Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 mánaða.
Óhreinsað skólp safnast fyrir í siturbeð við skólphreinsistöð Hveragerðisbæjar í Vorsabæ. Stöðin er komin yfir þolmörk og virkar því tveggja þrepa hreinsunarferlið þar sem skyldi.
Óhreinsað skólp safnast fyrir í siturbeð við skólphreinsistöð Hveragerðisbæjar í Vorsabæ. Stöðin er komin yfir þolmörk og virkar því tveggja þrepa hreinsunarferlið þar sem skyldi.
Fréttir 16. janúar 2024

Ófremdarástand í fráveitumálum

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Hveragerði hefur verið undir smásjá Heilbrigðiseftirlits Suðurlands vegna fráveitu bæjarins. Í júní á síðasta ári var bæjarfélagið áminnt eftir að heilbrigðiseftirlitið hafði sent ítrekaðar kröfur um úrbætur.

Skólphreinsistöð Hveragerðisbæjar í Vorsabæ var tekin í notkun árið 2002 og þótti þá mikið framfaraskref í fráveitumálum sveitarfélagsins. Skólphreinsistöðin er með tveggja þrepa hreinsun sem, samkvæmt starfsleyfisskilyrðum, felur í sér lífræna hreinsun þar sem örverur brjóta niður næringarefni í skólpinu, bæði loftháð og loftfirrt. Fastur ólífrænn úrgangur er síaður frá skolpvatni í grófsíu, sandur er felldur niður í sandfelliker og fitu er fleytt ofan af í fituþró. Eftirhreinsun fer fram í um 3.500 fm siturbeði með 300 metra löngu malarfylltu skurðakerfi sem skólpvatnið seytlar um áður en það er losað í viðtaka.

Viðtakinn er Þorleifslækur í Varmá sem skilgreint er sem viðkvæmt vatnasvæði. Hveragerðisbær hefur gert þriggja ára samning við veiðifélög á svæðinu sem fela í sér bætur vegna banns við stangveiði í ánni um ótilgreindan tíma.

Viðtakinn er Þorleifslækur í Varmá, sunnan bæjarins, sem var annáluð sjóbirtingsveiðiá en skilgreind sem viðkvæmt vatnasvæði. Frá því í mars sl. hefur veiði í ánni verið óheimil um ótilgreindan tíma vegna lakra vatnsgæða af völdum affalls frá skólphreinsistöðinni.

Viðvarandi frávik

Skólphreinsistöðin er hönnuð til að taka við 4.400 persónueiningum og er hámarksrennsli hennar 120 rúmmetrar á klukkustund. Í byrjun október voru 3.314 íbúar í Hveragerði en auk þess er í bænum fjöldi ferðamanna í gistingu ásamt ýmsum atvinnurekstri. Samkvæmt úttekt og mælingu er áætlað álag hreinsistöðvarinnar um 5.500 persónueiningar og hámarksrennsli 200 rúmmetrar á klukkustund. Hún er því komin yfir þolmörk og aðkallandi er að sveitarfélagið fari í úrbætur og framkvæmdir við stækkun stöðvarinnar svo hún geti annað álagi sístækkandi byggðarlags.

Í eftirliti Heilbrigðiseftirlits Suðurlands á fráveitukerfi Hveragerðis í byrjun nóvember sl. komu fram fjögur frávik frá starfsleyfisskilyrðum og lögum um fráveitur og skólp.

Fyrsta frávikið snýr að því að hreinsuð seyra er urðuð innan lóðar skólphreinsistöðvarinnar þar sem ekki hefur gengið að koma henni í nýtingu.

Þá hefur fjöldi saurgerla í ánni verið yfir mörkum og var fyrst getið um það í úttekt árið 2018. Það vandamál virðist viðvarandi.

Þriðja frávikið snýr að sitursvæði stöðvarinnar sem er nú ónothæf. Nú safnast óhreinsað skólp á svæðið þegar hreinsistöðin ræður ekki við magnið sem kemur inn í hana og hún fer á yfirfall. Þá eru ummerki um úrgang við útrás og í viðtaka sem og set og fita sem er brot á starfsleyfisskilyrðum.

Hreinsuð seyra er urðuð innan lóðar skólphreinsistöðvarinnar í Hveragerðisbæ þar sem ekki hefur gengið að koma henni í nýtingu.

Engar aðgerðir hafnar

Á bæjarstjórnarfundi í Hveragerði þann 29. nóvember sl. svaraði Geir Sveinsson bæjarstjóri fyrirspurn frá bæjarfulltrúum D-listans vegna endurbóta á fráveitumannvirkjum. Vísuðu fulltrúarnir í fjárfestingaáætlun fyrir árið 2023 sem gerði ráð fyrir að 30 milljónir króna yrðu settar í endurbætur. Í svari bæjarstjóra kemur fram að ekki hafi verið ráðist í eiginlegar aðgerðir á fráveitunni sjálfri því vandamál fráveitunnar kalli á fjárfrekar aðgerðir með gerð nýrrar fráveitustöðvar.

