Hríshólslamb númer 31 stigahæst
Vel var mætt að vanda á hrútafund sem haldinn var í Hlíðarbæ í lok nóvember, en tæplega 50 sauðfjárræktendur og áhugafólk var á staðnum. Eyþór Einarsson, ráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, fór yfir hrútakost sæðingastöðvanna og ýmis áherslumál greinarinnar.
BSE veitti viðurkenningar fyrir þrjá stigahæstu lambhrúta sem skoðaðir voru í haust af ráðunautum RML.
Þar stóð efstur, lamb nr. 32 á Hríshóli 2 með 89 stig sem Guðmundur S. Óskarsson og Helga Berglind Hreinsdóttir, bændur þar, eiga. Hann er undan Simba 18-779 sem er undan Tvistssyni. Á bakvið hann eru margir þekktir sæðishrútar eins og Saumur, Gosi auk Bergsstaðahrútanna Gaurs og Grámanns. Lambið var 63 kg, vöðvi 39, fita 3,9 lögun 5, leggur 110. Stigin við dóm : 8-8,5-9,5-10-9,5-18,5-8-8-9 = 89.
Í öðru sæti var lamb nr. 124 á Auðnum 1 í eigu Aðalsteins Heiðmanns Hreinssonar og Sigríðar Svavarsdóttur með 88,5 stig, undan Þræl 16-358 sem er heimahrútur, með ættir að mestu frá Auðnum og nágrannabæjum í Öxnadal. Bakvöðvi lambsins var 40 mm, sem var sá þykkasti sem mældur var hér í haust, ásamt lambi frá Kristnesi. Þyngd 56 kg. fita 3,5 lögun 5, leggur 114 og stig: 8-9-9-10-9-18,5-8-8-9 = 88,5.
Þriðji var hrútur nr. 106 á Hríshóli í eigu Ingva Guðmundssonar og var hann einnig með 88,5 stig. Hrúturinn er undan Ragga 18-774 Guttasyni frá Þóroddsstöðum og Þoku 13-030 sem er undan Grámanni frá Bergsstöðum. Þyngd 50 kg, vöðvi 38, fita 2,5 lögun 5, leggur 110. Stig hans eru 8-8,5-9,5-10-9-18,5-8-8-9=88,5.
Átta aðrir hrútar voru með 88,5 stig en raðast neðar samkvæmt viðmiðunarreglum RML.