Óður til kindarinnar
Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson
Maja Siska á bænum Skinnhúfu í Holta- og Landsveit opnar sýningu á verkum sínum sem hún kallar „Óður til kindarinnar“ fimmtudaginn 23. mars kl. 18.30 í Grafíksalnum, Tryggvagötu 17 í Reykjavík.
Maja Siska.
Við opnunina mun Bára Grímsdóttir kveða nokkrar rímur og kindabjúgu og hangikjöt verða í boði. Sýningin er opin til 9. apríl. Verkin á sýningunni eru öll unnin úr ull eða gæru, ullin er ýmist þæfð eða ofin. Hún er spunnin, toguð og mótuð en þannig er látið reyna á fjölbreytileika hennar. „Með notkun fornra hefða í handverkinu næ ég að að tengjast fortíðinni, fjárbúskapnum og ekki síst þjóðarsálinni. Sýningin „Óður til kindarinnar“ miðlar þakklæti fyrir afurðir hennar, fegurð og hugrekki,“ segir Maja Siska.