Leggur línurnar fyrir ferðamannasumarið
Kristín Dröfn Halldórsdóttir er nýr framkvæmdastjóri hjá baðlaugunum VÖK Baths.
Kristín Dröfn er fædd og uppalin á Austurlandi og hefur mikla reynslu af ferðaþjónustu. Hún starfaði til dæmis um langt skeið hjá Icelandair Hotels við fjölbreytt störf. Síðustu tvö ár hefur Kristín starfað hjá LS Retail, sem hluti af alþjóðlegu söluteymi í Evrópu með hugbúnaðarlausnir fyrir hótel, heilsulindir og veitingastaði.
„Ég er mjög spennt fyrir starfinu og ánægjulegt að komast aftur í tengsl við ferðaþjónustusamfélagið þar sem mínar rætur liggja. Vera í samskiptum við ferðamenn, bæði innlenda og erlenda, sem og heimafólkið okkar. Þetta er lifandi starfsvettvangur og mörg áhugaverð viðfangsefni fram undan. Fyrstu verkefnin eru að kynnast samstarfsfólki mínu og setja mig inn í daglegan rekstur. Auk þess erum við að leggja línurnar fyrir komandi ferðamannasumar,“ segir Kristín en hún tók við starfinu af Aðalheiði Ósk Guðmundsdóttur.
Vök Baths var opnað í júlí 2019 rétt hjá Egilsstöðum og telur gestafjöldinn um 100 þúsund árlega, þar af eru erlendir gestir um 60%. Um 30 manns vinna við böðin þegar mest er yfir háannatíma. Vök Baths hlaut nýsköpunarverðlaun Samtaka ferðaþjónustunnar árið 2022 og steinsteypuverðlaun Steinsteypufélagsins árið 2023 svo eitthvað sé nefnt.
En hvernig leggst sumarið 2024 í Kristínu Dröfn?
„Veðurblíðan á Héraði ætti að vera landsmönnum kunn og gangi væntingar okkar eftir um sólríkt sumar getum við átt von á töluverðum fjölda Íslendinga og miðað við spár um komu ferðamanna til landsins getum við ekki verið annað en bjartsýn.“