Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 mánaða.
Samkvæmt aðgerðaráætluninni á að kanna sérstakar stuðningsgreiðslur, fjárfestinga- og tækjastyrki fyrir lífræna framleiðendur.
Samkvæmt aðgerðaráætluninni á að kanna sérstakar stuðningsgreiðslur, fjárfestinga- og tækjastyrki fyrir lífræna framleiðendur.
Fréttir 22. desember 2023

Hlutfall af lífrænt vottuðu land­búnaðarlandi verði 10% árið 2040

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Gefin hafa verið út drög að fyrstu íslensku aðgerðaráætluninni til eflingar lífrænnar matvælaframleiðslu.

Eygló Björk Ólafsdóttir.

Íslensk stjórnvöld hafa fram til þessa ekki sett sér markmið um hlutfall lífræns vottaðs lands af landbúnaðarlandi á Íslandi, en með útgefinni aðgerðaráætlun er nú stefnt að því sem meginmarkmiði að hlutfallið verði tíu prósent árið 2040.

Þetta hlutfall hefur á undanförnum árum verið metið vel undir einu prósenti á Íslandi. Evrópusambandið hefur í tengslum við landbúnaðarstefnu sína, Farm to Fork, sett sér markmið um að hlutfall af lífrænu landbúnaðarlandi í löndum sambandsins verði komið í 25 prósent árið 2030. Þetta hlutfall var talið vera 10 prósent árið 2021.

Stuðningsaðgerðir við framleiðendur frá 2027

Aðgerðaráætlunin var unnin í matvælaráðuneytinu en hún byggir á tillögu Umhverfisráðgjafar Íslands sem var falið að vinna að undirbúningi áætlunarinnar í september 2022. Hún samanstendur af 14 tölusettum aðgerðum sem eru á ábyrgð matvælaráðuneytisins, auk átta annarra aðgerða sem heyra undir önnur ráðuneyti. Hún liggur nú í Samráðsgátt stjórnvalda til umsagnar.

Tímarammi aðgerða sem miða að beinum stuðningi við framleiðendur er í flestum tilvikum frá árinu 2027, eftir að endurskoðað stuðningsfyrirkomulag við land- búnað hefur tekur gildi, með vísan til íslensku landbúnaðarstefnunnar.

Skilvirkari aðlögunarstuðningur yfir lengri tíma

Fyrsta aðgerðin miðar að því að endurskoða núverandi aðlögunarstuðning í þeim tilgangi að gera hann skilvirkari og lengja tímabilið. Í stað núverandi aðlögunarstyrkja verði boðið upp á fimm til sjö ára aðlögunarstuðning. Styrkir verða einnig veittir yfir tveggja til þriggja ára tímabil til að mæta kostnaði nýrra framleiðenda vegna lögbundinnar aðlögunar að lífrænni framleiðslu undir eftirliti vottunarstofu.

Meðal annarra aðgerða má nefna að kannað verður sérstaklega að lífrænum framleiðendum verði greitt sérstakt álag á almennar stuðningsgreiðslur, eftir aðlögunar- tímabil, að framleiðendum verði boðnir sérstakir fjárfestinga- og tækjastyrkir, afurðastöðvum verði boðnir sérstakir styrkir til að mæta auknum kostnaði og að tryggja verði að gerðar verði nauðsynlegar greiningar á möguleikum notkunar á lífræns efnis til áburðar- og fóðurgerðar.

Gert er ráð fyrir að aðgerðaráætlunin verði endurskoðuð eigi sjaldnar en á fimm ára fresti, í fyrsta skiptið ekki seinna en 1. janúar 2029.

Ísland er eftirbátur annarra þjóða

Eygló Björk Ólafsdóttir er formaður VOR (Verndun og ræktun ) – félag um lífræna ræktun og framleiðslu. Hún segir það mjög ánægjulegt að búið sé að leggja fram þessi drög að fyrstu aðgerðaráætlun hér á landi sem snýr að lífrænni matvælaframleiðslu.

