Milljónir hektara af hitabeltisskógum felldir
Gervihnattamyndir sýna að milljónir hektara af hitabeltisregnskógum voru felldir á síðasta ári til þess að ala nautgripi og rækta kakó og olíupálma.
Mest var skógareyðingin í Brasilíu þar sem skógar á friðlandi og á landi frumbyggja voru felldir ólöglega. Eyðing skóga var einnig gríðarleg í Kongó og Indónesíu.
Góðu fréttirnar eru að gervihnattamyndirnar sýna að skógareyðingin hefur dregist saman miðað við árin 2017 og 2016. Þrátt fyrir það segja fulltrúar Global Forest Watch að ástandið sé grafalvarlegt og að setja verði náttúrulega skóga í gjörgæslu til að sporna við áframhaldandi eyðingu þeirra.
Tallið er að alls hafi 3,6 milljónir hektara af ósnertum frumskógi í hitabeltinu orðið keðjusöginni að bráð á síðasta ári.