Umhverfisvænar blómaskreytingar
Náttúruleg fegurð var í fyrirrúmi á námskeiði um blómaskreytingar í Garðyrkjuskólanum á Reykjum á dögunum.
Sænski blómaskreytirinn og blómahönnuðurinn Heidi Mikkonen kom til Íslands dagana 8.–13 apríl sl. og var með tvö námskeið á Reykjum. Annað þeirra var ætlað nemendum blómaskreytingabrautar Garðyrkjuskólans og hitt fyrir fagfólk í blómaskreytingum.
Heidi vinnur mikið með efni úr náttúrunni og nærumhverfi og leggur áherslu á að skreytingar séu umhverfisvænar og með lágt kolefnisspor. Þær Bryndís Eir Þorsteinsdóttir, námsbrautarstjóri blómaskreytingabrautar og Valgerður Jóndís Guðjónsdóttir blómaskreytingakennari, af kunnugum kallaðar Blómdís og Jóndís, voru Heidi til aðstoðar.
„Heidi var sérlega ánægð með það úrval sem íslenskir blómabændur rækta í gróðurhúsum sínum og ekki spillti gleðinni hjá henni þegar blómabændurnir Axel Sæland og Heiða Pálrún Leifsdóttir á Espiflöt litu inn til að forvitnast um það hvernig verið væri að vinna með blómin sem þau framleiða.
Þátttakendur á námskeiðunum nýttu sér útisvæði Garðyrkjuskólans í efnisöflun og nálguðust þar greinar og sinu sem fengu ný hlutverk í blómaskreytingunum. Að auki nýttist vel efniviður úr Bananahúsinu og voru visin laufblöð einna vinsælust í skreytingarnar. Það er mikil innspýting fyrir blómaskreytingafagið að fá erlenda kennara til landsins með ferska strauma og hugmyndir sem kveikja á ímyndunaraflinu og efla og styrkja fagið“, segir í tilkynningu sem barst frá Garðyrkjuskólanum á Reykjum.
Gullfallegur afrakstur námskeiða í blómaskreytingum.