Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Reitur 35 árin 1986 og 2018, land í 260 m h.y.s., í vestanverðri Skaftafellsheiði. Er reiturinn var settur niður og mældur 1980 var melur og grjót áberandi í yfirborði innan um mólendisbletti, 46 tegundir voru þá skráðar í reitnum, birki þar á meðal. Árið 2018 var landið orðið algróið og ungbirki áberandi, aðrar ríkjandi tegundir æðplantna voru bláberjalyng, krækilyng og sortulyng, 47 tegundir voru þá skráðar í reitnum. Reiturinn flokkaðist með aura- og víðimelareitum 1980 en mólendis- og kjarrskógarreitum 2018.
Reitur 35 árin 1986 og 2018, land í 260 m h.y.s., í vestanverðri Skaftafellsheiði. Er reiturinn var settur niður og mældur 1980 var melur og grjót áberandi í yfirborði innan um mólendisbletti, 46 tegundir voru þá skráðar í reitnum, birki þar á meðal. Árið 2018 var landið orðið algróið og ungbirki áberandi, aðrar ríkjandi tegundir æðplantna voru bláberjalyng, krækilyng og sortulyng, 47 tegundir voru þá skráðar í reitnum. Reiturinn flokkaðist með aura- og víðimelareitum 1980 en mólendis- og kjarrskógarreitum 2018.
Mynd / Kristbjörn Egilsson og Rannveig Thoroddsen
Í deiglunni 20. nóvember 2023

Miklar gróðurbreytingar í Skaftafelli

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Rannsóknir á gróðurframvindu yfir rúmlega fjörutíu ára tímabil í Skaftafelli í Öræfum sýna m.a. að birki hafði aukist mikið og sömuleiðis þekja bláberjalyngs og krækilyngs. Tegundum fækkaði á landi undir 300 m h.y.s. en vísbendingar voru um að þeim fjölgaði í 450-650 m h.y.s.

Í Skaftafelli í Öræfum hafa frá árinu 1979 staðið yfir rannsóknir á framvindu gróðurs. Þá var hafist handa við að setja þar niður fasta reiti og lauk því 1981. Reitirnir voru 53 að tölu, í 100 til 650 m h.y.s., framan við Skaftafellsjökul, í Skaftafellsheiði og Morsárdal, á ungum áraurum og jökulruðningi, hálfgrónum melum, í mólendi, birkikjarrlendi og deiglendi.

Markmið rannsóknanna var að efla þekkingu á gróðri í Skaftafelli og að fylgjast með breytingum í kjölfar þess að þar dró úr sauðfjárbeit eftir stofnun þjóðgarðs 1967 og að land var girt 1978.

Náttúrufræðistofnun Íslands gaf í samvinnu við Vatnajökulsþjóðgarðs út skýrsluna Gróðurbreytingar í Skaftafelli í kjölfar friðunar og hlýnandi veðurfars í fyrra. Höfundar hennar eru Borgþór Magnússon, Sigurður H. Magnússon, Kristbjörn Egilsson, Rannveig Thoroddsen, Járngerður Grétarsdóttir, Ingibjörg Eyþórsdóttir og Eyþór Einarsson heitinn.

Sigurður H. Magnússon.

Gróður breyst verulega

„Miðað við rannsóknir á gróðurframvindu síðustu ára á landinu er fremur fátt sem kom okkur verulega á óvart í Skaftafelli,“ segir Sigurður H. Magnússon, fv. sérfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, aðspurður um markverðustu niðurstöður skýrslunnar.

„Við bjuggumst t.d. við að gróður myndi almennt aukast við friðun og hlýnandi loftslag, einkum birkið. Einna áhugaverðast þótti okkur hins vegar hve gróður hafði sums staðar breyst mikið. Einkum átti það við um suma lúpínureitina í Morsárdal. Þar hafði sums staðar vaxið upp öflugur birkiskógur sem líktist orðið gamla birkiskóginum í Bæjarstað.“ Sigurður tekur fram að þarna hafði birki numið land áður en lúpínan kom til skjalanna.

