Sefgoði
Sefgoði er flækingur af goðaætt og fannst nýverið við Þorlákshöfn. Það er einungis einn fugl af goðaættinni sem verpir á Íslandi og er það flórgoði. Það eru nokkrar aðrar tegundir af goðum sem finnast í Evrópu en þeir eru allir fremur sjaldgæfir flækingar hér á Íslandi en af þeim goðum sem hingað flækjast er sefgoði líklega algengastur. Goðar eru margir hverjir nokkuð litskrúðugir þegar þeir fara í sumarbúning en sefgoðinn sem er á myndinni er í vetrarbúning sem er nokkuð minna áberandi. Goðar eru sundfuglar sem sækja í strandir, vötn og mýrar. Þeir kafa mikið eftir smáfiskum, hornsílum eða litlum krabbadýrum.