Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Landbúnaður í Svíþjóð í dramatísku falli í kjölfar inngöngunnar í ESB
Fréttir 13. apríl 2015

Landbúnaður í Svíþjóð í dramatísku falli í kjölfar inngöngunnar í ESB

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Ársfundur Hedemark Böndelag í Noregi var haldinn17. mars undir yfirskriftinni „Óhagkvæmur með lélega framleiðni eða heimsins besti landbúnaður.“ Aðalræðumaður var Robert Larson, yfirmaður Lantbrukarnas Riksförbund í Västra Götland og Värmland í Svíþjóð. Benti hann  stjórnmálamönnum sem þarna voru mættir, fundarhöldurum og gestum á hvernig Noregur geti lært af mistökum Svía í landbúnaði á síðustu 30 árum.

„Þegar ég tala um sænska landbúnaðarpólitík við ykkur í Noregi þá dreg ég upp þessa neikvæðu mynd, því þetta snýst um það sem þið ættuð ekki að gera,“ sagði Larson og bætti við; „Do NOT try this at home.“

Allar fullyrðingar um varanlegar undanþágur eru rangar

Ummæli Larson vekja athygli í ljósi fullyrðinga íslenskra aðildarsinna um að hægt sé að fá sérlausnir bæði í landbúnaðarmálum og sjávarútvegsmálum í aðildar­viðræðum við ESB. Þessu er enn verið að halda fram og á því byggist m.a. krafan um áframhald viðræðna Íslands við ESB. Þetta er þrátt fyrir að Stefán Füle, þáverandi stækkunarstjóri ESB, hafi sett ofan í við Össur Skarphéðinsson, þáverandi utanríkisráðherra Íslands, um slíkan skilning á viðræðunum á blaðamannafundi 13. júní 2013 um gang viðræðna. Össur taldi þá vel mögulegt að klæðskerasníða reglurnar að þörfum Íslendinga þannig að allir yrðu ánægðir. Þá sagði Stefán Füle mjög skýrt: „Það eru engar varanlegar undanþágur frá regluverkinu.“

Staða sænsks landbúnaðar í dag staðfestir, svo ekki verður um villst, ummæli Stefán Füle. Það voru veittar tímabundnar undanþágur fyrir bændur í norðurhéruðum Svíþjóðar og Finnlands. Þær eru nú sem óðast að ganga til baka. Afleiðingarnar eru skelfilegar ef marka má orð Roberts Larson á fundinum með norskum bændum á dögunum. Þetta staðfesta einnig fréttir af bændum í norðurhéruðum Svíþjóðar að undanförnu þar sem fram kemur að hundruð bænda eru nú að gefast upp og hætta búskap vegna versnandi samkeppnisstöðu í kjölfar aðildar Svía að ESB.

Mikil mistök að ganga í ESB

Larson sagði það hafa verið mikil mistök þegar Lantbrukarnas Riksförbund varð meðlimur í Evrópusambandinu við inngöngu Svíþjóðar í janúar 1995. Ástæðan er að þá hafi landbúnaðurinn verið þvingaður upp að vegg eftir að sænskir stjórnmálamenn höfðu með grófum pólitískum aðgerðum talið bændum trú um að fara út í offramleiðslu á matvælum. Margir hafi þá séð mikil tækifæri í því að framleiða heilnæman mat í hreinni sænskri náttúru til að selja inn á markað ESB-landanna.

„Við vorum mjög barnaleg. Við héldum að við gætum haldið uppi hágæða matvælaframleiðslu fyrir kröfuhörðustu og best borgandi neytendurna eftir sameiningu við ESB.“

Larson sagði að þetta hafi alls ekki orðið raunin því allar götur síðan hafi sænskur landbúnaður verið á hraðri niðurleið. Afleiðingar séu þessar:

Nærri helmingurinn af öllu rauðu kjöti sem selt er í Svíþjóð kemur nú frá útlöndum.

Mjólkurframleiðslan hefur dregist stórlega saman þrátt fyrir að neysla á mjólkurafurðum hafi aukist.

Mjólkursamlögin í Svíþjóð eru ekki lengur í eigu Svía.

Enginn landbúnaður eftir í Svíþjóð árið 2050

Sagði Larson að ef áfram verði haldið á sömu braut verði enginn landbúnaður eftir í Svíþjóð árið 2050. Þá telur hann að framtíð sænsks mjólkuriðnaðar verði mjög dökk þegar mjólkurkvótar verði afnumdir í ESB-löndunum. Nú sé verið að afnema mjólkurkvótana og mörg lönd innan ESB séu með lægri framleiðslukostnað en sænskir bændur. Þessir aðilar bíði nú við dyrnar.

„Hvernig eiga sænskir bændur að geta keppt við slíkt? Jú, við getum framleitt mjólkurduft á ódýrari máta en keppinautarnir í hinum löndunum. Það er bara vegna þess að raforkuverðið er enn sem stendur lægra í Svíþjóð. Það er þó lélegt haldreipi fyrir sænska mjólkurframleiðendur sem eru ört að tapa markaðshlutdeild sinni.“

Larson vara við þeim hugsunar­hætti að það sé hægt að mæta erlendri samkeppni með því einu að bjóða upp á hreinar og öruggar matarafurðir. Neytandinn setji samasemmerki við hreina matvöru og dýra matvöru. Þegar neytandinn komi svo í búðina þá sé það ekki hreinleiki vörunnar sem hafi vinninginn, heldur vegi verðið þyngst. − „Það á einnig við um alla skapaða hluti aðra sem við höfum opnað fyrir í Svíþjóð.“

Formaður norskra bænda varar við tilslökun á verndartollum

Lars Petter Bartnes, formaður norsku bændasamtakanna, Norges Bondelag, varaði norsk stjórnvöld sterklega við að slaka á verndartollum. Þeir væru langmikilvægasta vörn norskra bænda fyrir tilveru sinni. Ef slakað verði á tollum geti norskur landbúnaður hæglega farið sömu leið og sá sænski. Benti hann á að nú þegar væri mikill halli á viðskiptajöfnuði með landbúnaðarvörur við ESB-löndin. Um 70% af innflutningnum kæmi frá ESB-löndunum og þaðan kæmi níu sinnum meira af vörum en Norðmenn flytja til ESB-landanna. Bartnes bað fundarmenn einnig að hafa í huga það grundvallarsjónarmið sem samtök norskra bænda byggði tilveru sína á: „Það er nauðsynlegt að sérhvert land geti framleitt nægan mat til að uppfylla fæðuöryggi þjóðarinnar.“ Þessi sjónarmið hafa norskir stjórnmálamenn einmitt verið að taka undir á liðnum misserum í ljósi margvíslegrar viðsjár og mögulegra hryðjuverka sem steðja að þjóðum heims. Bent hefur verið á að ein birtingarmynd slíks séu alvarleg vandamál sem nú eru að koma upp í finnskum og dönskum landbúnaði í kjölfar viðskiptabanns ESB gagnvart Rússum.

Skylt efni: esb | Svíþjóð | efnahagsmál

Jólakveðja
Fréttir 24. desember 2024

Jólakveðja

Ritstjórn Bændablaðsins óskar lesendum um land allt gleðilegra jóla og farsældar...

Lækkað áburðarverð
Fréttir 23. desember 2024

Lækkað áburðarverð

Fyrsta áburðarverðskráin hefur verið gefin út fyrir næsta ár.

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum
Fréttir 23. desember 2024

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum

Auðvelt er að gera sinn eigin „harðfisk“ heima í eldhúsi úr flökum smáfisks. Flö...

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...