„Þarna bætti lúpínan vaxtar­skilyrði birkisins verulega sem óx mjög vel eftir að hún nam þar land. Hefði birkið ekki verið til staðar er líklegt að landnám birkis hefði orðið mun minna því fræplöntur birkis eiga mjög erfitt með að komast á legg í þéttum gróðri.“

Tegundasamkeppni eykst við friðun

Áhugavert þótti einnig að vísbendingar voru um að tegundum fækkaði á landi undir 300 m hæð yfir sjó en fjölgaði í þeim reitum sem hæst lágu (450–650 m). Sigurður segir það líklega stafa af því að við friðun aukist gróður sem valdi því og samkeppni tegunda aukist sem leiði til þess að smávaxnar tegundir hverfi fyrir þeim sem öflugri séu. „Land sem hærra liggur er yfirleitt verr gróið. Þar eykst gróður líka við friðun og hlýnandi loftslag en samt mun hægar. Því er eðlilegt að tegundum fjölgi þegar til skamms tíma er litið,“ segir hann.

Enn fremur þótti áhugavert, og kom talsvert á óvart að sögn Sigurðar, hve þekja krækilyngs og þó einkum bláberjalyngs jókst mikið á rannsóknartímanum, einkum í ljósi þess að þessar tegundir eru yfirleitt ekki mikið bitnar af sauðfé. „Við töldum það stafa af mikilli vetrarbeit á fyrri tíð sem hafi haldið þeim niðri en þessar lyngtegundir eru klónplöntur sem geta lifað lengi við erfiðar aðstæður en geta síðan vaxið út þegar skilyrði batna.“

Hefur forspárgildi

Þá vaknar spurning um hvaða þýðingu niðurstöðurnar hafi m.t.t. gróðurfars í landinu og hvort þær gefi vísbendingu um mögulega framvindu á fleiri svæðum.

„Ég held að niðurstöðurnar hafi allmikla þýðingu og forspárgildi um hvað gerist þegar land er friðað eða dregur verulega úr beit þar sem svipaðar aðstæður ráða,“ segir Sigurður og heldur áfram: „Það á einkum við um land sunnan Vatnajökuls en einnig svæði með tiltölulega hlýju loftslagi og ríkulegri úrkomu. Það má t.d. ætla að mjög svipaðar aðstæður séu í Þórsmörk og víðar á Suður­ og Suðvesturlandi og á suðurfjörðum Austurlands.

Það er þó ljóst að það sem við höfum nú séð í Skaftafelli er aðeins byrjunin á löngu ferli. Hvert það leiðir fer mikið eftir hvort það hlýnar meira og hver landnýting verður. Þar ræður einnig miklu hvort lúpínan fær tóm til að nema ný lönd en hún er eins og kunnugt er alger vistkerfisbreytir (e. ecosystem transformer),“ segir Sigurður jafnframt.

Baráttan við lúpínuna ekki töpuð

Svo sem flestum mun kunnugt eru afar skiptar skoðanir um lúpínuna. Hún breytir gróður­ og jarðvegsskilyrðum verulega og hefur þannig mótandi áhrif á framvindu. Sigurður segir lúpínuna áreiðanlega til góðs fyrir sumar lífverur en aðrar ekki. Ef menn ætli að nota lúpínu sé meginatriði að gera sér grein fyrir við hverju megi búast þegar til lengri tíma er litið. Hún á að hans mati a.m.k. ekki neitt erindi í þjóðgarða frekar en aðrar ágengar framandi tegundir.

Um það hvort baráttan við lúpínu í Skaftafelli sé töpuð segir Sigurður að hann telji hana ekki með öllu tapaða. „Henni verður þó varla eytt þar sem hún er nú og hún á vafalaust eftir að nema ný lönd. Hins vegar ætti að vera unnt að koma í veg fyrir að hún breiðist út um Skaftafellsheiðina og fjalllendið ofan hennar. Það er hins vegar algerlega komið undir vilja þeirra sem fara með stjórn þjóðgarðsins, stefnu þeirra og fjármagni.

Hvað varðar aðrar ágengar tegundir er að mínu mati mikilvægt að nýta þá reynslu sem fengist hefur af lúpínunni og fara aldrei með slíkar tegundir inn á svæði þar sem þeirra er ekki óskað.“

Skýrsluna er að finna á vef Náttúrufræðistofnunar.

Skylt efni: Skaftafell

Jarðvegsauðlind Íslands
Fréttaskýring 11. desember 2024

Jarðvegsauðlind Íslands

Jarðvegur er ein mikilvægasta náttúruauðlind jarðar sem trauðla er hægt að endur...

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...