Gúrkuuppskera aldrei meiri
Metuppskera var í gúrkuræktun á síðasta ári, eða 2.096 tonn. Stöðugur vöxtur hefur verið í greininni á undanförnum árum.
Þetta sýna nýlegar tölur Hagstofu Íslands og þar kemur einnig fram að uppskera í paprikurækt var með besta móti, eða 221 tonn, sem er sú mesta frá árinu 2014. Eftir afar gott ár 2022 í tómataræktun, þá minnkar uppskeran í þeirri grein á milli ára og var 1.247 tonn á síðasta ári – en hún var þó meiri en bæði árin 2021 og 2020.
Sveppauppskeran var sú mesta á undanförnum þremur árum, eða 609 tonn, sem er álíka mikið og árið 2020.
Salatuppskeran á síðasta ári var sú minnsta á undanförnum fjórum árum, eða 448 tonn.