Litið yfir farinn veg
Afmælismálþing Brothættra byggða var haldið á Raufarhöfn á dögunum í tilefni þess að nú er rúmur áratugur liðinn frá því að verkefnið hóf þar göngu sína. Undanfari þess var að byggð Raufarhafnar stóð afar höllum fæti og talið var að að öllu óbreyttu legðist hún af innan fárra ára.
Brothættar byggðir er byggðaþróunarverkefni Byggðastofnunar sem hófst árið 2012 með það að markmiði að efla framtíðarmöguleika byggða sem meðal annars glíma við mikla fólksfækkun og skekkta aldursdreifingu. Tekið er til skoðana íbúa á framtíðarmöguleikum heima- byggðar sinnar og úrlausnir fengnar fram í samvinnu við viðkomandi sveitarfélag, landshlutasamtök, ríkisvaldið auk annarra. Settar eru verkefnisstjórnir fyrir hvert byggðarlag þar sem sitja fulltrúar Byggðastofnunar, fulltrúar sveitarfélagsins, landshlutasamtaka og loks tveir fulltrúar íbúa.
Hugmyndin var frá upphafi sú að með verkefninu á Raufarhöfn yrði til aðferð eða verklag sem hægt væri að nota á fleiri stöðum sem stæðu frammi fyrir svipuðum vanda.
Nauðsyn verkefnastjóra
Á afmælismálþinginu tóku þau til máls Helga Harðardóttir og Kristján Þ. Halldórsson hjá Byggðastofnun, en þau leiða verkefnið.
Kristján segir aðdragandann að því hafa kviknað í kjölfar íbúaþings Raufarhafnarbúa árið 2013, sem hefur verið haldið árlega síðan. Á þinginu vöknuðu margs konar hugmyndir um hvað fólk taldi að betur mætti fara eða hvað mætti taka sér fyrir hendur og var mikið rætt og forgangsraðað. „Ég var svo fenginn til þess að sinna þessu, en eitt af forgangsmálum Raufarhafnar var að fá verkefnisstjóra. Slíkt embætti er afar brýnt, vegna þess hve miklu máli skiptir að einhver einn sé ábyrgur fyrir að leiða og halda utan um þau mál sem eru í loftinu. Með minni viðveru á Raufarhöfn gátu íbúarnir þess vegna haldið áfram að koma með á borðið hitamál og ræða möguleika á úrlausn þeirra.“
Aðspurður segir hann að þreifað hafi verið á flestum hugmyndum sem bárust, með vinnslu í huga, en þó standi eitt verkefni Raufarhafnar sérstaklega upp úr. Var það ósk íbúa um að fá aðgang að aflaheimildum. „Staðurinn hafði nánast hrunið fyrir þær sakir að íbúar misstu aflaheimildir og tvo stærstu vinnustaðina á einu bretti,“ segir Kristján.
Á vefsíðu Byggðastofnunar kemur fram að þann 11. desember 2013, á grundvelli þessa verkefnis,
hafi samkomulag verið undirritað milli Byggðastofnunar og hagsmunaaðila í sjávarútvegi um nýtingu 400 þorskígildistonna á Raufarhöfn til 3 ára, með möguleika á framlengingu. Aðilar að samkomulaginu voru m.a. fiskvinnsla GPG Seafood á Raufarhöfn, en segir Kristján þorskígildistonnin hafa nýst mjög vel og tryggt þar tiltekna starfsemi hjá fiskvinnslu GPG sem hefur verið burðarás í atvinnulífinu síðan.
„Með samkomulaginu náðist að festa í sessi þennan vinnustað sem stóð höllum fæti fyrir og skiptir íbúana gríðarlega miklu máli. Fyrirtækið er öflugt og hefur m.a. starfsemi á Húsavík og Bakkafirði í gegnum aflamarkssamning þar.“
Umgjörð verkefna
Í dag hafa verkefnastyrkir á vegum Brothættra byggða til þróunarverkefna og annarra samfélagseflandi verkefna verið veittir í alls fjórtán byggðalög.
Helga Harðardóttir, sem hefur starfað innan verkefnisins síðastliðin þrjú ár, nýtur þess að koma inn í fastmótað ferli, en árið 2014 fór fram bæði innra og ytra mat á verkefninu sem Ernst & Young gerði fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.Verkefnislýsing og viðaukar hennar birtust á heimasíðu Byggðastofnunar vorið 2016 og var jafnframt kynnt á fundi með starfsfólki ráðuneytisins og fulltrúum stýrihóps Stjórnarráðsins.
„Þar er litið til allrar umgjarðar verkefnisins, og unnið innan hennar. Þó teljum við okkur auðvitað sveigjanleg og opin fyrir hugmyndum – en vinnum á þeim grunni sem verkefnislýsingin býður. Jafnframt er rétt að geta þess að ferli hvers verkefnis fyrir sig hefst í raun áður en íbúaþing eru haldin í byggðalögum. Greiningarvinna, mótun verkefnastjórnar og þess háttar er unnið áður og almenn þátttaka íbúa því ekki fyrr en nokkur grunnvinna hefur verið unnin. Ræða þarf við sveitarfélag og byggðarlag sem er að koma inn, auglýsa eftir verkefnastjóra og þess háttar.“
Hún bætir við að sannreynt sé að þar sem íbúarnir taki virkan þátt gangi verkefnin vel og enn sem komið er hafi íbúar í hvívetna komið inn af fullum krafti.
Samtakamátturinn sterkur
Kristján tekur undir orð Helgu, mikill áhugi og virk þátttaka sé samnefnari á landsvísu. Væntingar þurfi þó að vera í hófi er kemur að framgangi verkefna, enda margt sem ræður yfir helstu breytum í hverju byggðarlagi.
„Verkefni Brothættra byggða hefur til að mynda hvorki boðvald yfir stofnunum ríkisins né yfir sveitarfélögunum, heldur hvílir árangurinn á víðtæku samstarfi. Aðkoma landshlutasamtaka og sveitarfélaga er mjög mikilvæg, þá m.a. með setu í verkefnastjórn, en að auki hafa landshlutasamtökin tekið að sér það stóra hlutverk að ráða verkefnastjórana til viðbótar við að annast umsýslu með styrkjamálum og slíku. Þannig að það samstarf er mjög veigamikið í verkefnunum,“ segir Kristján.
„Auðvitað er jákvætt ef umsækjendur hafa taugar eða tengsl til byggðarlagsins sem um ræðir, en annars er allur gangur á því. Að jafnaði er það þó áherslumál að þarna sé einhver sem tengist svæðinu,“ segir Helga.
Þau sammælast um að sterkur samtakamáttur sé einkennandi fyrir þau byggðalög sem taka þátt, allir séu mikilvægir og beri margir fleiri hatta en einn. Gleðilegt sé hve vel var mætt á málþingið, en rúmlega 80 manns sátu viðburðinn auk þess sem töluverður fjöldi horfði á streymi. „Áhugi fólks á málþinginu var mikill, hópurinn fjölbreyttur og mættu fulltrúar alls kyns stofnana og samtaka auk einstaklinga. Við vorum mjög sátt með áhugann og það hvetur okkur enn frekar til að sinna og taka þátt í þessu verkefni,“ segir Kristján en streymi málþingsins má enn finna á heimasíðu Byggðastofnunar.
Verkefnið Brothættar byggðir hefur verið fest í sessi sem aðgerð í stefnumótandi byggðaáætlun 2018- 2024, en stjórnvöld hafa tekið þessari aðferðafræði Byggðastofnunar af áhuga og jákvæðni.