Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Íslenskir sauðfjárbændur með lífræna vottun eru uggandi um hertar kröfur
Mynd / smh
Fréttir 14. mars 2017

Íslenskir sauðfjárbændur með lífræna vottun eru uggandi um hertar kröfur

Höfundur: smh
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra tilkynnti um það í janúar síðastliðnum að íslensk stjórnvöld myndu hverfa frá aðlögunarkröfum vegna upptöku gildandi reglna ESB um lífræna ræktun. Það þýðir að sömu reglur munu því gilda á Íslandi og í Evrópusambandinu um framleiðslu, vottun og merkingu lífrænnar framleiðslu. Íslenskir sauðfjárbændur í lífrænum búskap eru uggandi um framtíð sína í ljósi þessara tíðinda, en þeir eru átta talsins í dag. Samræmingin við evrópsku reglurnar mun fyrst og fremst herða kröfurnar gagnvart þeim.
 
Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að upptaka reglnanna muni auðvelda útflutning lífrænnar íslenskrar framleiðslu til Evrópuríkja, auk þess sem íslenskir neytendur muni njóta góðs af skilvirkara eftirliti. Þær undanþágur sem nú munu víkja snúa að merkingum, notkun á fiskimjöli við fóðrun jórturdýra, þéttleika í bleikjueldi, notkun grindargólfa í fjárhúsum og rými á hverja vetrarfóðraða kind.
 
Ekki viss um að við lifum breytingarnar af
 
Halla Steinólfsdóttir stundar lífrænan sauðfjárbúskap í Ytri-Fagradal á Skarðsströnd og hún er jafnframt stjórnarmaður í VOR, sem er félag framleiðenda í lífrænum búskap. „Ég hef verið að ræða þetta við félaga mína sem líst alls kostar illa á þessi áform. Ef það á að fara að taka hart á þessum skilyrðum sem snúa að fjárbúskapnum – varðandi grindargólfin og rýmisþörfina – þá er ég ekki viss um að við lifum það af í lífrænum búskap. Það myndi hreinlega vera of kostnaðarsamt að fara út í svo miklar breytingar. 
 
Við byggðum stórt hús árið 2005 með grindargólfi til þess að hagkvæmara sé að hirða búfjáráburðinn.
Lömbin fæðast þar en eru mestan sinn líftíma frjáls um fjöll og dali og koma inn að hausti til að fara á sláturbíl. 
 
Aðgengi að hálmi til undirburðar hér á landi er ekki sambærilegt því sem er í Evrópu,“ segir Halla.  
 
Ekki tekið tillit til sérstakra aðstæðna
 
Ólafur Dýrmundsson.
Dr. Ólafur R. Dýrmundsson, fulltrúi Íslands í Evrópusambandshópi lífrænna landbúnaðarhreyfinga og fyrrverandi ráðunautur í lífrænum búskap, segir að ákvörðun ráðherra sé ekki fagnaðarefni fyrir bændur í lífrænum búskap en hann hafði unnið að þessum undanþágubeiðnum í meira en áratug. „Þvert á móti getur þetta orðið til þess að lífrænt vottuð saufjárrækt leggist niður hér á landi. Ekki verður tekið tillit til sérstakra aðstæðna hér norðurfrá og svo standast rök ekki fyrir hertum kröfum. Það eru til dæmis engin vísindaleg rök fyrir því að banna fiskimjöl í fóðri jórturdýra.
 
Rýmiskrafan í fjárhúsum verður líka sérkennileg í því ljósi að með henni eru gerðar kröfur um meira en tvöfalt það rými sem gildir í aðbúnaðarreglugerð fyrir hefðbundin fjárbú. Þarna er auðvitað verið að miða við evrópsk kyn – sem eru flest stórvaxnari og þyngri,“ segir Ólafur.
 

Útflutningshagsmunir liggja á bak við ákvörðunina

– þörungaafurðir stærstur hluti útflutnings lífrænna afurða
 
Til að leita raka fyrir þessari ákvörðun var fyrirspurn send til Guðmundar Kristjáns Jónssonar, aðstoðarmanns Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Í ljós kemur að svigrúm bænda, sem nú stunda lífrænt vottaðan búskap, er lítið til að bregðast við hertum kröfum.
 
