Möguleikar í metanvæðingu dráttarvélaflotans
Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir
Losun úr jarðvegi vegna framræst votlendis vegur langmest þegar metin er losun koldíoxíðs CO2 frá landbúnaði á Íslandi. Miklar áskoranir felast í að draga úr losun, m.a. með endurheimt votlendis, fækkun búfjárstofnsins, vinnslu á metangasi og metanvæðingu dráttarvélaflotans.
Þetta kemur fram í skýrslu um greiningu á losun gróðurhúsalofttegunda frá íslenskum landbúnaði sem Landbúnaðarháskóli Íslands gaf út í fyrra. Jón Guðmundsson skrifaði skýrsluna.
Losun úr jarðvegi vegna framræsts votlendis vegur langmest, en losunin er metin sem ígildi tæplega 1.800 kílótonna CO2. Losun annarra þátta innan býla er metin sem ígildi 734 kt CO2.
Losun gróðurhúsalofttegunda frá innan býla í landbúnaði má skipta upp í þrjá meginþætti, losun frá ræktarlandi, losun tengd búfé og losun vegna orkunotkunar.
Tveir losunarþættir tengjast búfé beint. Þyngst vegur losun sem verður vegna innyflagerjunar, sem er um 80% af losun tengdri búfé eða ígildi 294 kt CO2.
„Innyflagerjun er loftfirrt niðurbrot fæðunnar sem er virkast hjá jórturdýrum en á sér einnig stað hjá öðrum dýrum sem nýta beðmi (sellulosa) sér til viðurværis svo sem hjá hrossum og svínum. Við innyflagerjun verður til metangas (CH4) sem skepnurnar losa sig við með ropi og prumpi. Búfjáráburður eða skíturinn úr skepnunum inniheldur töluvert af lífrænum efnum, sem halda áfram að brotna niður eftir að hann gengur niður af skepnunni. Ef hann er geymdur við loftfirrtar aðstæður þá myndast metan (CH4), eins og í meltingarfærunum. Í þvagi og skít er einnig talsvert af köfnunarefnissamböndum, sem örverur geta nýtt sem orkugjafa en við það myndast m.a. hláturgas (N2O).
Hversu mikið losnar af þessum gastegundum er háð ýmsum þáttum eins og samsetningu fæðunnar og meltanleika hennar svo og eiginleikum viðkomandi dýrategundar og hversu mikið er eftir af nýtanlegri fæðu fyrir örverur í því sem niður af skepnunum gengur og við hvaða aðstæður skíturinn er geymdur,“ segir í skýrslunni.
Minni bústofn minnkar losun
Jón segir möguleika landbúnaðarins til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði margvíslega. Þegar kemur að innyflagerjun í búfé sé ekki hægt að breyta miklu, þó sé augljóst að fækkun búfjár eða mismunandi samsetning bústofns hafi áhrif.
„Það liggur beinast við að fækka í bústofninum, því hér er offramleiðsla á ýmsum afurðum. Við þurfum að horfa á hversu mikla framleiðslu við virkilega þurfum. Þá er hægt að huga að því hversu mikil losun er frá hverri skepnu samanborið við hvað hún gefur af afurðum. Þannig væri til að mynda hægt að leggja mat á hve miklar tekjur eru á bak við hverja losunareiningu. Einnig má nefna að ákveðin bústofn getur verið okkur losunarlega dýr, en annar hagstæðari. Þannig væri hægt að skipta út búfé sem er að losa meira fyrir það sem losar minna. Ef menn eru að horfa á hvaða leiðir eru tækar til þess að framkvæma slíkt þá væri hægt að nýta hvata í styrkjakerfi,“ segir Jón.
Útfærsla á metanvinnslu aðkallandi
Losun úr búfjáráburði, telur um 20% af beinni losun frá búfé, eða ígildi 92 kt CO2. Í skýrslunni er nefndur sá möguleiki að minnka þessa losun með vinnslu metans úr búfjáráburði.
„Mögulega má vinna úr þeim búfjáráburði sem hér fellur til um 17 þúsund tonn af metani,“ segir í skýrslunni en þessi metanvinnsla svarar til orkuinnihalds í 20 þúsund tonn af dísilolíu sem er rúmlega það sem allar dráttarvélar í landbúnaði eru að nota samkvæmt áætlaðri notkun. Þá gæti metanvinnsla úr búfjáráburði verið farvegur fyrir önnur lífræn úrgangsefni og bætt þannig næringarefnum inni á býlum, sem ella væru ekki nýtt. Þannig mætti draga úr þörf á tilbúnum áburði og bæta hringrás mikilvægra efna eins og t.d. fosfórs.
Jón segir rannsóknir á útfærslu metanvinnslu hér aðkallandi. Einnig ætti að huga að þessum þætti við byggingu nýrra gripahúsa. „Menn ættu að huga að því við hönnun húsa, hvernig úrvinnsla á mykjunni passar þar inn og koma í veg fyrir að menn sætu uppi með ómöguleg haughús og kjallara í nýjum húsum,“ segir Jón.
Raunlosun mæld á fimm býlum
Í skýrslunni kemur fram að nauðsynlegt sé að styrkja mat á núverandi losun innan býlanna með því að efla innlendar rannsóknir og mælingar.
Eitt slíkt verkefni er nú í farvatninu hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins. Lagt verður mat á helstu losunarþætti og umfang losunar og bindingu gróðurhúsalofttegunda á fimm býlum með greiningum og mælingum. Horft verður á aðkeypt aðföng, bústofn, framleiðslu og landnotkun. Niðurstöður verkefnisins muni gefa til kynna raunlosun frá hverju býli fyrir sig.
Auglýst var eftir þátttökubúum í júní og hafa þátttakendur nú verið valdir. Lagt var upp með að fanga breytileika milli landfræðilegra þátta ásamt því að horfa á samsetningu bústofns, segir Snorri Þorsteinsson, jarðræktarráðunautur hjá RML.
Í verkefninu munu taka þátt tvö sauðfjárbú. Annars vegar er það Mælifellsá í Skagafirði en þar er rekið lífrænt sauðfjárbú og hins vegar Hafrafellstunga í Öxarfirði.
Hin þátttökubúin eru Hvanneyrarbúið í Borgarfirði, Káranes í Kjós og Þorvaldseyri í Rangárþingi eystra.
Að sögn Snorra eiga þessi bú það sammerkt að vera í mjólkurframleiðslu en eru þó um margt mjög ólíkar rekstrareiningar með ólíka hliðarstarfsemi.