Kjötmjöl í lífrænan uppgræðsluáburð
Land og skógur annast sjötíu og sjö landgræðslusvæði sem spanna yfir 250 þúsund hektara.
Í sumar verður unnið að áburðardreifingu, sáningu og gróðursetningu á uppgræðslusvæðum Lands og skógar, auk margra annarra verkefna.
Gústav Magnús Ásbjörnsson, sviðsstjóri endurheimtar vistkerfa hjá Landi og skógi, segir mörg verkefni hafin eða vera að fara í gang, um allt land. „Svo er staðan auðvitað þannig, sérstaklega fyrir norðan, að tíðarfarið tefur fyrir aðgerðum í landgræðslu eins og öðrum verkum. Til dæmis eru girðingar stofnunarinnar á Norðurlandi nokkuð víða undir snjó enn þá og jörð mjög blaut og ekki alls staðar hægt að fara um af einhverri ábyrgð,“ segir hann.
Umsjón landgræðslusvæða
Land og skógur sér um 77 landgræðslusvæði sem allt í allt eru ríflega 250 þúsund hektara stór og flest þeirra afgirt. Girðingarnar eru hátt í 800 kílómetrar og er unnið að viðhaldi þannig að því sé lokið áður en fé er sleppt í sumarhaga.
„Land og skógur vinnur að áburðardreifingu, sáningu og gróðursetningu í þessi svæði. Alls verður tilbúinn áburður borinn á um 3.500 hektara, melgresi og túnvingli sáð í um 250 hektara og ríflega hálf milljón birkiplantna gróðursett nú í vor. Aðeins verður byrjað að dreifa lífrænum áburði í vor en því verður lokið í haust sem og gróðursetningu á birkiplöntum,“ segir Gústav. Stærsti hluti lífræna áburðarins segir hann vera kjötmjöl sem framleitt sé í
Orkugerðinni ehf. í Flóahreppi.
„Landgræðslusvæðin eru í öllum tilvikum mjög illa farið land, mjög rofið og mikil jarðvegseyðing sem hefur átt sér stað,“ heldur hann áfram. Mörg svæðanna séu á gosbeltinu. „Markmiðið með þessari vinnu er að stöðva jarðvegsrof, endurheimta jarðvegs- og gróðurauðlindina og þá vistkerfisþjónustu sem þessar auðlindir veita. Þannig er t.d. verið að endurheimta birkivistkerfi á stórum svæðum, m.a. í nágrenni Heklu, til að draga úr áhrifum eldgosa og öskufalls sem þeim getur fylgt,“ segir hann jafnframt.
Úttektir og ráðgjöf
Þátttakendur í verkefnunum Bændur græða landið og Landbótasjóði Lands og skógar eru á fullu í framkvæmdum sinna verkefna og starfsfólk stofnunarinnar sinnir ráðgjöf og úttektum í þeim verkefnum. Um er að ræða verkefni þar sem fólk er að bæta ástand lands sem það hefur í sinni umsjá og þar getur verið um að ræða einkalönd fólks, afrétti, þjóðgarða og annað það land sem er í slæmu ástandi og þarf að bæta. Gústav segir að í heildina séu þetta um 500 verkefni sem unnið sé að víðs vegar um landið og í gegnum þau unnið á ríflega 10 þúsund hekturum árlega.
Þá sinni stofnunin einnig ráðgjöf og verkstjórn við samstarfsverkefni sem snúi að landgræðslu og geti þar verið um að ræða mótvægisaðgerðir vegna framkvæmda (til dæmis við Hálslón), landgræðslu til að auka umferðaröryggi og vernda byggð (Mýrdalssandur, Víkurfjara o.fl.).
„Þessu til viðbótar er unnið að eftirliti með landnýtingu og þá að mestu leyti vegna gæðastýrðrar sauðfjárframleiðslu,“ útskýrir Gústav.
„Í mörgum landbótaáætlunum er m.a. kveðið á um samráð um upphaf beitartíma á afréttum og hefur starfsfólk Lands og skógar komið að því að meta ástand gróðurs og veitt ráðgjöf um hvenær hægt sé að opna afrétti fyrir beit,“ segir hann enn fremur.
Varnir gegn landbroti
„Á vorin er unnið að úttektum og skipulagi verkefnanna. Í vörnum gegn landbroti er ekki mikið um framkvæmdir á sumrin, þá er veiðitímabil í fullum gangi sem og að vatnsmagn í jökulám er mikið og því ekki góðar aðstæður til framkvæmda. Þær byrja hins vegar í haust þegar veiðitímabili lýkur og vatn í jökulám fer að minnka,“ segir Gústav.
Endurheimt votlendis
„Í endurheimt votlendis er þetta einnig tími úttekta og skipulags. Ekkert er framkvæmt á varptíma, auk þess sem sumarið er mjög góður tími til að afla upplýsinga um aðstæður, svo sem gróðurfar og vatnsstöðu og spá þannig fyrir um áhrif framkvæmda,“ segir Gústav.
Þó nokkur verkefni sem nú séu í undirbúningi hefjist í haust og geti þá framkvæmdir staðið á meðan snjóalög leyfi allt fram á vorið 2025 þar til varptími hefst að nýju.