 „Það er ekki um mikinn aðlögunartíma að ræða. Gerðirnar eru teknar upp í samninginn 17. mars og taka strax gildi gagnvart Íslandi. Eftirlitsstofnun EFTA hefur þá hlutverk að fylgjast með því að við innleiðum gerðirnar. Við stefnum að því að gildistaka reglnanna verði við lok maímánaðar en það er ekki hægt að bíða lengur en það,“ segir í svari Guðmundar.
 
Fordæmi Noregs fylgt
 
 „Það hefur verið unnið að upptöku reglna ESB um lífræna ræktun um árabil. Ísland og Noregur óskuðu í upphafi eftir ákveðnum aðlögunum, bæði tæknilegum og efnislegum. Fjölmargir fundir hafa farið fram til að koma málstað Íslands á framfæri. Noregur féll frá aðlögunarkröfum í fyrra þegar hætt var að viðurkenna lífræna vottun á norskum eldislaxi í Evrópu. Ástæða þess að vottunin var ekki viðurkennd var að Noregur beitti eldri reglum ESB um þetta efni. Ríkisstjórn Noregs gerði tilraunir til að fá að fá vottun viðurkennda en þær skiluðu ekki árangri.  Þá sagði framkvæmdastjórn ESB að aðlögunarkröfur Íslands yrðu ekki samþykktar. 
 
Ljóst var að ef Ísland héldi kröfum sínum til streitu væri hætta á að lífræn vottun á íslenskum afurðum fengjust hvort eð er ekki viðurkenndar á innri markaðnum þar sem eldri reglur væru í gildi. Það eru því útflutningshagsmunir á bak við það að samþykkja upptöku reglugerðanna í EES-samninginn. Stærstur hluti útflutnings lífrænna afurða er með þörungaafurðir sem hefur farið vaxandi. Þar að auki er mikilvægt fyrir neytendur að reglur ESB taki gildi. Íslenskar reglur um lífræna landbúnaðarframleiðslu hafa ekki verið uppfærðar í sex ár. Listar yfir ríki utan EES og framleiðendur þaðan, sem framleiða lífrænar vörur sem standast kröfur ESB, eru ekki í notkun hér. Eftirlit með innflutningi á lífrænt ræktuðum vörum mun því batna með þessum reglum,“ segir í svarinu.
 
Unnið í samráði við Bændasamtök Íslands og Vottunarstofuna Tún
 
 „Vinna síðastliðinna ára hefur verið í fullu samráði við Bændasamtök Íslands og Vottunarstofuna Tún og mat farið fram á áhrifum þess að taka upp reglurnar. Ljóst er að upptaka reglnanna mun hafa áhrif á framleiðslu hér á landi. Talið er að þetta geti haft áhrif á um 30 bændur en Bændasamtök Íslands segja að sú tala kunni að vera ofmetin.
 
Rýmiskröfur fyrir smágert íslenskt sauðfé eru vissulega einn þáttur, sem og krafa um notkun hálms eða heilgólfa í sauðfjárhúsum. Íslensk stjórnvöld fóru fram á aðlaganir vegna íslenskra aðstæðna með vísan til aðstæðna á Íslandi og stærðar íslensks sauðfjár. Framkvæmdastjórn ESB féllst ekki á þessar kröfur eins og rakið er að ofan og var talið útséð um að hún myndi gera það. Með því að neita að samþykkja upptöku reglnanna í EES-samninginn og halda kröfum til streitu töldu íslensk stjórnvöld að þau hefðu stefnt hagsmunum bænda og annarra framleiðenda í enn frekari hættu, eins og rakið er hér að ofan.
 
Það verður kostnaðarsamt fyrir bændur að uppfylla skilyrði til að fá lífræna vottun. Gera þarf breytingar á sauðfjárhúsum til að samræmast þeim kröfum sem settar eru fram í hinum nýju reglum. Bent er á að samkvæmt nýjum búvörusamningi eru auknir fjármuni ætlaðir til aðlögunar að lífrænum framleiðsluháttum,“ segir ennfremur í svarinu frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. 

 

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...