Jóhanna og Bárður undirstrikuðu yfirburði sína
Íslandsmótið í hestaíþróttum var haldið á félagssvæði hestamannafélagsins Sleipnis á Selfossi á dögunum.
Framkvæmd mótsins tókst vel en 45 ár eru frá því að Íslandsmót í hestaíþróttum var haldið fyrst. Mótið var firnasterkt og mjög jafnt á munum en oftar en einu sinni þurfti sætaröðun frá dómurum til að skera úr um fyrsta og annað sætið.
Jóhanna Margrét Snorradóttir og Bárður frá Melabergi unnu þrjá titla; í fjórgangi, tölti og samanlögðum fjórgangsgreinum, en 33 ár eru síðan að kona vann Íslandsmeistaratitil í tölti. Það var Unn Kroghen á Kraka frá Helgastöðum árið 1990. Jóhanna og Bárður voru í feiknastuði og þykir nokkuð öruggt að þau keppi fyrir Íslands hönd á heimsleikum í Hollandi í ágúst en íslenska liðið verður tilkynnt 14. júlí nk. Jóhanna hlaut FT fjöðrina fyrir sýningar sínar á Bárði, vel að heiðrinum komin, enda einkennir þetta par mikill glæsileiki og einstakt samspil knapa og hests.
Teitur Árnason nældi sér einnig í þrjá titla. Einn í 100 m skeiði á Drottningu frá Hömrum II og hinir unnust báðir eftir sætaröðun dómara en slaktaumatöltið vann hann á Nirði frá Feti og fimmganginn á Atlasi frá Hjallanesi.
Elvar Þormarsson og Fjalladís frá Fornusöndum héldu uppteknum hætti í gæðingaskeiðinu og sigruðu það með glæsibrag, 9,00 í einkunn sem er hæsta einkunn sem gefin hefur verið á Íslandi í þessari grein eftir að reglum hennar var breytt. Elvar hlaut einnig FT fjöðrina en saman hafa þau sýnt yfirburði sína í gæðingaskeiði og orðið Íslandsmeistarar þrjú ár í röð. Sýningarnar þeirra einkennast af krafti, léttleika og mýkt.
Ein af stjörnum ungmennaflokks var án efa Jón Ársæll Bergmann en hann fór fjórum Íslandsmeistaratitlum ríkari. Hann vann tölt, fjórgang og samanlagðar fjórgangsgreinar á Frá frá Sandhóli og 250 m skeiðið á Rikka frá Stóru-Gröf.
Glódís Rún Sigurðardóttir og Salka frá Efri-Brú unnu fimmgang ungmenna með 7,60 í einkunn sem er sjaldséð einkunn í þessum flokki. Glódís hlaut FT fjöðrina fyrir sýningu sína á Sölku en þær eru glæsilegt par með fallega útgeislun.
Íslandsmót barna og unglinga verður haldið á Hellu dagana 13.– 16. júlí. Verður gaman að fylgjast með krökkunum spreyta sig á keppnisvellinum en að þessu sinni verður keppt bæði í íþrótta- og gæðingakeppni á mótinu sem er nýbreytni á Íslandsmóti.