Meistaralegt hugvit að koma sér til byggða á fjórhjóli.
Öryggi, heilsa og umhverfi 10. júlí 2020

Ég fer í fríið ...

Hjörtur L. Jónsson
Einkunnarorð hjá mörgum er að ferðast innanlands í sumar enda landið fallegt og af mörgu er að taka í náttúru Íslands sem vert er að skoða. 
 
Mikið hefur verið um auglýsingar frá hinum ýmsu landshlutum um fegurð og það sem er í boði af þjónustu af ýmsum toga, s.s. gistingu, veitingum og það sem vert er að skoða á hverjum stað fyrir sig.
 
Árið byrjaði vel og stefndi í slysalítið ár
 
Fram til loka júní höfðu aðeins tveir látist í umferðinni og stefndi í metár, en slysin gera ekki boð á undan sér þrátt fyrir að varað sé sérstaklega við þeim. Svo var síðastliðinn sunnudag þegar nokkur mótorhjól komu upp úr Hvalfjarðargöngunum sem endaði með skelfilegum afleiðingum. Undanfarið hafa mótorhjólamenn verið að gagnrýna á spjallsíðum mótorhjólafólks að næstum allt nýtt malbik sé verra en hálustu vegir á vetrum þegar það blotnar. Mikið vantar af ferðamönnum í umferðina vegna COVID-19 og mjög fáir erlendir ferðamenn á landinu sem undanfarin ár hafa fyllt vegi landsins á bílaleigubílum. Með færri ferðamönnum og minkandi umferð ætti slysum á vegum að fækka, en til þess að það náist þurfum við að hjálpast að í að virða umferðarlög og vera varkár í umferðinni, það eru alls staðar hættur.
 
Að vera tilbúinn til ferðalaga er lykillinn að ánægjulegu ferðalagi
 
Bras getur verið skemmtilegt, en bara að vissu marki, það er ekki gaman að vera fastur í vegkanti með sprungið dekk ef felgulykillinn er ekki í bílnum eða tjakkurinn. 
 
Það að vera tilbúinn fyrir ferðalag vill gleymast hjá mörgum, en þetta er ósköp einfalt, fara yfir bílinn (eða mótorhjólið) áður en farið er í ferðalag. Er loft í varadekkinu, er hægt að ná varadekkinu undan bílnum? (Í bílum þar sem varadekk er undir bíl aftan til er það ótrúlega oft ryðgað fast og getur verið stórmál að ná undan). Er rafmagnspumpa með og tappasett fyrir varadekkslausa bíla í bíl? 
 
Þetta ofantalið er oft auðvelt að fara yfir og kostar ekki mikið miðað við kostnaðinn sem gæti orðið ef ekki er farið yfir þessa hluti.
 
Snillingarnir á landsbyggðinni hafa bjargað mörgum 
 
Hjálpsamir verkstæðismenn og einstak­lingar hafa bjargað mörgum ferða­manninum. Einstaka sinn­um rekst maður á myndir af  „redd­ingum“ sem einhverjir mundu nefna „skítamix“. Sjálfur hef ég haft gaman af að sjá myndir af þessum „reddingum“, oft hefur mér dottið í hug að þessir snillingar hafi hugvit og gáfur til reddinga sem eru með ólíkindum (sjá myndir).
 
Ökukennarar fengu skot á Facebook
 
Nokkrum sinnum hef ég minnst á hér í þessum pistlum hættuna af ljósleysi aftan á bílum í umferðinni og hvatt bílstjóra til að blikka háuljósunum fyrir aftan bíla sem eru afturljósa-lausir. Þetta virðist virka vel og ansi margir bílstjórar eru farnir að átta sig og kveikja ljós við blikkið. Hins vegar mættu fleiri gera þetta og vil ég benda sérstaklega ökukennurum á að setja þetta inn í námið. Fyrir nokkrum dögum sá ég á Facebook færslu frá atvinnubílstjóranum Rúnari Harðarsyni skot sem ætlað var ökukennurum sem var orðrétt svohljóðandi (birt með leyfi):  
 
„Ok ég ásamt haug af fólki höfum verið að gagnrýna fólk sem ekki kveikir ljósin á nýrri gerðum af farartækjum. Svo í dag sá ég ástæðuna ... nokkrum ökukennurum hefur láðst að kenna nemendum þetta trix með takkann. Alla vega ók ég eftir 4 ökukennslufarartækjum í dag og mismunandi bifreiðar og einungis ledborðar að framan og málið dautt ...“