Kolefnislosun eykst frá fluginu
Losun koltvísýringsígilda frá flugsamgöngum á öðrum ársfjórðungi 2021 var um 90 kílótonn samkvæmt bráðabirgðabútreikningi. Þetta er aukning um 41,7% frá fyrsta fjórðungi ársins og 54,1% hærra gildi en á öðrum ársfjórðungi 2020 en sá ársfjórðungur markast að mestu samgöngutakmörkunum í fyrstu bylgju kórónuveirufaraldursins.
Losun á öðrum ársfjórðungi 2021 var 84% minni en losun á öðrum ársfjórðungi 2018 þegar losun frá flutningum með flugi var mest, eða 595 kílótonn.
Breytt staða í flugrekstri á Íslandi hefur áhrif
Samkvæmt vef Hagstofu Íslands hafa orðið miklar breytingar í losun koltvísýrings frá flugi, ekki síst vegna fækkunar íslenskra fyrirtækja í flugrekstri og samdráttar vegna yfirstandandi faraldurs. Losun reiknast eingöngu vegna reksturs íslenskra flugfélaga en ekki vegna flugs erlendra fyrirtækja.
Flugrekstur nær yfir bæði farþega- og fraktflug en það síðarnefnda varð fyrir minni áhrifum vegna faraldursins. Losunartölur fyrir 2021 reiknast út frá innflutningi á eldsneyti til landsins og eldsneytiskaupum íslenskra fyrirtækja erlendis. Eldsneyti sem selt er til erlendra flugrekstraraðila er áætlað út frá komutölum og dregið frá heildarsölu.