Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Arnljótur Bjarki Bergsson, fyrrverandi starfsmaður Matís og einn af skýrsluhöfundum skýrslu um örslátrunarverkefnið sem aldrei kom út.
Arnljótur Bjarki Bergsson, fyrrverandi starfsmaður Matís og einn af skýrsluhöfundum skýrslu um örslátrunarverkefnið sem aldrei kom út.
Mynd / Matís
Fréttir 17. desember 2020

Gildi verkefnisins ótvírætt fyrir bændur og neytendur

Höfundur: smh

Arnljótur Bjarki Bergsson var einn af starfsmönnum Matís sem komu að örslátrunarverkefni Matís í Skagafirði haustið 2018, þegar lömbum var slátrað heima á bænum Birkihlíð og afurðirnar bornar saman við lambakjötsafurðir sem slátrað var á hefðbundinn hátt í sláturhúsi. Samkvæmt minnispunktum sem Arnljótur hefur tekið saman um tilraunina voru hryggir, sem voru látnir hanga lengur en almennt tíðkast í sláturhúsum, marktækt mýkri, meyrari og safaríkari en hryggir sem keyptir voru í stórmarkaði. 

Arnljótur segir að mælingar hafi sýnt að magn örvera á heimaslátruðu skrokkunum hafi verið vel undir viðmiðunarmörkum. 

Skýrsla um verkefnið hefur ekki verið gefin út, en að sögn Arnljóts er mikilvægt að hún komi út, því hún leiði í ljós upplýsingar úr tilraun sem aldrei áður hefur verið gerð en skipti máli varðandi möguleika sauðfjárbænda til aukinnar verðmætasköpunar með þróun atvinnugreinarinnar. Ákvað hann því að taka saman minnispunktana og hugleiðingu til að varpa betur ljósi á niðurstöður verkefnisins, en ekki hafi tekist að fá skýrsluna gefna út eftir að Sveinn Margeirsson var settur af sem forstjóri Matís og Oddur M. Gunnarsson tók við. Arnljóti var sagt upp störfum tæpu ári eftir tilraunina, en hann fór fyrir sviðinu sem hýsti verkefnið og tilraunina sem skýrslan fjallaði um. Segir hann að hún hafi nánast verið tilbúin til útgáfu frá því í júní 2019. 

Mikilvægi matvælaöryggis

Arnljótur segir einnig að gildi örslátrunarverkefnisins felist í nokkrum atriðum sem voru sérstaklega skoðuð í tilrauninni í Birkihlíð.

„Takmörkun á viðskiptum með afurðir sem slátrað er heima á býli, frekar en í sláturhúsi, hefur verið skýrð með óvissu um hvort afurðirnar séu öruggar til neyslu. Tilraun, þar sem lömbum var slátrað utan viðurkennds sláturhúss, var framkvæmd. Afurðirnar voru rannsakaðar út frá mikilvægi matvælaöryggis með hliðsjón af því hvort neysla afurðanna myndi stofna neytendum í hættu. Niðurstöður mælinga sýndu að afurðir tilraunarinnar voru öruggar til neyslu. Þá var kannað hvort munur væri á gæðaþáttum kjötsins, svo sem meyrni, og hvort nýta mætti gögn sem skráð eru í gagnagrunn af bændum sem upplýsingar fyrir neytendur.“

Örugg leið ef rétt er staðið að málum

Allt þetta, segir Arnljótur, sýnir að örslátrun heima á bæjum geti verið alveg örugg leið – ef rétt er staðið að málum – auk þess að gefa bændum möguleika á að auka verðmæti afurða sinna og neytendum kost á gegnsæjum viðskiptum með sauðfjárafurðir.

Sveinn kom einnig að verkefninu en var nýlega sýknaður í Héraðsdómi Norðurlands vestra fyrir brot á lögum um slátrun og sláturafurðir, í tengslum við örslátrunarverkefnið.

