Olíuverslun hefur aukist
Samkvæmt virðisaukaskattskýrslum hefur velta aukist í flestum atvinnugreinum undanfarið ár, frá júlí til ágúst 2021 til sömu mánaða 2022.
Í sumum atvinnugreinum var aukningin þó minni en hækkun verðlags en vísitala neysluverðs hækkaði um 10% á þessu tímabili.
Velta jókst um 84% í olíuverslun. Samkvæmt verslunarskýrslum var svipað magn eldsneytis flutt inn í júlí til ágúst 2021 og sömu mánuði 2022 en einingarverð hækkaði mikið á milli ára. Sömuleiðis má skýra 46% aukningu veltu í framleiðslu málma með verðhækkunum þar sem svipað magn var flutt út en einingarverð hækkaði. Aukningu veltu í byggingarstarfsemi um 34% má að einhverju leyti skýra með auknum umsvifum. Þannig fengu 10% fleiri einstaklingar laun í þessari atvinnugrein í júlí til ágúst 2022 en á sama tímabili ári fyrr.