Sauðfé sleppur út fyrir girðingar
Vestmannaeyjabær hefur ekki enn gripið til gjaldheimtu vegna afskipta af lausagöngufé. Sauðfé hefur þó reglulega komist út úr beitarhólfum í sumar.
Sveitarstjórn Vestmannaeyjabæjar samþykkti uppfærða gjaldskrá fyrir handsömun eða afskipti af lausagöngufé í byrjun sumars. Brynjar Ólafsson, framkvæmdastjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs, segir ástandið hafa lagast eftir að verðskráin var hækkuð, þó enn sleppi fé út fyrir þau svæði sem þeim er ætlað.
Brynjar segir að til fjölda ára hafi lausaganga á sauðfé verið til vandræða, sérstaklega á syðri hluta Heimaeyjar, þar sem byggðin er dreifðari. Í sumar voru tilfelli þar sem sauðfé gekk laust í þéttbýlinu. Umræða um þessi mál hefur verið hávær í bæjarfélaginu í undanfarið. Brynjar segir þessi mál vera viðkvæm og því hefur sveitarfélagið ekki enn rukkað viðkomandi búfjáreigendur fyrir afskipti af fénu.
Brynjar segir að þónokkrir aðilar séu með sauðfé í Heimaey og telur hann að lausagönguféð komi frá litlum hluta búfjáreigendanna. Samkvæmt matvælaráðuneytinu voru 172 vetrarfóðraðar kindur skráðar í Vestmannaeyjum síðastliðið haust. Í þeim tölum er ekki tekið sérstaklega fram hversu stór hluti er í Heimaey eða í úteyjunum.
Samkvæmt Brynjari hefur verið unnið að endurbótum á girðingum í sumar og er ástandið að færast í rétta átt. Vinsæll göngustígur liggur hins vegar í gegnum eina girðinguna og sleppur fé gjarnan út þegar fólk lokar ekki hliðum. Í ljósi þessa segir Brynjar að ekki sé hægt að skella skuldinni á búfjáreigendurna í öllum tilfellum.