanolin úr henni. Ég er búin að margskoða það mál og nú síðast í fyrra,“ segir Guðjón.
 
Hann segir að til að vinna olíuna eða fituna þurfi að taka allt vatn frá þvottakerjunum í gegnum skilvindur. Úr verður ullarvax sem er með bræðslumark um 38° á Celsíus. Vísindamönnum hefur enn ekki tekist að búa til kemískt efni sem nær einstökum eiginleikum hinnar náttúrulegu lanolin-olíu. 
 
Vinnsla á Íslandi svarar ekki kostnaði
 
„Það þarf heilmikla verksmiðju til að vinna lanolium úr fitunni. Ég er búinn að kanna hvað það kostar að setja upp skilvindukerfi og hvaða verð fæst fyrir tunnuna af hreinni fitu. Það stendur bara ekki undir kostnaði. Umfangið þyrfti að vera svo miklu meira til að slík vinnsla borgaði sig. Við höfum oft fengið fyrirspurnir um þetta en getum því miður ekki orðið við óskum um slíka framleiðslu.“
 
Minna fituinnihald í íslensku ullinni
 
Guðjón segir að ullin af ástralska merino-fénu sé mun fínni og innihaldi mun meiri fitu en ullin á íslenska fénu. Fituinnihaldið í áströlsku ullinni getur verið, eins og áður segir, á bilinu 15%–20%. Hann segir að úr íslensku haustullinni, sem er uppistaðan í því sem Ístex fær til vinnslu, þá sé um 80% nýting. Meira en helmingurinn af því sem þvegið er úr ullinni er sandur.
 
„Fituhlutfallið er kannski í kringum 6 til 8%. Það er því vart nema um þriðjungur úr fituinnihaldi sem fæst úr áströlsku ullinni,“ segir Guðjón.
 
Sérhæfir sig í smur- og varnarefnum úr ullarfitu
 
Lanotec Australia var stofnað í Ástralíu 1998. Í dag er það eitt stærsta fyrirtæki í Ástralíu á sviði framleiðslu smur- og varnarefna úr vistvænum og endurnýjanlegum hráefnum. Í starfi þróunardeildar fyrirtækisins felst sú skemmtilega kaldhæðni að þar er stöðugt verið að mæta öllum kröfum og þörfum olíu- og gasiðnaðarins fyrir smur- og varnarefni sem og að sinna námuiðnaðinum. Þannig leysa þeir af hólmi efni sem annars væru framleidd úr jarðolíu og geta verið hættuleg umhverfinu. 
 
Standast ströngustu kröfur, líka í matvælaiðnaði
 
Stefna fyrirtækisins er að framleiða einungis vistvæn efni sem byggð eru á grunni ullarolíu (lanolin), sítrusolíu og öðrum náttúrulegum efnum. Framleiðslan er háð miklum gæðakröfum og þurfa allar vörur að standast kröfur og sérleyfisúttektir hinnar áströlsku  rannsóknarstofnunar NATA (National Association of Testing Authorities). Þar á meðal hafa varnarefni Lanotec staðist salt- og tæringarprófanir NATA, hitaþolsprófanir, sýruþolsprófanir, alkaliprófanir og eldvarnarprófanir. Þá hafa efni fyrirtækisins m.a. verið  tekin út af matvælaöryggisyfirvöldum á Nýja-Sjálandi, NZFSA (New Zealand Food Safety Authority).
 
Smurefni og ryðvörn
 
Í dag framleiðir fyrirtækið vörur fyrir allar mögulegar greinar iðnaðar, landbúnaðar,  sjávarútvegs, flutninga, hernaðar sem og frístundastarfsemi. Meðal vöruflokka má nefna U.P. Ultimate Protection vörur sem sérstaklega eru ætlaðar til að ryðverja bíla og koma í veg fyrir tæringu á málmum í skipum og bátum. Þá eru Citra-Force náttúruleg hreinsiefni sem einnig eru notuð til að hreinsa rafmótora. Heavy Duty Liquid Lanolin eru smurefni sem ætluð eru m.a. til að smyrja drifkeðjur í mótorhjólum, til að vatnsverja rafmagnskapla og tengingar í skipum, rafskaut á rafgeymum, til að rakaverja raftæki mótora og dælur og sem vatnsvörn á leðurstígvél. Síðan eru General Purpose Liquid lanolin-efni sem ætluð eru til að verja veiðihjól, veiðistangir, skotmagasín í byssum, til að verja húsbíla og hjólhýsi, m.a. fyrir maurum, og til að verja leður, plast og vínyl svo eitthvað sé nefnt. 
 
Sem dæmi um notkun þá hafa menn verið að nota efni fyrirtækisins til að úða á botn lítilla farþegaferja, þar sem þau hrinda frá sér vatni og minnka um leið viðnám og olíueyðslu skipanna. Einnig hafa slík efni verið notuð á stálvíra til að verja þá fyrir ryðmyndun. 
 
Sagt betra en best þekktu smurefnin
 
Fullyrt er að smurefni sem unnið er úr lanolin-olíu hafi mun betri smur- og tæringarvarnareiginleika en hið þekkta bandaríska smurefni WD-40, sem allir bílaáhugamenn ættu að þekkja af góðu einu sem mikið undraefni og hefur verið notað um allan heim í yfir 60 ár. Lanolin-efnin eru auk þess sögð hafa það umfram WD-4, sem unnið eru úr jarðolíuefnum, að vera mjög vistvænt og skaðlaus mönnum og dýrum.
 
Til að verja tréverk
 
Efni úr lanolin hafa líka verið notuð til að fúaverja timburverk í sólpöllum, göngustígum sem og húsaklæðningar. Göngustígar á náttúruverndarsvæðum hafa þar sérstaklega verið nefndir, þar sem ekki má nota efni sem unnin eru úr olíu og geta mengað viðkvæma náttúru. Við slíkar aðstæður er fátt sem dugar betur en hin stórmerkilega ullarolía.
 
Mörg fyrirtæki eru farin að framleiða smur- og ryðvarnarefni úr lanolium og sumt af því hefur fengist hér á landi. Sem dæmi má t.d. nefna Fluid Film-efni. Einnig Prolan-efni sem Prolan á Íslandi á Rauðhellu  í Hafnarfirði hefur verið að kynna. 

26 myndir:

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu
Fréttaskýring 7. júní 2024

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu

Ísland stendur öðrum löndum að baki þegar kemur að stuðningi við nýliða í landbú...