Matarbúrið hættir á Grandagarðinum
Nautgripabændurnir á Hálsi í Kjós tilkynntu um það á Facebook-síðu sinni í dag að verslun þeirra Matarbúrinu, sem starfrækt hefur verið á Grandagarðinum í Reykjavík undanfarin rúm tvö ár, verði lokað 21. október næstkomandi.
Í tilkynningunni kemur fram að verslunin Kjötkompaní muni koma inn í húsnæðið að Grandagarði 29 í staðin og opna í byrjun nóvember. Kjötkompaní starfrækir fyrir verslun í Hafnarfirði.
Bændurnir, þau Lisa Boije og Þórarinn Jónsson, segja í tilkynningunni að tíminn á Grandagarðinum hafi verið frábær, en nú ætli þau að snúa sér að öðrum skemmtilegri verkefnum. „Hver veit nema við bændur á Hálsi birtumst af og til á matarmörkuðum borgarinnar í framtíðinni,“ segja þau í tilkynningunni.
Þau Lísa og Þórarinn lögðu áherslu á sölu á afurðum af eigin nautgripum sem eru eingöngu eru fóðraðir á grasi og heyi – og buðu upp á alla parta og skurði af skepnunni.Þau voru með kjötvinnsluna heima á Hálsi og smá aðstöðu á Grandanum fyrir minni viðvik.
Einnig voru þau með sinnep, krydd, chutney, bratwurst-pylsur og sultur til sölu sem þau gerðu sjálf, lambakjöt frá Seglbúðum og velferðar kjúkling frá Litlu gulu hænunni.