Samdráttur í sauðfjársæðingum um 40 prósent frá 2016
Í samantekt Eyþórs Einarssonar, ábyrgðarmanns í sauðfjárrækt hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML), um nýliðna sauðfjársæðingavertíð kemur fram að samdráttur hafi orðið í sauðfjársæðingunum annað árið í röð.
Eyþór birti niðurstöður sínar á vef RML á föstudaginn þar sem fram kemur að nokkuð ljóst sé að þeir erfiðleikar sem greinin stóð frammi fyrir eftir að afurðaverði hrundi haustið 2017 hafi haft bein áhrif á umsvif ræktunarstarfsins og þar með neikvæð áhrif á rekstur sæðingastöðvanna. Til lengri tíma geti sú staða dregið úr kynbótaframförum og snúa þurfi vörn í sókn.
Samkvæmt yfirliti Eyþórs var samdrátturinn á milli síðustu tveggja ára um 18 prósent og frá 2016 er hann um 40 prósent, mestur á Suðurlandi og Vesturlandi.
Drjúgur frá Hesti vinsælastur
Sá hrútur sem fékk mesta notkun þennan veturinn var Drjúgur 17-808 frá Hesti en úr honum voru sendir út 2.020 skammtar. Þetta er nokkuð meiri notkun en 2017 þegar sendir voru 1.835 skammtar úr hrútinum Mávi 15-990 frá Mávahlíð. Næstflestir skammtar voru útsendir úr Durt 16-994 frá Hesti, eða 1.685 skammtar. Af kollóttu hrútunum var mest sent út af sæði úr Guðna 17-814 frá Miðdalsgröf, 955 skammtar.
Lesa má yfirlit Eyþórs á vef RML: