Fjárfestingar útlendinga
Erlend fjárfesting í íslenskum sjávarútvegi er lítil enda eru settar þröngar skorður við því hversu stóran hlut útlendingar megi eiga í sjávarútvegsfyrirtækjum hér á landi. Öðru máli gegnir um fiskeldið þar sem engar slíkar hömlur eru í gildi.
Fyrir nokkrum vikum var frá því greint að sjávarútvegsfyrirtæki í Alaska hefði keypt í tveimur fyrirtækjum á Suðurnesjum, annars vegar 25% hlut í fiskvinnslufyrirtækinu AG Seafood og hins vegar 60% í markaðsfyrirtækinu IceMar. Þetta er í sjálfu sér ekki nýlunda því öðru hverju á síðustu árum og áratugum hafa verið sagðar fréttir af því að útlendingar hafi keypt sig inn í útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki á Íslandi, einkum fyrirtæki af minni gerðinni, í þeim tilgangi að styrkja viðskiptatengslin við viðkomandi fyrirtæki og tryggja sér aðgang að framleiðsluvörum þess og í sumum tilvikum hráefni til vinnslu erlendis. Allt er þetta löglegt innan vissra marka. Í einstaka tilfellum hefur komist á kreik órökstuddur orðrómur um að Íslendingar hafi leppað hærri eignarhlut útlendinga en leyfilegt er en ekkert hefur verið sannað í því efni enda skýrt brot á lögum.
25% reglan
Allt frá dögum landhelgisstríðanna hafa Íslendingar verið á varðbergi gagnvart því að útlendingar kæmust með klærnar í fiskveiðiauðlind þeirra á ný með verulegu eignarhaldi á sjávarútvegsfyrirtækjunum. Því eru í gildi lög sem banna að erlendir aðilar eigi meira en 25% í íslenskum fyrirtækjum sem stunda veiðar eða vinnslu sjávarafurða hér á landi. Með vinnslu sjávarafurða er átt við frystingu, söltun, herslu og hverja aðra þá verkun sem ver fisk og aðrar sjávarafurðir skemmdum, þar með talin bræðsla og mjölvinnsla, en undanskilin er reyking, súrsun, niðursuða, niðurlagning, umpökkun afurða í neytendaumbúðir og fleira.
Kínverjarnir og Stormur Seafood
En hvað með það ef erlendur aðili á 25% í íslensku sjávarútvegsfyrirtæki og á jafnframt eignarhlut í öðru félagi eða félögum sem eiga í þessu tiltekna fyrirtæki? Á þetta reyndi árið 2010 þegar nefnd um erlenda fjárfestingu úrskurðaði í máli fyrirtækisins Storms Seafood. Eignarhaldsfyrirtækin sem áttu Storm Seafood voru Austmenn og Skiphóll. Íslendingur var meirihlutaeigandi en kínverska fyrirtækið Nautilus Fisheries Ltd. átti 25% í báðum eignarhaldsfélögunum og uppsöfnuð eign Kínverjanna var 44%. Í frétt ríkisútvarpsins frá þessum tíma kemur fram að Jón Bjarnason, þáverandi sjávarútvegsráðherra, hafi lýst sig mótfallinn erlendu eignarhaldi í sjávarútvegi og hafi farið fram á að nefndin um erlenda fjárfestingu skoðaði hvort farið hefði verið á svig við lög í þessu tilfelli. Niðurstaða nefndarinnar var sú að lög hefðu ekki verið brotin. Hún úrskurðaði að í raun heimiluðu lögin að beint og óbeint eignarhald í íslenskum sjávarútvegi mætti vera allt að 49%.
Enginn með yfir 1% í útgerð
En hversu umfangsmikil er erlend eignaraðild að íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum? Ekki er til samantekt um það á einum stað en í svari þáverandi ráðherra við fyrirspurn Ólafs Ísleifssonar á Alþingi veturinn 2019-2020 kom fram, að í tilefni fyrirspurnarinnar hefðu verið skoðaðir ársreikningar þeirra lögaðila sem fengið hefðu úthlutað aflamarki í upphafi fiskveiðiársins 2019/2020. Miðað var við þá aðila sem fengu úthlutað 50 þorskígildistonnum eða meira. Samkvæmt þeim upplýsingum var enginn erlendur aðili skráður eigandi að yfir 1% hlut í slíku félagi (m.v. ársreikninga 2018).
Lítill áhugi útlendinga
Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum, segir í samtali við Bændablaðið að almennt sé áhugi útlendinga á því að kaupa sig inn í íslensk sjávarútvegsfyrirtæki ekki mikill. „Ég get þó ekki neitað því að þess eru dæmi að erlendir viðskiptavinir okkar hafa sýnt því áhuga að kaupa nokkurra prósenta eignarhlut í Vinnslustöðinni til þess að styrkja tengslin en ég hef alltaf sagt nei. Það myndi almennt ekki vera vel séð. Hins vegar eru frjáls viðskipti með hlutabréf í fyrirtækjum eins og Vinnslustöðinni og því gæti einn hluthafi tekið sig til og selt sín bréf til útlendinga, ef honum sýndist svo,“ sagði Sigurgeir Brynjar. Hann bætti því við að líklegasta skýringin á litlum áhuga erlendra fjárfesta á íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum væri sú áhætta sem alltaf vofði yfir vegna hugsanlegra breytinga á fiskveiðistjórnunarkerfinu.
Sigurgeir Brynjar telur núverandi reglur um eignarhald útlendinga í sjávarútvegi vera eðlilegar og skynsamlegar og ekki sé ástæða til að rýmka þær. „Þótt ég sé mikill talsmaður frjálsra viðskipta hef ég ekki mikinn áhuga á því að útlendingar stjórni landinu. Það reyndist okkur ekki vel á sínum tíma.“
Íslenskir firðir auðlind
Á sama tíma og íslenskur sjávarútvegur er varinn að ákveðnu marki gagnvart erlendum fjárfestum eru engar slíkar hömlur settar á fjárfestingar í fiskeldi. Norðmenn hafa á fáum árum orðið meirihlutaeigendur í stærstu fiskeldisfyrirtækjunum hérlendis og fjárfest svo milljörðum skiptir. Harðar umræður hafa spunnist um réttmæti þessa fyrirkomulags. Valdimar Ingi Gunnarsson sjávarútvegsfræðingur, sem unnið hefur við ýmis mál tengd fiskeldi í rúma þrjá áratugi, hefur verið þar framarlega í flokki með greinaskrifum í blöð. Hann lítur á skjólgóða firði sem notaðir eru til sjókvíaeldis sem auðlind rétt eins og önnur gæði sjávarins. Þessi auðlind hafi verið færð erlendum auðmönnum á silfurfati fyrir milligöngu íslenskra athafnamanna og stjórnmálamanna sem sniðið hafi leikreglurnar að þeirra þörfum.
„Það er dálítið skrýtið að heyra vægðarlausa gagnrýni stjórnmálamanna á kvótakerfið, en þar eru útgerðaraðilar að greiða umtalsverðar fjárhæðir fyrir aflaheimildir. Á sama tíma er erlendum aðilum færð auðlindin íslenskir firðir án þess að greiða sérstaklega fyrir það,“ skrifar Valdimar.
Íslenskir fjárfestar höfðu ekki áhuga
Bændablaðið innti Jens Garðar Helgason, framkvæmdastjóra fiskeldisfyrirtækisins Laxa hf., álits á þessum rökum.
„Þetta er alveg tvennt ólíkt. Sjávarútvegurinn er að nýta takmarkaða auðlind en fiskeldið ekki, nema að því leyti að við nýtum svæði sem einhver annar nýtir ekki á meðan. Við mætum með okkar eldisdýr á staðinn og getum farið með þau aftur. Leyfin okkar eru til leigu til 16 ára. Þá má ekki gleyma því að við stofnun þeirra fiskeldisfyrirtækja sem eru í rekstri í dag var þráfaldlega reynt að fá íslenskt fjármagn inn í atvinnugreinina en þegar það gekk ekki og menn höfðu ekki áhuga var leitað til Noregs þar sem þekking og reynsla af fiskeldi var þar að auki fyrir hendi,“ segir Jens Garðar.
Gagnrýnt hefur verið að Norðmenn hafi fengið fiskeldisleyfi á Íslandi nánast ókeypis meðan slík leyfi séu seld dýrum dómum í Noregi. Jens Garðar bendir á að Norðmenn framleiði 1,3 milljónir tonna af laxi á ári en ekki hafi verið farið að bjóða upp leyfi þar í landi fyrr en framleiðslan var orðin 500-600 þúsund tonn. Þá mætti nefna að búið væri að ákveða að ákveðin svæði við Ísland myndu fara á uppboð og þau yrðu væntanlega ekki boðin upp til varanlegrar eignar eins og í Noregi.
Arðurinn fluttur úr landi
Andstæðingar núverandi fyrirkomulags hafa bent á að með því að meirihlutaeigendur séu erlendir séu allar líkur á að arðurinn af fiskeldinu verði fluttur úr landi í stað þess að vera fjárfestur í öðrum atvinnugreinum hérlendis. Jens Garðar svarar því til að í fyrsta lagi séu fyrirtækin ekki í 100% eigu útlendinga og í öðru lagi séu þau í miklum uppbyggingarfasa og ekki farin að greiða út mikinn arð enn þá. Þetta séu íslensk fyrirtæki, starfsmennirnir greiði sína skatta hér og ef hagnaður verði af starfseminni verði hann skattlagður hér.
Valdimar Ingi Gunnarsson minnir á að þegar fiskveiðistjórnunarlögin voru innleidd árið 1984 hafi ríkt almenn sátt um dreifða eignaraðild og ekkert fyrirtæki gæti átt meira en 12% aflaheimildanna. Ef laxeldisfyrirtækin fjögur á Vestfjörðum og Austfjörðum yrðu sameinuð væri að hans sögn komið eitt fyrirtæki í meirihlutaeigu útlendinga sem væri að veltu til þrisvar sinnum stærra en Brim hf., kvótahæsta fyrirtækið á Íslandi.