Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 mánaða.
Frá Nýju Delí. Indland er fjölmennasta ríki jarðar og með fimmta stærsta hagkerfi heims.
Frá Nýju Delí. Indland er fjölmennasta ríki jarðar og með fimmta stærsta hagkerfi heims.
Mynd / Laurentiu Morariu
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næstu árum en nýr fríverslunarsamningur EFTA- ríkjanna við þetta fimmta stærsta hagkerfi heims einfaldar viðskipti milli landanna.

Fríverslunarsamningur milli Indlands og EFTA-ríkjanna var undirritaður í Nýju Delí þann 10. mars síðastliðinn. Ragnar G. Kristjánsson er skrifstofustjóri á viðskiptaskrifstofu í utanríkis- ráðuneytinu og Þórður Jónsson var aðalsamningamaður Íslands í viðræðum undir það síðasta. Þeir segja að samningurinn opni ekki fyrir innflutning á landbúnaðarvörum umfram það sem hefur verið gert í öðrum fríverslunarsamningum síðastliðin ár. Í gegnum EFTA er Ísland með fríverslunarsamning við yfir fjörutíu ríki. Samningur sem er saminn meðal EFTA- ríkjanna fjögurra; Noregs, Íslands, Liechtenstein og Sviss, við Indland. Viðræður hófust fyrst formlega árið 2008 en fóru á skrið í fyrra. Mun þetta vera stærsti samningur sem Ísland hefur gert utan Evrópu síðan fríverslunarsamningur við Kína var undirritaður fyrir áratug.

Ragnar G. Kristjánsson, skrifstofustjóri í utanríkisráðuneytinu, og Þórður Jónsson, sem var aðalsamningamaður Íslands í viðræðum undir það síðasta. Mynd/ghp

Land á mikilli uppleið

„Þetta er spennandi samningur við merkilegt land sem er á mikilli uppleið. Hagvöxtur Indlands hefur verið upp á 8,5 prósent. Þetta er fimmta stærsta hagkerfi heims, fjölmennasta ríkið og er með mjög sterka framtíðarsýn. Að landa samningnum á undan ESB, Bretlandi og Kanada, sem öll eru í samningaviðræðum við Indland, þýðir að við fáum hugsanlega smá forskot inn á þennan markað,“ segir Þórður.

Með samningnum eru mótaðar skýrar reglur og lagalegur fyrirsjáanleiki fyrir fyrirtæki sem vilja eiga í viðskiptasambandi milli Íslands og Indlands. Í þeim felast tilteknar tollaniðurfellingar og tollfríðindi á vörum og liðkað er fyrir tiltekin þjónustuviðskipti sem á að gefa fyrirtækjum samkeppnisforskot og einfalda viðskipti milli landanna.

Ragnar segir samninginn skapa fjölbreytni í fríverslunarneti EFTA- ríkjanna. „Menn hafa áhyggjur af aðfangakeðjum og vilja tryggja efnahagslegt öryggi. Hér erum við að tala um risa framtíðarland sem mun auka tækifæri fyrir okkur. Það er ástæða fyrir því að ESB, Bretar og aðrir eru að horfa á Indland, þetta er land sem getur skipt miklu máli til lengri tíma litið.“

Fríverslunarsamningur hefur einnig víðari skírskotun því tilvist hans er oft ákveðinn stökkpallur fyrir ríkin á báða bóga. „Til dæmis fær Ísland mikla athygli á Indlandi út af samningnum,“ segir Ragnar.

Hafa ekki áhyggjur af innflutningi matvara

Þórður segir að snemma í samningaviðræðum hafi verið ákveðið að virða þau svið sem aðildarlönd samningsins töldu viðkvæm. „Landbúnaðarsviðið taldist viðkvæm fyrir öll ríkin. Ekkert þeirra er útflutningsríki hvað búvörur varða og öll vildum við verja innlenda hagsmuni,“ segir Þórður. Því hefði fljótt verið ljóst að ekki yrði samið um tollfríðindi varðandi búvörur, þó með nokkrum undantekningum.

Samningurinn er að sögn Ragnars tiltölulegar hefðbundinn fríverslunarsamningur hvað landbúnaðarvörur varðar. „Í mörgum tilfellum tekur Ísland ekki á sig neinar skuldbindingar um fríðindameðferð, það er að við fellum hvorki niður tolla, lækkum þá né bindum. Þá er ekki samið um neina tollkvóta.“

Nokkur dæmi eru um vörur sem fá tollalækkun við innflutning vegna samningsins svo sem jógúrtvörur með viðbættum sykri, ýmsar vörur til fóðurgerðar, unnar vörur sem innihalda mjólk og kjöt, kakó og súkkulaði og ýmis matur. Þrátt fyrir það telur Ragnar enga ógn af auknum innflutningi matvara frá Indlandi, enda flutningsleiðir langar. „Þetta er samningur við EFTA-ríkin fjögur. Ég held að Indland hefði aldrei gert fríverslunarsamning við Ísland eitt. Í þessu tilviki þá er það klárlega þannig að Indverjarnir líta ekki síst til Sviss. Það eru þó ákvæði í samningnum um að ef við sjáum að einhver innflutningur er að hafa áhrif á markaðinn þá getum við beitt okkur til að stöðva innflutninginn.“

Samningurinn bætir markaðskjör á ýmsum útflutningsvörum fyrir Ísland. Sjávarafurðir og helstu iðnaðarvörur munu njóta fulls tollfrelsis eða töluverðrar tollalækkunar.

