Nýárslömbin Frosti og Fannar
Ærin Rökkva á bænum Stafafelli, skammt frá Höfn í Hornafirði, gerði sér lítið fyrir og bar tveimur hrútlömbum milli jóla og nýárs.
Lömbin hafa fengið nöfnin Frosti og Fannar. Það merkilega er að Rökkva bar einnig 30. janúar síðasta vetur og hefur því borið tvisvar sinnum á sama ári. Þá átti hún svartbotnótt flekkótta og svartflekkótta gimbrar, sem voru báðar settar á í haust.
„Það er alltaf gaman að fá lömb, ekki síst svona í skammdeginu. Þau lífga upp á hversdagsleikann og svo tekur alvöru sauðburður við í vor, það er alltaf frábær tími,“ segir Helga Þórelfa Davids bóndi, en hún og maður hennar, Sigurður Ólafsson, eru með um 350 vetrarfóðraðar kindur á bænum. Á heimilinu er líka ástralski fjárhundurinn Baldur.