Karvel L. Karvelsson, fram­kvæmda­stjóri RML.
Fréttir 07. apríl 2020

Rekstrar- og fjármálaráðgjöf leiðbeinir bændum í rekstrarvandræðum

Vilmundur Hansen

Rekstrar- og fjármálaráðgjöf er einn af grunnþáttum í ráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins. Ástandið í þjóðfélaginu mun hafa áhrif á landbúnaðinn eins og aðra starfsemi og á það ekki síst við bændur í ferðaþjónustu.

Karvel L. Karvelsson, fram­kvæmda­stjóri RML, segir að ráðgjafar RML hafi mikla reynslu af því að aðstoða bændur í gerð rekstraráætlana við uppbyggingu fyrirtækja og einnig í eftirfylgni gegnum hvers konar þrengingar.

Samantekt upplýsinga

„Ýmsar aðgerðir hafa nú þegar verið kynntar á vegum stjórnvalda og fjármálafyrirtækja sem stefna að því að milda áhrif COVID-19. Á heimasíðu rml.is er að finna helstu upplýsingar og vísanir í þau eyðublöð og síður sem bændur gætu þurft að nálgast vegna ástandsins. Lykilvefsíðurnar í þessum efnum eru vefir Ríkisskattstjóra og Vinnu­mála­stofnunar.

Ráðgjafar okkar eru vel að sér í þeim úrræðum sem eru í boði og vinna með þeim einstaklingum sem eru komnir eða eru að stefna í vandræði. Mestu skiptir að bændur kynni sér úrræðin eða leiti eftir aðstoð og fái það metið hvort og hvernig hægt sé að aðstoða þá út úr þrengingum,“ segir Karvel.

Reynsla frá 2008

„Reynslan af bankahruninu 2008 var sú að ákveðinn hópur bænda þurfti á langtímaaðstoð að halda við að ná tökum á rekstrinum og semja við fjármálastofnanir. Ráðgjafar RML, áður búnaðarsambanda og Bændasamtakanna, sýndu þá hversu mikilvægt er að bændur geti leitað aðstoðar sérfræðinga til að semja við og fjármálastofnanir í þrengingum og að gera fjármálaáætlanir. Aðstoð RML vegna bankahrunsins stóð vel fram á árið 2014.“

Karvel segir að aðkoma RML að rekstrarerfiðleikum bænda hafi verið margvísleg í gegnum tíðina og að ráðgjafarmiðstöðin hafi meðal annars komið að vinnu vegna meiri háttar aðgerða, svo sem vegna vandræða minkabænda, vegna stórtjóns á kali í túnum svo og  einstaklinga sem hafa lent í erfiðleikum vegna síns reksturs, reynslan og þekkingin á aðstæðum sem upp geta komið er því til staðar.

Verst að gera ekki neitt

Karvel hvetur bændur til að hafa samband við RML í gegnum síma, 516-5000, með tölvupósti eða á netspjalli á heimasíðu RML til að óska eftir ráðgjöf eða leita eftir upplýsingum. Einnig bendir Karvel öllum bændum á að halda vel utan um það tjón eða fjárútlát sem verður vegna COVID-19. Í því sambandi er verið að setja skráningarform á Bændatorgið þar sem allar upplýsingar varðandi tjón verða dregnar saman.