Óvissa um starfsemi BÍL
Aðalfundur Bandalags íslenskra leikfélaga (BÍL) lýsir yfir vonbrigðum með drátt sem orðið hefur á að framlengja rekstrarsamning menningar- og viðskiptaráðuneytisins við samtökin.
„Nú er liðið hátt á annað ár síðan síðasti langtímasamningur rann út í árslok 2021 og síðan hefur mikil óvissa ríkt með starfsemi Þjónustumiðstöðvarinnar og samtakanna. Tveir skammtímasamningar hafa með eftirgangs munum verið gerðir á þeim tíma. Þeir skammtímasamningar hafa haldið starfseminni á floti en sú óvissa sem verið hefur með rekstrargrundvöll samtakanna er óásættanleg til lengdar. Ekki bætir úr skák að í skammtímasamningunum er kveðið á um lækkun á framlagi frá fyrri tíð. Þetta gerist þrátt fyrir að framlag til samtakanna hafi verið skorið niður um nær helming í kjölfar efnahagserfiðleikanna fyrir rúmum áratug og hafi aldrei verið leiðrétt síðan.
Þjónustumiðstöð BÍL þjónustar nær alla þá aðila sem stunda leiklist á landinu og fyrir utan eigin aðildarfélög má þar m.a. nefna stofnanaleikhúsin, frjálsa leikhópa, grunn og framhaldsskóla auk kvikmyndafyrirtækja og margra fleiri. Mikilvægi hennar fyrir sviðslistir á landinu er óumdeilanlegt þó ekki fari það alltaf hátt. Aðalfundur BÍL skorar á ráðherra menningarmála og menningar og viðskiptaráðuneytið að bæta hér úr svo fljótt sem auðið er,“ segir í ályktun aðalfundar BÍL, sem fram fór í Neskaupstað 6. maí síðastliðinn.