Oddur sagði í svari við fyrirspurn Bændablaðsins í september á síðasta ári, að ástæða þess að skýrslan hefði ekki verið gefin út væri sú að hún væri ekki tilbúin til útgáfu, verkefnið væri ófjármagnað og því lægi vinna við það niðri um það leyti sem Arnljótur var leystur frá störfum. Í viðtali við Bændablaðið í janúar á þessu ári sagði Oddur að auk þess sem ekki hafi verið til fjármagn til að ljúka skýrslugerðinni hefðu skýrsludrögin ekki staðist kröfur Matís, ályktanir hefði verið dregnar sem sérfræðiálit segðu að gengu ekki upp. Tilraunin gæfi mjög takmarkaðar upplýsingar og alveg ómarktækar sem vísindalegar niðurstöður sem hægt væri að draga ályktanir út frá. „Það er alveg sama hvað við mælum mikið örveruflóru á skrokkum eða meyrnimælum, það hefur ekkert með heimaslátrun að gera eða öryggi hennar,“ sagði Oddur.

Lítið gert úr starfsmönnum Matís

Arnljótur segir orð Odds óheppileg og hvimleið, sem hann hafi reynt að leiða hjá sér, því að með þessum orðum geri Oddur í það minnsta lítið úr starfi þeirra níu starfsmanna Matís sem komu að verkefninu, tilrauninni og skýrslugerðinni. „Hvorki vinna starfsmanna Matís í skynmatshóp og þaðan af síður þeirra er sinna örverumælingum er ómarktæk. Fylgt var stöðluðum vinnubrögðum og aðferðafræði sem hefði verið viðurkennd við skýrslugerð af þessu tagi. Skýrslan var ekki prófritgerð. Skýrslur sem Matís hefur gefið út eru misjafnar að lengd og umbroti; þær skýra frá verkefnum og í einstaka tilfellum frá einstaka tilraunum, til þeirra eru ekki gerðar sömu kröfur og til ritrýndra vísindagreina. 

Þó tilraunin yrði varla endurtekin af hálfu Matís undir stjórn Odds, má samt skýra frá því sem gert var og kom út úr tilrauninni. Með rekjanleika í huga er rétt að segja frá því sem gert var óháð niðurstöðum, þannig er stuðlað að því að upplýsingar séu aðgengilegar. Óþarfi sé að gera málið stærra en efni standi til,“ segir Arnljótur. 

Breytileikinn T137 verði viðurkenndur sem verndandi
Fréttir 22. nóvember 2024

Breytileikinn T137 verði viðurkenndur sem verndandi

Formlegt erindi liggur nú í matvælaráðuneytinu þar sem óskað er eftir því að arf...

Hlaðvarp um landbúnað í aðdraganda kosninga
Fréttir 22. nóvember 2024

Hlaðvarp um landbúnað í aðdraganda kosninga

Áherslur framboða í málefnum tengdum landbúnaði er umræðuefni hlaðvarpsins „Á hl...

Lán að ekki fór verr
Fréttir 22. nóvember 2024

Lán að ekki fór verr

Um sex þúsund varphænur drápust í eldsvoðanum sem varð í eggjabúi hjá Nesbúeggju...

Aldrei fleiri umsóknir um nýliðunarstuðning
Fréttir 22. nóvember 2024

Aldrei fleiri umsóknir um nýliðunarstuðning

Matvælaráðuneytið hefur úthlutað nýliðunarstuðningi í landbúnaði fyrir árið 2024...

Ákvörðun felld úr gildi
Fréttir 21. nóvember 2024

Ákvörðun felld úr gildi

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að nýlega samþykktar undaþágu...

Skráð heildartjón rúmur milljarður
Fréttir 21. nóvember 2024

Skráð heildartjón rúmur milljarður

Skráð heildartjón vegna kuldakasts og annars óvenjulegs veðurfars á árinu er rúm...

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu
Fréttir 21. nóvember 2024

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu

Áður en Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm boðaði Kaupfélag Skagfirðinga (KS) ...

Undanþágan dæmd ólögmæt
Fréttir 21. nóvember 2024

Undanþágan dæmd ólögmæt

Óvissa er uppi um framhald samruna og hugmynda Kaupfélags Skagfirðinga (KS) um h...