Nýtt smáforrit frá ASÍ
Verðlagseftirlit Alþýðusambands Íslands hefur látið hanna nýtt smáforrit fyrir almenna neytendur til að fylgjast með vöruverði.
Með nýja smáforritinu, appinu Prís, geta notendur á fljótlegan hátt skoðað mismunandi verðlagningu einstakra vara milli verslana. Prís er aðgengilegt fyrir öll snjalltæki, bæði Android og iOS, og er neytendum að kostnaðarlausu.
Segir í frétt ASÍ að forritið sé „kröftugt innlegg Alþýðusambandsins í baráttunni gegn þeirri verðbólgu sem nú leggst á íslenskt samfélag. Standa vonir til þess að forritið auðveldi neytendum að veita virkt aðhald með samkeppni á smásölumarkaði.“ Í Prís er hægt að skanna strikamerki á vörum og fá upplýsingar um hvað sama vara kostar í fjölda annarra verslana.
Hyggst verðlagseftirlitið þróa smáforritið áfram og gera meðal annars verðsögu aðgengilega í því, ásamt fleiri viðbótum sem gagnast munu neytendum.
Prís smáforritið var unnið innan vébanda ASÍ en ríkisstjórnin kom að verkefninu með 15 milljóna króna styrk í anda þess að það sé sameiginlegt markmið beggja aðila með verkefninu að vinna gegn verðbólgu.