Hvað ungur nemur, gamall temur, í forvörnum er þetta stundum öfugt
Höfundur: Hjörtur L. Jónsson
Í þessum pistlum sem hafa verið hér í blaðinu á sjöunda ár hefur víða verið komið við. Við öflun á efni til að fræða svo að gagn og árangur náist í forvörnum, heilsu og ásýnd hefur víða verið leitað að efni. Mest hefur verið notast við að „gúggla“ efni, en í einstaka tilfellum hefur mér verið sent efni til að vinna út frá og ómetanlegar eru þær ábendingar sem ég hef fengið frá ýmsum góðum mönnum.
Persónulega hefði ég viljað fá fleiri ábendingar frá tryggingarfélögum um það sem betur mætti fara að þeirra mati, en tryggingarfélögin ættu að geta séð óeðlilegt munstur óhappa og slysa á undan mörgum öðrum.
Umhverfismál og ásýnd of aftarlega í hugsun Íslendinga
Drasl og sóðaskapur er mjög misjafnt túlkað af mörgum, en það sem sumum finnst ryðgað drasl er jafnvel gersemi í augum annarra, samanber gömul vinnutæki, bílar og gamlar rústir bæja og útihúsa svo eitthvað sé nefnt. Vissulega finnst mér gaman að skoða gamla bílakirkjugarða og gamlar hleðslur húsa og fleira.
Það eru örugglega flestir sem taka undir það að þegar af gömlum hleðslum stafar hrunhætta og bílakirkjugarðurinn er hættulegur fyrir þá sem þangað koma er full þörf á að að taka til hendinni og gera svæðin hættulaus. Það er og verður alltaf álitamál hvað er drasl og verðmæti, en stundum verður að fórna verðmætum fyrir öryggi og betri ásýnd. Hins vegar er alltaf hægt að tína rusl og taka til drasl sem virðist vera alls staðar og er alltaf að verða meira og meira vandamál.
Heilsa og heilsufar er eitthvað sem hver og einn getur stjórnað sjálfur
Nú stendur yfir sá mánuður sem kallast Mottumars, sem er hvatning til okkar strákanna að láta kíkja á neðrihlutann á okkur. Eitthvað sem margsinnis hefur sannað ágæti sitt og bjargað mörgum karlinum frá ótímabærum veikindum og jafnvel dauða. Hjá mörgum er þetta mikið feimnismál, en við erum ekkert öðruvísi en bíll sem er orðinn gamall og fer í skoðun, það er oftar en ekki eitthvað að gamla bílnum sem kemur í ljós við skoðun. Þetta er eins með okkur sem viljum kalla okkur stráka, en erum byrjaðir að lýjast og verkur hér og þar. Það er hins vegar töluvert í að við náum stelpunum í að hugsa um heilsuna því almennt hugsar kvenfólk mun betur um heilsuna og fara þær mun oftar til lækna en við strákarnir sem virðumst alltaf vera í sömu keppninni að vera sem óþekkastir.
Öryggismál varðar alla og ólíkar eru aðferðir forvarnanna
Kennsluaðferðir eru svo misjafnar erlendis að bara það eitt gæti verið vert að rannsaka, en í amerískri greinargerð sem ég las fyrir nokkru var lögð áhersla á að láta börn á aldrinum 6–10 ára fræða fullorðna fólkið og yngri systkini sín, verulega áhugaverð lesning sem náði til mín. Farið var í skóla og kenndar ýmsar forvarnir í þessum aldurshópi með það í huga að þau beri boðskapinn heim í foreldrahús og jafnvel til afa og ömmu. Þetta átti upptök sín á þeim árum sem öryggisbelti voru að koma fyrst í bíla og börnum var kennt að ef þau myndu ekki spenna öryggisbeltin gætu þau dáið. Þessi boðskapur komst til skila í bíltúr með pabba, mömmu, afa eða ömmu. Foreldrarnir, afi og amma létu undan og spenntu beltið og fljótlega voru allir keyrandi með öryggisbeltið. Annað dæmi um góðan árangur var að kenna yngri systkinunum hvað eigi að varast og í þessari greinargerð var sérstaklega nefndur góður árangur eldri systkina í að kenna litla bróður eða systur að aldrei má nálgast bíla eða dráttarvélar nema að hlið og aldrei framan frá eða aftan frá vegna þess að þau séu svo lítil að erfitt sé að sjá þau.
Grátlega lítið fjármagn sett í forvarnir á Íslandi
Samkvæmt samantektum ýmissa stofnana erlendis er það talið að hver króna sem sett er í forvarnir sé arðvænlegasta fjárfesting sem hægt er að fjárfesta í fyrir samfélög. Niðurstaðan er að króna geti allt að 30 sinnum margfaldað sig í forvörnum, en algengast sé að verðmatið sé 10- til 20-földun á hverja krónu.
Eitthvert aðgengilegasta efni um forvarnir og fjármagn til forvarna, niðurstöður og niðurskurð til forvarna er hægt að nálgast hjá frændum okkar á Írlandi. Þar hefur verið góðæri og slæm ár í slysum, en nú virðist eins og að Írar séu búnir að sanna ágæti forvarna með góðum árangri síðustu tvö ár eftir niðursveiflu vegna fjársveltis í fjögur ár þar á undan.
Hér á Íslandi finnst mér almennt forvarnir vera ósýnilegar nema þá einna helst fræðsla frá Samgöngustofu sem beinist mest að bílaumferð. Hins vegar er sá árangur sem Slysavarnaskóli sjómanna hefur náð, sem allir Íslendingar ættu að vera stoltir af.
Sveitarfélög og menntamálaráðuneyti ættu að taka sig saman og nýta skólana betur til að koma forvarnarfræðslu heim með börnunum úr hverjum skóla samanber að láta börnin fá heimaverkefni sem væri brunaæfing og rýming vegna elds heima hjá sér.