Samkvæmt fjárhagsáætlun Hveragerðisbæjar 2024-2026 er gert ráð fyrir kostnaði upp á 500 milljónir króna við endurbætur á fráveitunni og á fundi bæjarráðs 21. desember sl. voru lögð fram drög að ráðgjafarsamningi við Mannvit vegna fráveitunnar.

Heilbrigðiseftirlit Suðurlands gaf Hveragerðisbæ frest til 13. desember til úrbóta og þann 12. desember funduðu starfsmenn þess með Geir Sveinssyni bæjarstjóra. Þar kemur fram að bærinn muni senda Heilbrigðiseftirlitinu foraðgerðaráætlun, sem er undanfari aðgerðaráætlunar, í síðasta lagi 15. janúar nk. Aðrar hugmyndir til að minnka álag á hreinsistöðina sem voru ræddar á fundinum var að hvetja íbúa og atvinnurekendur til að fara í vatnssparandi aðgerðir.

Einnig koma fram ætlanir um að setja upp 1.000 pe. hreinsistöð í Árhólmum en í minnisblaði kemur fram að Heilbrigðiseftirlit Suðurlands hafi efasemdir um að það nægi. Einnig segir að Hveragerðisbær hafi gert þriggja ára samning við veiðifélög á svæðinu sem fela í sér bætur vegna banns við stangveiði í ánni.

Caption
Vildu gefa skít í Ölfus

Ein stærsta áskorun fráveitumála Hveragerðisbæjar lýtur að því að koma seyrunni frá skólphreinsisvæðinu og til nýtingar. Við tveggja þrepa vinnslu hreinsistöðvarinnar auk útvötnunar og kölkunar er seyran tilbúin til nýtingar sem áburður á yfirborði og falla til um 2–3 rúmmetrar af slíku efni í hverri viku. Þar sem ekki hefur gengið að koma henni í nýtingu er hún nú urðuð innan lóðar skólphreinsistöðvarinnar í Vorsabæ, en slík urðun er óleyfileg.

Mikil verðmæti eru fólgin í seyru að því er fram kemur í skýrslu Umhverfisstofnunar um fráveitumál, þar sem hún sé full af lífrænu efni og næringarefnum sem fara til spillis þegar skólpi er hleypt út í sjó.

„Náttúrulegar fosfórbirgðir jarðar eru takmarkaðar og því er mikilvægt að huga betur að nýtingu þessarar auðlindar t.d. til landgræðslu eða gasframleiðslu í stað urðunar“, segir í skýrslunni.

Hveragerðisbær fór þess á leit að sveitarfélagið Ölfus tæki við unninni seyru til uppgræðslu á Þorláksskógum. Í svari frá Höskuldi Þorbjarnarsyni, umhverfisfulltrúa Hveragerðisbæjar samþykkti bæjarstjórn Ölfus að taka við seyrunni árið 2022 en frestaði því svo þar til fleiri gögn lægju fyrir. Þau gögn útheimtu verulegar og dýrar langtímarannsóknir sem Hveragerðisbær gat ekki staðið fyrir.

Í minnisblaði Heilbrigðiseftirlits Suðurlands frá 13. desember sl. kemur fram að Hveragerðisbær muni nú vera í viðræðum við Hrunamannahrepp um að móttökustöðin Seyrustaðir á Flúðum taki við seyrunni.

Skylt efni: Hveragerði | fráveitumál

Hlaðvarp um landbúnað í aðdraganda kosninga
Fréttir 22. nóvember 2024

Hlaðvarp um landbúnað í aðdraganda kosninga

Áherslur framboða í málefnum tengdum landbúnaði er umræðuefni hlaðvarpsins „Á hl...

Lán að ekki fór verr
Fréttir 22. nóvember 2024

Lán að ekki fór verr

Um sex þúsund varphænur drápust í eldsvoðanum sem varð í eggjabúi hjá Nesbúeggju...

Aldrei fleiri umsóknir um nýliðunarstuðning
Fréttir 22. nóvember 2024

Aldrei fleiri umsóknir um nýliðunarstuðning

Matvælaráðuneytið hefur úthlutað nýliðunarstuðningi í landbúnaði fyrir árið 2024...

Ákvörðun felld úr gildi
Fréttir 21. nóvember 2024

Ákvörðun felld úr gildi

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að nýlega samþykktar undaþágu...

Skráð heildartjón rúmur milljarður
Fréttir 21. nóvember 2024

Skráð heildartjón rúmur milljarður

Skráð heildartjón vegna kuldakasts og annars óvenjulegs veðurfars á árinu er rúm...

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu
Fréttir 21. nóvember 2024

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu

Áður en Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm boðaði Kaupfélag Skagfirðinga (KS) ...

Undanþágan dæmd ólögmæt
Fréttir 21. nóvember 2024

Undanþágan dæmd ólögmæt

Óvissa er uppi um framhald samruna og hugmynda Kaupfélags Skagfirðinga (KS) um h...

Pólar hestar fyrirtæki ársins
Fréttir 19. nóvember 2024

Pólar hestar fyrirtæki ársins

Markaðsstofa Norðurlands hefur valið hestaleiguna Pólar hestar sem fyrirtæki árs...