Glímueldhuginn Kjartan
Glímusamband Íslands hefur útnefnt Kjartan Lárusson frá Austurey í Bláskógabyggð sem Glímueldhuga ársins 2024.
Með tilnefningunni vill stjórn Glímusambandsins koma á framfæri þakklæti fyrir framlag þeirra sjálfboðaliða sem gegna mikilvægu hlutverki í glímustarfi á Íslandi.

Byrjaði eftir þrítugt
„Ég er bara mjög stoltur og hrærður að vera valinn fyrsti eldhuginn hjá Glímusambandi Íslands. Ég fékk fyrst áhuga á glímu á unglingsárum þegar ég var að fylgjast með frændum mínum, Kjartani og Guðmundi Helgasonum í Haga. Sjálfur byrjaði ég ekki fyrr en ég var orðinn þrítugur, eða árið 1985, að keppa í glímu eftir að hafa verið mikið í blaki, körfubolta og fleiri greinum með Laugdælum. Við urðum til dæmis Íslandsmeistari í efstu deild í blaki árið 1979 og Íslands- og bikarmeistari árið 1980. Auk þess varð ég Íslandsmeistari í körfubolta í þriðju efstu deild 1976,“ segir Kjartan alsæll.
Eignast góða vini
Kjartan segist hafa keppt mikið í glímu frá árunum 1985 til 2007 og oftast verið í verðlaunasætum. „Ég varð meðal annars bikarmeistari Íslands, fjórðungsmeistari Suðurlands, skjaldarhafi Skarphéðins, Íslandsmeistari í sveitaglímu og í þriðja sæti í Íslandsglímu svo eitthvað sé nefnt,“ segir Kjartan.
Í dag er hann aðallega að dæma á glímumótum. „Það er mjög gefandi starf og mikið af góðu fólki sem maður kynnist og eignast góða vini, bæði dómara, keppendur og annað glímuáhugafólk,“ segir glímueldhuginn.