Lagfærðu kláfferju frá 1898
Feðgarnir Páll Björgvin Guðmundsson og Guðmundur Magnússon frá Efra-Hvoli í Rangárþingi eystra hafa lagfært kláfferjuna á Emstrum en ástand hennar var orðið nokkuð bágborið.
Sveitarfélagið veitti styrk til kaupa á efni við lagfæringarnar en vinnuframlagið var þeirra framlag til þess að viðhalda þessari merkilegu sögu, sem er að baki kláfferjunni á Emstrum.
Merkileg heimild um elju
Sögu kláfferjunnar við Markarfljót á Emstrum má rekja allt aftur til ársins 1898 og er hún merkileg heimild um elju og dugnað bænda í Hvolhreppi við að koma ám sínum í beit á afrétt sinn á Emstrum, fjarri heimahögum.
Sennilega hefur kveikjan á þörf á kláfferjunni verið hörmulegt slys er tveir ungir menn úr Hvolhreppi létust 1879 við að ferja fé yfir Markar- fljótið inn á Emstrur. Því er saga ferjunnar stórmerkileg, ekki bara í sögulegu tilliti heldur líka út frá menningarlegu sjónarmiði.
Líklega hefur kláfferjan ekki verið notuð frá því að Markarfljótsbrúin var vígð árið 1978. Síðan þá hefur hún staðið, veðruð og skemmd, á tveimur steinum neðan Emstruskálans, rétt ofan við gömlu kláfsstrengina yfir fljótið.
Sögustiklum gerð skil
Næsta sumar verður kláfferjunni aftur komið fyrir á steininum ofan Markarfljóts og sögustiklum gerð skil á skilti við kláfferjuna.
„Munum við með einhverjum hætti koma því merkilega efni og samantekt á framfæri samhliða því að kláfferjunni verður skilað á sinn stað,“ segir Páll Björgvin stoltur af verki þeirra feðga, sem hann má svo sannarlega vera.