Galapagos-skjaldbakan Speed lést ríflega 150 ára gömul
Árið 1933 var skjaldbaka frá Galapagoseyjum flutt í dýragarðinn í San Diego í Kaliforníu sem liður í að vernda skjaldbökurnar.
Vitað var að skjaldbaka, sem kölluð var Speed, eða Hraði, vegna þess hversu snögg hún var í snúningum, var nokkuð komin til ára sinna þegar hún kom í garðinn.
Áætlað er að Speed hafi verið ríflega 150 ára gömul þegar hún lést fyrir skömmu. Þá langelsta lífveran í dýragarðinum. Síðustu árin átti skjaldbakan við veikindi að stríða og var stirð af gigt. Hún naut góðrar umönnunar og var hún meðal annars sett í nálastungu, í lyfjameðferð og sjúkraþjálfun. Afkomendur Speed eru 90 í dag og búa 14 í dýragarðinum í San Diego en hinum hefur verið sleppt út í náttúruna.