Nýtt ferðamálanám hefst haustið 2016
Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson
„Viðskiptahugmyndin er í grunninn nám sem Háskólafélag Suðurlands er að þróa í samstarfi við Háskólann í Malaga á Spáni og UHI-háskólann í Skotlandi, og ráðgert er að hleypa af stokkunum haustið 2016, en Háskólafélagið fékk styrk í fyrra úr Erasmus+ áætluninni.
Námið ber vinnuheitið „Ferðamálabrú – Nýsköpun og stjórnun“ og er ætlað fyrir ferðaþjónustuaðila, bæði stjórnendur og starfsmenn.
Hugmyndin hefur verið kynnt fyrir ferðaþjónustuaðilum á svæðinu, Samtökum ferðaþjónustunnar (SAF), Rannsóknarmiðstöð ferðamála og fleiri aðilum. Segja má að aðilar séu sammála um það að veruleg þörf er á slíku námi fyrir ferðaþjónustuna,“ segir Valgerður Pálsdóttir. Kynnti hún námið ásamt Ingunni Jónsdóttur, starfsmanni Háskólafélagsins og verkefnastjóra verkefnisins, í hádegisfyrirlestri í Fjölheimum á Selfossi nýlega.
Kennslufyrirkomulag Ferðamálabrúarinnar verður að nokkru leyti byggt á sama fyrirkomulagi og var í Matvælabrúnni sem Háskólafélagið er með. Annars vegar verður um að ræða bóklega fyrirlestra og hins vegar svokallaða fyrirtækjavist en í henni gefst nemendum tækifæri til að kynnast öðrum ólíkum fyrirtækjum innan greinarinnar. Að auki er nýtt sérþekking innan fyrirtækjanna til kennslu á afmörkuðu efni.
„Markmið Ferðamálabrúarinnar er að auka þekkingu meðal starfsmanna og stjórnenda í ferðaþjónustunni til að auka gæði og framleiðni fyrirtækjanna. Námið er eins árs diplómanám ætlað fyrir starfandi aðila í ferðaþjónustu þar sem áhersla er lögð á nýsköpun og stjórnun en námið verður skipulagt í náinni samvinnu við ferðaþjónustuna sem er að verða ein mikilvægasta atvinnugreinin á Suðurlandi.“