Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Fréttir 24. janúar 2018
Matareyðimerkur verða algengari í Bandaríkjunum
Höfundur: Erla Hjördís Gunnarsdóttir - feedingchildreneverywhere.com
Sú ótrúlega þróun og veruleiki á sér stað í Bandaríkjunum að það sem nefnt hefur verið matareyðimerkur verða sífellt algengari.
Það þýðir að fólk á ákveðnum svæðum hefur ekki aðgang að matvörubúðum á sínu svæði til að nálgast venjuleg og næringarrík matvæli heldur eru eingöngu skyndibitastaðir og ruslfæði í boði í nánasta umhverfi íbúa. Þessi staðreynd á við um í kringum 11 milljónir Bandaríkjamanna í dag sem er sláandi há tala.
Því er hægt að ímynda sér þá sviðsmynd að íbúar þessara svæða hafa aldrei möguleika á að versla í venjulegum matvöruverslunum á sínu svæði, það getur ekki verslað sér ferska ávexti og grænmeti eða önnur matvæli til að elda sér heima næringarríkan og hollan mat. Skilgreining á matareyðimörkum er að engin matvöruverslun eða almennilegar almenningssamgöngur eru í um 1,6 kílómetra fjarlægð. Fæstar fjölskyldur sem búa á þessum svæðum eiga bifreið og þurfa því að reiða sig á almenningssamgöngur varðandi vinnu og ganga í verslanir sem næstar þeim eru til að kaupa í matinn, sem er á þessum svæðum eingöngu skyndibitastaðir eða litlar verslanir sem selja ruslfæði.
Skattaívilnanir og ruslfæði
Forsvarsmenn stórra matvöruverslana kanna lýðfræðilega þætti svæða áður en þeir ákveða hvar þeir opna nýjar verslanir. Því miður hefur þróunin orðið þannig að svæði þar sem fátækt ríkir í Bandaríkjunum falla ekki innan viðmiða verslanakeðjanna til að opna þar verslanir með almennilegum matvælum. Íbúar þessara svæða hafa því eingöngu aðgang að litlum hverfisverslunum sem sérhæfa sig í að selja áfengi og ruslfæði.
Í dag eru hundruð svæða sem flokka má sem matareyðimerkur í Bandaríkjunum og eru margir á því að stjórnvöld í samráði við eigendur matvöruverslana verði að taka á vandanum áður en hann verður enn stærri. Fyrsta skrefið hefur verið stigið af stjórnvöldum með því að bjóða skattaívilnanir fyrir fyrirtæki sem eru tilbúin að koma inn og opna matvöruverslanir á þessum svæðum með holl matvæli. Það hefur, enn sem komið er, ekki borið tilætlaðan árangur en von stjórnvalda er að það breytist hægt og sígandi. Á sama tíma eru aðrir sem kalla eftir meiri umræðu um matareyðimerkur og benda á að stór hluti Bandaríkjamanna viti ekki einu sinni hvað hugtakið þýði þó að milljónir samlanda þeirra þjáist án næringarríkra matvæla.