Þá tryggir samningurinn tollfríðindi fyrir lifandi hesta, vörur úr sjávarþara, drykkjarvatn og íslenskt lambakjöt, svo dæmi sé tekið. Það síðastnefnda segir Þórð nokkuð óvæntan áfanga.

„Við fengum tollaniðurfellingu á lambakjöti þrátt fyrir að frá fyrsta degi hafi kjöt talist viðkvæmt og ekki inni í myndinni að semja um það. En einhver áhugi er fyrir þessu á indverskum markaði. Norðmenn fengu til að mynda ekki sitt lambakjöt inn í samninginn.“ Hann bendir áhugasömum á að hægt er að hafa beint samband við utanríkisráðuneytið til að fá upplýsingar um tilteknar vörur.

Bjarni Benediktsson fyrrverandi utanríkisráðherra undirritaði samninginn fyrir hönd Íslands. Mynd / EFTA

Indverjar kaupa lýsi

Árið 2023 voru vörur fluttar inn frá Indlandi fyrir rúman milljarð króna. Mikið af hráefnum í lyfjaiðnaði er flutt hingað til lands en einnig ýmis matvara, svo sem rækjur, hrísgrjón og krydd.

Útflutningsverðmætin námu hins vegar aðeins um 214 milljónum króna, þar af var helmingur þess verðmætis, rúmar 103 milljónir króna, vegna útflutnings á kaldhreinsuðu þorskalýsi. Með fríverslunarsamningnum mun 55% tollur sem settur var á lýsið falla niður. „Þegar kemur að vöruviðskiptum þá eru hagsmunir Indlands meiri en Íslands. En þegar kemur að þjónustu þá jafnast þetta út, Ísland er þar í meiri útflutningi en Indland,“ segir Þórður og útskýrir að eftir miklu sé að seilast í þjónustuviðskiptum við Indland – sem vill meðal annars sækja í þekkingu okkar á nýtingu jarðvarma. Því auk fríverslunarsamningsins var samið sérstaklega um fjárfestingar þar sem EFTA-ríkin bókuðu markmið um að stórauka fjárfestingar í Indlandi.

„Stjórnvöld í Indlandi eru með metnaðarfullar áætlanir hvað það varðar. Þeir vilja fyrir árið 2030 að helmingur af rafmagni á Indlandi sé framleitt gegnum endurnýjanlega orku, þetta er í kringum 500 mW. sem þeir vilja ná á sjö árum. Ýmis fyrirtæki hér eru að koma að uppbyggingarverkefnum ytra.“

Breytileikinn T137 verði viðurkenndur sem verndandi
Fréttir 22. nóvember 2024

Breytileikinn T137 verði viðurkenndur sem verndandi

Formlegt erindi liggur nú í matvælaráðuneytinu þar sem óskað er eftir því að arf...

Hlaðvarp um landbúnað í aðdraganda kosninga
Fréttir 22. nóvember 2024

Hlaðvarp um landbúnað í aðdraganda kosninga

Áherslur framboða í málefnum tengdum landbúnaði er umræðuefni hlaðvarpsins „Á hl...

Lán að ekki fór verr
Fréttir 22. nóvember 2024

Lán að ekki fór verr

Um sex þúsund varphænur drápust í eldsvoðanum sem varð í eggjabúi hjá Nesbúeggju...

Aldrei fleiri umsóknir um nýliðunarstuðning
Fréttir 22. nóvember 2024

Aldrei fleiri umsóknir um nýliðunarstuðning

Matvælaráðuneytið hefur úthlutað nýliðunarstuðningi í landbúnaði fyrir árið 2024...

Ákvörðun felld úr gildi
Fréttir 21. nóvember 2024

Ákvörðun felld úr gildi

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að nýlega samþykktar undaþágu...

Skráð heildartjón rúmur milljarður
Fréttir 21. nóvember 2024

Skráð heildartjón rúmur milljarður

Skráð heildartjón vegna kuldakasts og annars óvenjulegs veðurfars á árinu er rúm...

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu
Fréttir 21. nóvember 2024

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu

Áður en Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm boðaði Kaupfélag Skagfirðinga (KS) ...

Undanþágan dæmd ólögmæt
Fréttir 21. nóvember 2024

Undanþágan dæmd ólögmæt

Óvissa er uppi um framhald samruna og hugmynda Kaupfélags Skagfirðinga (KS) um h...