„Þetta er þýðingarmikið skref fyrir alla. Ísland er eftirbátur annarra þjóða í umfangi lífræns vottaðs landbúnaðarlands, það hefur sýnt sig í öðrum löndum að markmið og aðgerðaráætlun stjórnvalda hefur hvað mest áhrif á vöxt og framgang á þessu sviði. VOR hefur oft bent á að það eru margir sem þurfa að koma að þessu verkefni, það þarf aðgerðir frá ýmsum hliðum.

Drögin taka á helstu þáttum sem þurfa að vera til staðar, það er endurskoðun á styrkjakerfinu, markaðsstarfi, leiðbeiningar og annar stuðningur við framleiðendur, sem og fræðslumál sem reyndar heyra undir annað ráðuneyti en eru einnig mjög mikilvæg undirstaða fyrir nýliðun. Af þeim 14 aðgerðum sem þarna eru tilteknar er fjármögnun þó ekki alveg skýr sem væntanlega er í ljósi þess að nýir búvörusamningar munu líta dagsins ljós árið 2027. Margir gera þær væntingar að þeir muni losa um ákveðna stífni í núverandi kerfi og endurspegli ný viðfangsefni á sviði landbúnaðar. VOR mun leggja áherslu á að aðgerðaráætlunin, þegar hún liggur fyrir endanlega, komi sem fyrst til framkvæmda,“ segir Eygló.

Of rúmur tími

Eygló telur að það sé heldur rúmur tími, að setja markið á að þessi tíu prósent náist ekki fyrr en árið 2040. „Evrópusambandið er í tíu prósentum í dag en okkur hefur fundist að það ætti að vera raunhæft fyrir Ísland að ná þessu markmiði á 10 árum. Það er fullt tilefni til að hefja skipulagða vinnu í þá veru að gera Ísland meira gildandi í lífrænni framleiðslu með tilheyrandi tækifærum fyrir íslenska bændur um leið og áhrif á umhverfi og lýðheilsu eru mjög jákvæð.“

Skylt efni: lífrænt vottað

Mannelski og sjálfsöruggi gæðingafaðirinn
Fréttir 16. júlí 2024

Mannelski og sjálfsöruggi gæðingafaðirinn

Olil Amble og Bergur Jónsson á Syðri-Gegnishólum hafa náð einstökum árangri í hr...

Ráðuneytið svarar ESA um óvissuatriði
Fréttir 15. júlí 2024

Ráðuneytið svarar ESA um óvissuatriði

Matvælaráðuneytið segir í svari við fyrirspurn ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, að sa...

Farsæll áhugaræktandi
Fréttir 15. júlí 2024

Farsæll áhugaræktandi

Þrír synir undan heiðursverðlaunahryssunni Álöfu frá Ketilsstöðum komu fram á La...

Hundrað hesta setningarathöfn
Fréttir 12. júlí 2024

Hundrað hesta setningarathöfn

Setningarathöfn Landsmóts hestasmanna er alla jafna hátíðleg.

Til þess var leikurinn gerður
Fréttir 11. júlí 2024

Til þess var leikurinn gerður

Stjórn Búsældar hefur fyrir sitt leyti samþykkt söluna á Kjarnafæði Norðlenska t...

Skammur aðdragandi að sölunni
Fréttir 11. júlí 2024

Skammur aðdragandi að sölunni

Bræðurnir Eiður og Hreinn Gunnlaugssynir hafa sem áður segir samþykkt kauptilboð...

Kaup Skagfirðinga á Kjarnafæði Norðlenska
Fréttir 11. júlí 2024

Kaup Skagfirðinga á Kjarnafæði Norðlenska

Meginmarkmið kaupa Kaupfélags Skagfirðinga (KS) á Kjarnafæði Norðlenska (KN) er ...

Tilþrif á Landsmóti
Fréttir 11. júlí 2024

Tilþrif á Landsmóti

Enginn skortur var á glæsilegum tilþrifum stólpafáka sem komu fram í gæðingakepp...